— Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Nokkur veðurblíða hefur verið norðan heiða að undanförnu, svo mikil að snjómokstur hefur verið gott sem enginn á Akureyri. Hins vegar hafa menn í nægu að snúast við að þrífa upp bæði salt og sand af götum bæjarins

Nokkur veðurblíða hefur verið norðan heiða að undanförnu, svo mikil að snjómokstur hefur verið gott sem enginn á Akureyri. Hins vegar hafa menn í nægu að snúast við að þrífa upp bæði salt og sand af götum bæjarins. Þessi bíll var á ferðinni um Drottningarbrautina um miðjan dag í gær með talsverða bílalest á eftir sér er hann gerði brautina hreina.

Þótt snjólítið sé í bænum er enn hægt að skíða í Hlíðarfjalli og hefur verið nóg að gera á skíðasvæðinu. Útlit er fyrir áframhaldandi hlýindi á Norðurlandinu í dag og næstu daga. Samkvæmt veðurspá verður allt að fimm stiga hiti á Akureyri í dag og á morgun. Með því er spáð nokkru hvassviðri og úrkomu svo ólíklega verður hægt að tala um blíðviðri.