Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Það hlýtur að vera skýlaus krafa að öllum steinum sé velt við en ekki litið fram hjá augljósum verkefnum sem eru sannarlega ekki partur af grunnþjónustu.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Í nýrri samstarfsyfirlýsingu vinstriflokkanna í Reykjavík segir: „Við ætlum að forgangsraða grunnþjónustu, fara betur með tíma og fjármuni borgarinnar og sýna ráðdeild í rekstri.“ Viðreisn í Reykjavík fagnar því að fara eigi betur með tíma og fjármuni borgarinnar og vill gjarnan leggja sitt af mörkum í að ná betri árangri í rekstri borgarinnar til að hægt sé að forgangsraða fyrir grunnþjónustu borgarinnar fyrir alla borgarbúa. Því leggjum við fram hagræðingartillögu á næsta borgarstjórnarfundi um að spara allt að 3,3 milljarða í samþykktri 5 ára áætlun Reykjavíkurborgar.

Upphæðir af þessum toga geta gert gæfumuninn, t.d. í að leiðrétta launakjör kvennastétta, bæta vinnuaðstöðu þeirra og ýmsum öðrum útgjöldum sem falla að því markmiði að bæta lífsgæði í borginni.

Göngum ekki inn í verkefni ríkisins

Viðreisn í Reykjavík leggur til í borgarstjórn að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur verði lögð niður og að hætt verði við verkefnið Betri hverfi – hverfapottar. Að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð ásamt stafrænu ráði verði lagt niður og verkefnunum fundinn viðeigandi staður í fagráðum borgarinnar. Með þessum aðgerðum munu sparast samtals 657 milljónir kr. á ársgrundvelli sem gerir svigrúm upp á 3,3 milljarða kr. í gildandi 5 ára fjárhagsáætlun borgarinnar.

Ástæða þess að lagt er til að heil skrifstofa verði lögð niður er sú staðreynd að í maí næstkomandi mun Mannréttindastofnun Íslands taka til starfa sem sjálfstæð stofnun undir Alþingi. Nýja stofnunin hefur það meginhlutverk að efla og vernda mannréttindi á Íslandi. Hún mun starfa í samræmi við Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Verkefnin munu meðal annars fela í sér mannréttindaeftirlit, ráðgjöf til opinberra og einkaaðila, rannsóknir, fræðslu og aðstoð við almenning.

Augljóst er að ríkið mun nú sinna mannréttindamálum af metnaði og festu og því engin ástæða til þess að eitt sveitarfélag sé í sömu verkefnum með tilheyrandi kostnaði og mannafla. Það kemur skýrt fram að Mannréttindastofnun Íslands mun veita ráðgjöf til opinberra aðila s.s. sveitarfélaga, ásamt því að vinna að rannsóknum og fræðslu. Við það að leggja niður Mannréttindaskrifstofu borgarinnar er því engin áhætta tekin í þeim áherslum sem Viðreisn vill leggja á mannréttindamál. Hér er einfaldlega verið að bregðast við nýju hlutverki ríkisins, að vera leiðandi fyrir allt landið og þar með talin öll sveitarfélög á landinu þegar það kemur að mannréttindamálum.

Verkefni hafa upphaf og endi

Viðreisn í Reykjavík leggur einnig til að lagt verði niður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð ásamt stafrænu ráði. Það er okkar mat eftir sjö ár við stjórn borgarinnar að umrædd ráð hafi verið tilraunarinnar virði en komið hafi í ljós að ekki sé knýjandi þörf fyrir ráðin tvö og verkefni sem þar voru geti á auðveldan hátt verið felld inn í verkefni fagráða borgarinnar.

Verkefnið Betri hverfi – hverfapottar hefur einnig runnið sitt skeið að okkar mati. Undanfarin ár hafa íbúar borgarinnar átt kost á því að koma með hugmyndir fyrir hverfið sitt og fengið að kjósa um að setja þær í framkvæmd. Mörg skemmtileg verkefni hafa litið dagsins ljós á undanförnum árum. Það eru komnir kaldir pottar í margar sundlaugar og infrarauðir klefar sem íbúar kusu um, ásamt því að hoppubelgir eru komnir út um alla borg. Verkefnið átti sannarlega sinn blómatíma sem nú er liðinn. Mikilvægt er í þróun samfélagsverkefna að þau séu endurskoðuð reglulega og að kjarkur sé til þess að hætta og leggja af. Hér eru á ferð dæmigerð verkefni sem eiga sér upphaf og endi.

Á undanförnum mánuðum hefur þurft að horfa í hverja krónu í rekstri borgarinnar eftir erfið útgjaldaár í heimsfaraldri. Í þeim aðgerðum hefur opnunartími sundlauga verið styttur um helgar og ýmis góð verkefni fengið að finna fyrir minni fjármunum. Það hlýtur því að vera skýlaus krafa að öllum steinum sé velt við en ekki litið fram hjá augljósum verkefnum sem eru sannarlega ekki partur af grunnþjónustu borgarinnar.

Viðreisn vill leggja sín lóð á vogarskálarnar til að sýna ráðdeild í rekstri og leggur því fram ofangreindar tillögur í borgarstjórn 4. mars næstkomandi. Nú er að sjá hvort pólitískur kjarkur og þor fylgi ráðdeildaráformum samstarfsflokkanna.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík.

Höf.: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir