Geirlaug María Brynjólfsdóttir var fædd á Akureyri 29. nóvember 1955. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 31. janúar 2025.
Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Sigurbjörnsdóttir, f. 8.6. 1927 á Björgum í Kinn, d. 26.6. 2015, og Brynjólfur Bragi Jónsson, f. 4.8. 1916 á Hólum í Eyjafirði, d. 29.3. 1997. Systur Geirlaugar: 1) Björg Brynjólfsdóttir, f. 9.10 1954, hennar maður er Árni Sigurðsson, f. 2.12. 1956, hún á þrjú börn. 2) Sigrún Brynjólfsdóttir, f. 22.7. 1959, hennar maður er Ásgrímur Þór Benjamínsson, f. 19.2. 1956, þau eiga tvö börn. 3) Hrefna Brynjólfsdóttir, f. 18.5. 1965, hennar maður er Þorvaldur Í. Þorvaldsson, f. 31.7. 1958, þau eiga fjögur börn.
Árið 1979 giftist Geirlaug eftirlifandi eiginmanni sínum Arnóri Arnórssyni, f. 25.3. 1954 á Akureyri. Foreldrar hans voru Arnór Jón Einarsson, f. 7.5. 1918, d. 7.2. 1962, og Sigríður Jónína Júlíusdóttir, f. 2.11. 1917, d. 27.8. 1967.
Geirlaug ólst upp á Akureyri og bjó þar alla tíð. Sem barn fór hún í sveit á sumrin í Hóla eða í Björg. Hún gekk í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar en fór snemma út á vinnumarkaðinn og vann ýmis störf. Lengst vann hún á Verksmiðjunum á Gleráreyrum en þurfti snemma að hætta vinnu vegna heilsubrests. Handavinna var hennar líf og yndi og eftir hana liggja margir fallegir hlutir.
Geirlaug og Arnór keyptu sína fyrstu íbúð í Spítalavegi 1 þar sem þau bjuggu í 20 ár. Þá fluttu þau í Fjólugötu 13 og voru þar næstu 20 árin. Eftir það bjuggu þau um hríð í Seljahlíð en síðustu fimm árin hafa þau búið í Davíðshaga 6.
Útför Geirlaugar fór fram í kyrrþey frá Akureyrarkirkju 18. febrúar 2025.
Fyrir tæpum fimm árum festum við hjónin kaup á íbúð í Davíðshaga á Akureyri.
Stuttu áður en við fengum íbúðina afhenta renndum við fram hjá blokkinni og segir þá Kalli minn allt í einu: Sérðu hver stendur þarna við hliðina á íbúðinni okkar, það er hann Addi, við verðum ekki svikin með nágranna.
Hann reyndist svo sannarlega sannspár því betri granna held ég ekki að nokkur gæti hugsað sér.
Arnór og Geirlaug, alltaf kölluð Gilla, voru sannarlega góðir nágrannar. Það var gaman að spjalla við Geirlaugu og var það þá oftast um prjónaskap en hún var mikil hannyrðakona og liggja mörg falleg verk eftir hana. Og aldrei er Adda svara vant þegar spurningar vakna varðandi bátavélar og önnur tæknileg atriði. Þar er hann á heimavelli.
Upp úr 1970 leigðum við íbúð á neðri hæð á Byggðavegi 90 og uppi bjuggu foreldrar Geirlaugar, Guðrún og Brynjólfur. Gilla hefur þá verið flutt að heiman því þau kynntust ung hún og Addi, en það voru góðir straumar frá því sómafólki á efri hæðinni.
Löngu seinna þegar við bjuggum í Vanabyggðinni röbbuðum við oft við Guðrúnu móður Geirlaugar þegar hún var á rölti að bera út Moggann.
Það er því orðinn langur tími sem við hjónin höfum átt tengingu og vinskap við allt þetta góða fólk.
Nú er Gilla fallin frá en Addi vinur okkar heldur áfram sinni göngu.
Við hjónin kveðjum Geirlaugu og vottum Adda og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.
Karl Davíðsson og
Margrét Eyfells.