Forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir segir að ríkið muni halda sig við þá launastefnu sem var mörkuð á almenna vinnumarkaðnum í fyrra.
Forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir segir að ríkið muni halda sig við þá launastefnu sem var mörkuð á almenna vinnumarkaðnum í fyrra. — Morgunblaðið/Karítas
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vinnumarkaðinn þurfa að sýna af sér aga, í kjölfar niðurstöðu í kjarasamningum kennara. Ríkið hafi almenna aðkomu að menntamálum í landinu og menntamálaráðherra muni berjast fyrir úrræðum sem gagnist leik- og grunnskólastiginu með almennum hætti

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

Magnea Marín Halldórsdóttir

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vinnumarkaðinn þurfa að sýna af sér aga, í kjölfar niðurstöðu í kjarasamningum kennara.

Ríkið hafi almenna aðkomu að menntamálum í landinu og menntamálaráðherra muni berjast fyrir úrræðum sem gagnist leik- og grunnskólastiginu með almennum hætti.

„En sveitarfélögin eru auðvitað þau sem gerðu þessa samninga og þurfa að standa við það,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið eftir ríkisstjórnarfund í Reykjanesbæ í gær, spurð út í fjármögnun samninganna.

Eins og greint hefur verið frá var í kjaraviðræðum kennara samið umfram það sem stöðugleikasamningarnir höfðu markað á síðasta ári.

Spurð hvort hún hefði áhyggjur af áhrifum þessa samninga á verðbólgu sagði Kristrún að ríkið myndi halda sig við þá launastefnu sem var mörkuð í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum í fyrra en að í tilviki kennara hefði þó stefnt í virðismatsvegferð.

Því hefði verið ákveðið að fara þá leið að það kæmi innspýting inn í það virðismat, sem ríkið ætli sér að flýta og reyna að skila niðurstöðum sem allra fyrst.

„Að því leytinu til er þessi hópur tekinn út fyrir sviga, en því mun fylgja síðan endanleg niðurstaða í virðismati,“ sagði forsætisráðherra.

Umframhækkanir í formi virðismats

Aðspurð hvort hún óttaðist að höfrungahlaup gæti hafist í kjölfar samninganna og hvort hún teldi stöðugleikasamningana í hættu sagði Kristrún það vera lykiltriði að merki stöðugleikasamninganna yrðu virt.

„Það sem er grundvallaratriði er að þær umframhækkanir sem hér um ræðir eru í formi virðismats.

Þær eru bundnar við virðismatsvegferðina og eru innspýting inn í það og þess vegna, að því leytinu til, er merkið virt vegna þess að innspýtingin er tengd þessu virðismati.“

Höf.: Sólrún Lilja Ragnarsdóttir