Diljá Mist Einarsdóttir
Nú stendur yfir landsfundur Sjálfstæðisflokksins, langstærsta stjórnmálasamkoma Íslands. Fundurinn er eins konar þjóðhátíð okkar Sjálfstæðismanna: heil helgi af þéttri dagskrá þar sem við eigum dýrmæt samtöl, skiptumst á skoðunum og stillum saman strengi. Á fundinum fer fram gríðarlega öflug málefnavinna með þátttöku landsfundarfulltrúa þar sem þeir ydda sjálfstæðisstefnuna og leggja línurnar fyrir okkur kjörnu fulltrúana.
Eftir fjölmörg góð samtöl við fólkið okkar um land allt tók ég þá ákvörðun að gefa kost á mér til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Framboð mitt er til komið því ég hef djúpa sannfæringu; annars vegar um gildi sjálfstæðisstefnunnar og hins vegar um nauðsyn þess að flokkurinn okkar gangi í gegnum endurnýjun og uppfærslu. Endurnýjun og uppfærsla flokksins tel ég að þurfi að snúa að ímynd og ásýnd Sjálfstæðisflokksins og uppbyggingu innra starfs hans. Leiðin fram á við mun byrja inn á við.
Verði ég kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins mun ég leggja mig alla fram um að grunnstef sjálfstæðisstefnunnar verði aftur hafið til vegs og virðingar. Við eigum að herða varðstöðu okkar um frelsið, við eigum að hafna stjórnlyndi og miðstýringaráráttu vinstrimanna og annarra boðbera afturhalds. Þetta verkefni mun útheimta þrotlausa vinnu. Vinnu við að endurreisa starfið okkar um allt land. Það verður aðeins gert með samtali og í samvinnu við fólkið okkar um allt land sem þekkir það best hvernig það verður gert. Forgangsmál er að veita fjármuni í starfið. Ég er tilbúin í þessa vinnu – þetta verkefni.
Heimurinn tekur nú örum breytingum og við finnum að jarðvegur fyrir hægri hugsjón er frjór. Við verðum að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn sé heimili fyrir alla frelsisþenkjandi hægrimenn á Íslandi; faðmur okkar er breiður og við tökum öllu fólki sem dreymir um frjálsara og dýnamískara samfélag opnum örmum.
Saga íslensks samfélags, sem braust úr aldalangri fátækt til velmegunar, auðæfa og frelsis, er samofin sögu Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur verið burðarás í íslensku samfélagi. Það er okkar verkefni að sjá til þess að svo verði áfram; að skapa ríkt, fallegt og frjálst samfélag fyrir framtíðarkynslóðir landsins er ekki bara markmið okkar heldur skylda.
Ég hef óbilandi trú á framtíð og endurreisn Sjálfstæðisflokksins og bið um stuðning Sjálfstæðismanna til þess að leiða okkur þangað.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi til varaformanns.