Fyrirlestur Jón Karl Helgason.
Fyrirlestur Jón Karl Helgason. — Morgunblaðið/GSH
Jón Karl Helgason prófessor velti fyrir sér í fyrirlestri í vikunni hvers vegna rithöfundurinn Guðmundur Kamban hefði boðið dönskum frelsisliðum, sem komu til að handtaka hann í Kaupmannahöfn á friðardaginn 5

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Jón Karl Helgason prófessor velti fyrir sér í fyrirlestri í vikunni hvers vegna rithöfundurinn Guðmundur Kamban hefði boðið dönskum frelsisliðum, sem komu til að handtaka hann í Kaupmannahöfn á friðardaginn 5. maí 1945, birginn með þeim afleiðingum að hann var skotinn til bana.

Vopnaðir andspyrnumenn komu um hádegisbil á Pension Bartoli, þar sem Kamban bjó ásamt eiginkonu sinni og dóttur, í þeim tilgangi að handtaka hann. Kamban varð mjög æstur og neitaði að fara með mönnunum og sama máli gegndi um dótturina Sybil sem tók sér stöðu fyrir framan föður sinn og grýtti leirtaui í átt að komumönnum. Þegar þeir hótuðu loks að skjóta Kamban hvatti hann þá til þess.

Jón Karl vísaði m.a. til greinar sem William Ian Miller, bandarískur lögfræðingur með sérþekkingu á íslenskum fornbókmenntum, hefur skrifað um ýmis dæmi úr mannkynssögunni og heimsbókmenntunum þar sem einstaklingar nýta sér svonefnda ógnaryfirburði, þ.e.a.s. að hafa í hótunum, sýna ískyggilegt látbragð, reyna að skjóta skelk í bringu þótt þeim séu sjálfum öll sund lokuð. Þá kunni að vera hentugri kostur að skilja ekki ógöngurnar sem maður er í. Þrjóska, einfeldni og jafnvel hrein heimska geti stundum tryggt vinninginn.

Jón Karl sagði að í greininni minni Miller á að þegar danski prinsinn Hamlet þykist ganga af göflunum í samnefndu leikriti Shakespeares, þá hafi það verið hluti af markvissri áætlun um hefnd. Enginn viti hvort hann gerði sér upp æðið, hugsanlega vissi hann það ekki sjálfur. Með svipuðum hætti taki Egill Skallagrímsson þrautskipulögð æðisköst í Egils sögu. Markmið beggja sé að öðlast ógnaryfirburði gagnvart andstæðingnum, gefa til kynna að maður sé órökvís og óútreiknanlegur. Þetta sé sem sagt útsmogið brjálæði, skipulögð óregla. En fara þurfi hárrétt með hlutverkið vegna þess að andstæðingarnir viti að órökvísi og uppgerð sé árangursrík aðferð.

„Samkvæmt þessu sjónarmiði vanmátu feðginin aðstæðurnar og andstæðingana og fóru kannski ekki alveg rétt með rullurnar sem þau höfðu valið sér. En framganga þeirra var engu að síður hluti af ákveðinni áætlun. Það ber vott um útsmogið brjálæði þegar og ef Sybil stillir sér upp fyrir framan föður sinn og þykist ætla að verja hann fyrir atlögu komumanna. Það má kalla það skipulagða óreglu þegar og ef Kamban sjálfur reynir að sparka byssunni úr höndum eins frelsisliðans, svo ekki sé talað um þegar og ef Sybil grípur súpuskálar af matarborðinu og fleygir í átt að þeim. Þessar tilraunir feðginanna komu fyrir lítið en það er ekki víst að um helber heimskupör sé að ræða. Skjótið bara, segir Sybil, skjótið bara, ítrekar Kamban, mér stendur á sama. Bæði vita að ef gera þarf alvöru úr hótun er hún misheppnuð,“ sagði Jón Karl í erindinu.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson