„Það er ekki mikið að frétta af loðnuleit. Skipin eru búin að leita við landgrunnskantinn sem við ætluðum að fara yfir, en það var ekki mikið að sjá þar,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, spurður um árangur af yfirstandandandi loðnuleit.
Á mánudagskvöld fóru uppsjávarveiðiskipin Aðalsteinn Jónsson og Polar Ammassak til leitar norður af Vestfjörðum og hefur sú leit ekki skilað miklu.
„En það eru fregnir af loðnu uppi á grunnunum norðan við landið og skipin eru að fara að leita það svæði núna, bæði á Húnaflóa og eitthvað austur fyrir Eyjafjörð,“ segir Guðmundur og að vonast sé til að mælingum á þeim slóðum ljúki í dag, laugardag.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að loðna finnist í slíku magni að kvótinn verði aukinn segist hann ekki vilja tjá sig þar um.
„Ég segi ekki orð um það. Við teljum að loðnustofninn sé lítill um þessar mundir og ekki mikils að vænta,“ segir Guðmundur.