Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Við eigum ekki bara að tala um framtíðina, við eigum að skapa hana – í borginni, á landsvísu og í flokknum okkar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Við Sjálfstæðismenn höldum okkar stærsta landsfund frá upphafi nú um helgina og það er verkefni okkar allra að varða veginn til nýrrar framtíðar.

Leiðin fram á við kallar á skýr skilaboð og sterka forystu, sem horfir ekki eitt ár eða eitt kjörtímabil fram í tímann, heldur hefur skýra sýn fram á við fyrir Ísland allt. Við megum ekki velja auðveldu leiðina leiðina til skamms tíma – heldur þá kjörkuðu til langrar framtíðar.

Til að svo megi verða verðum við að standa saman. Samstaða án öflugrar framtíðarsýnar og sterkrar forystu er hins vegar orðin tóm. Við verðum að vera reiðubúin að mæta væntingum framtíðarinnar á breiddina – annars náum við ekki til allra kynslóða.

Við eigum ekki bara að tala um framtíðina, við eigum að skapa hana – í borginni, á landsvísu og í flokknum okkar. Og sú framtíð verður að vera byggð á grunni okkar öflugu sjálfstæðisstefnu sem hefur byggt velferðarríkið Ísland. Orð Jóns Þorlákssonar frá 1926 eiga að vera okkur skínandi leiðarljós fram veginn:

„Aðalhugsjónin er sú, að þjóðfélagið verði samsafn sem flestra sjálfstæðra og frjálsra einstaklinga, sem hver fyrir sig geti haft sem óbundnastar hendur til þess að efla farsæld síns heimilis og þar með alls þjóðfélagsins öðrum að skaðlausu.“

Það er okkar að hafa trú á verkefninu, skapa nýja framtíð. Ekki nýjar málamiðlanir.

Kosið um framtíðina

Sjálfstæðismenn standa frammi fyrir því að velja sér nýja forystu á landsfundi. Þegar kemur að því vali er okkur öllum hollt að íhuga hvernig leiðtoga við þurfum til að efla flokksstarfið og vinna stefnu okkar fylgi.

Kjósendur hafa gert okkur ljóst að tími málamiðlana er að baki. Við þurfum ekki fleiri nefndir, ekki fleiri stýrihópa, ekki fleiri stjórnmálamenn sem þora hvorki að taka ákvarðanir né axla ábyrgð. Sú þróun að ókjörnir embættismenn ráði sífellt meiru í íslensku samfélagi á ekki að vera sjálfsögð, heldur þvert á móti þarf lýðræðið að fá að gera aukið gagn með beinum hætti.

Við þurfum forystu sem hefur pólitískar hugsjónir og er trú grunngildum flokksins, en hefur um leið næmi fyrir nýjum straumum í samfélaginu. Forystan verður að þora að gera nauðsynlegar breytingar og sigla þjóðarskútunni hraðbyri inn í nýja tíma. Ég trúi því að þegar við sýnum kjósendum okkar rétta andlit muni Sjálfstæðisflokkurinn vaxa og dafna á ný sem aldrei fyrr. Brottflúnir Sjálfstæðismenn munu skila sér aftur heim og það sem er jafnvel enn mikilvægara – við munum ná eyrum nýrra kjósenda sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, stofna sitt fyrsta fyrirtæki og eignast börn sem munu ganga sína leið inn í menntakerfi sem þarfnast algerrar uppstokkunar. Það eru kynslóðirnar sem nú eru að vaxa úr grasi sem munu skapa öflugan Sjálfstæðisflokk til framtíðar. Fermingarbörn síðasta árs verða kjósendur í næstu kosningum til Alþingis, ef núverandi stjórn hefur ekki þrotið örendið miklu fyrr.

Á ferðum mínum um landið síðustu vikur hef ég fundið það sterkt hversu vel sjálfstæðisstefnan höfðar til ungs fólks í dag. Áhugi á stjórnmálum hefur ekki verið svona ríkur í áratugi og jarðvegurinn fyrir okkar stefnu sjaldan jafn frjór.

Við Sjálfstæðismenn eigum að vera stolt af stefnu okkar og hugmyndafræði um frelsi einstaklingsins, öflugt atvinnulíf og öflugt en afmarkað ríkisvald.
Þegar stefnan er skýr verða allar ákvarðanir einfaldar og við megum ekki ganga í þá gildru aftur að standa að ákvörðunum sem rýra trúverðugleika okkar. Kjósendur refsuðu okkur þann 30. nóvember síðastliðinn fyrir að hafa gefið of mikið eftir og það má ekki gerast aftur.

Sjálfstæðisflokkur framtíðarinnar þarf að vera enn meiri Sjálfstæðisflokkur. Þannig náum við árangri og stækkum flokkinn á ný. Þannig nær Sjálfstæðisflokkurinn árangri. Þannig nær Ísland árangri.

Höfundur er þingmaður og frambjóðandi í formannssæti Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.