Inga Jóna Guðlaugsdóttir fæddist á Akranesi 26. nóvember 1966. Hún lést á líknardeild Landspítalans 21. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Lilja Lárusdóttir, f. 1940, d. 1994, og Guðlaugur Valdimar Helgason, f. 1930, d. 2001. Þau skildu árið 1973.

Systkini Ingu Jónu eru Helgi Lárus, f. 26.6. 1962, maki Kristín Anna Þórðardóttir, f. 1962, Stefanía Þórey, f. 22.6. 1964, og Arnar Guðlaugsson, f. 29.1. 1968, maki Eygló Bára Jónsdóttir, f. 1971.

Inga Jóna var í sambúð með Gunnari Aðalsteinssyni, f. 1953, og sonur þeirra er Gunnar Ingi, f. 1984. Maki Helga Guðrún Sigurðardóttir, f. 1984. Synir þeirra eru Jón Davíð og Sigurður Örn, f. 2012.

Hinn 23. september 1989 giftist hún Jóni Einarssyni. Börn þeirra eru: Sædís Anna, f. 1988. Börn: Matthías Úlfur, f. 2009, Laufey Birna, f. 2011, og Marinó Hjörtur, f. 2017; Albert Fannar, f. 1991, sambýliskona Rakel Guðmundsdóttir, f. 1992, börn þeirra eru Ingi Hrafn, f. 2015, og Guðrún Ösp, f. 2021; Lilja Sæbjörg, f. 1998, maki Eiríkur Jón Hólmsteinsson, f. 1997, börn þeirra eru Ágústa Ýr, f. 2019, og Hólmsteinn Gunnar, f. 2023.

Inga Jóna ólst upp á Akranesi og gekk í Brekkubæjarskóla. Hún flutti á Rif með Jóni árið 1987 og bjuggu þau þar síðan. Inga var mjög virk í félagsstörfum þar og sat meðal annars í stjórn hjá Lionsklúbbnum Þernunni, slysavarnadeild Helgu Bárðar, Sjósnæ og Kvenfélagi Hellissands.

Inga var mikil handavinnukona en henni þótti gaman að saumaskap og að prjóna. Hún saumaði mikið á barnabörnin og var mikið fyrir bútasaum.

Hún hafði dálæti á ferðalögum með fjölskyldu og ferðuðust þau Jón víða.

Útför Ingu Jónu fer fram frá Ingjaldshólskirkju í dag, 1. mars 2025, klukkan 13.

Það var árið 1999 sem ég flutti í Rifið og vissi nú deili á nágrönnum mínum en þekkti þá ekki mikið. Stuttu eftir að ég flyt inn er bankað og þar stendur nágrannakona mín á náttfötunum og spyr hvort eiginmaður minn sé heima, ég neita því og þá fýkur smá í hana og hún segir pirruð að engir nema sjómenn og gamalmenni búi hérna í Rifi. „Geturðu kannski hjálpað mér, það er kviknað í þvottavélinni?“ Ég stóð þarna steinrunnin yfir þessum látum og var smástund að melta upplýsingarnar og velta fyrir mér hvað ég ætti að gera. Hringja á slökkvilið eða hlaupa yfir og hjálpa henni? Rétt á meðan ég íhuga stöðuna, klæði mig í skó og hleyp yfir sé ég hvar hún kemur út um þvottahúsdyrnar með þvottavélina í höndunum. Já ég lýg þessu ekki, ekki nóg með það heldur var hún full af þvotti! Ég kom sem sagt ekki að neinum notum því eins og Inga Jóna var þá leysti hún öll vandamál, reddaði ótrúlegustu hlutum, var svo úrræðagóð að það var ótrúlegt, hún var klettur sem allir gátu reitt sig á.

Ég bjó við hliðina á henni í 18 ár og hvort sem það var ég eða börnin sem vantaði eitthvað var hún snögg að stökkva til. Best var þegar sonur minn slasaðist eitt árið og var rúmfastur og þurfti sérsaumuð föt, þá var hún búin að redda því klukkutíma eftir að við komum heim. Eða þegar henni datt í hug að hann hefði nú gaman af því að koma í afmæli til Lilju. Þá var náttúrlega bara kallað í hrausta karlmenn og drengurinn borinn í rúminu yfir til hennar og stillt upp í stofunni með afmælisgestunum. Já það voru engin vandamál, bara lausnir. Allt sem hún gerði var gert á fullum styrk og strax!

Ég gæti skrifað endalaust en mig langar bara að þakka þér fyrir allt, Inga, sem þú hefur gert fyrir mig og mína. Eigðu góða ferð yfir í sumarlandið. Þar hefur verið tekið vel á móti þér því ég trúi því að eftir okkar dag hittum við ættingja og vini í sumarlandinu.

Elsku Jón, Gunni, Helga, Sædís, Albert, Rakel, Lilja, Eiríkur, barnabörn og þið öll hin, innilegar samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill og skarðið stórt.

Hvíldu í friði elsku vinkona.

Þín

Sólveig (Solla).

Elsku Inga, nú hafa ný ævintýri tekið við hjá þér og þú varst svo sannarlega alltaf til í ævintýri en við þetta varstu mjög ósátt. Þú elskaðir útilegur með fjölskyldunni og varst dugleg að skipuleggja alls konar ævintýri með fjölskyldum og vinum. Síðasta ferðalagið okkar saman til Dublin mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.

Þú varst alltaf með allt á hreinu og sagðir skoðanir þínar umbúðalaust hvort sem það tengdist fjölskyldunni eða því sem var í gangi í samfélaginu. Þú varst ekki með neinn feluleik.

Inga mín, þú varst svo ósátt við að fá ekki lengri tíma með fjölskyldunni en vissir samt innst inni að þú gætir ekki barist við þessa óværu lengur. Ætli þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem þú gafst upp fyrir einhverju.

Börnin þín og barnabörn munu minnast mikillar baráttukonu sem vildi allt fyrir alla gera. Barnabörnin eru þínir demantar og við munum öll passa upp á þessa demanta þína.

Takk fyrir allt, pössunina á stelpunum, samveruna, bútasaumsdúkana og hlýjuna, og takk fyrir að halda svona vel utan um stórfjölskylduna. Elsku Jón, Ingubörn og barnabörn, hugur minn er hjá ykkur og munið að ég verð alltaf til staðar fyrir ykkur.

Eitt sinn verða allir menn að
deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Elsku Inga Jóna, farðu vel með þig.

Eygló Bára Jónsdóttir.