Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Abdullah Öcalan, stofnandi kúrdíska verkamannaflokksins (PKK), sem leitt hefur vopnaða baráttu milli Kúrda og stjórnvalda í Tyrklandi, hefur gefið út ákall um að samtökin slíðri sverð sín og verði í kjölfarið leyst upp. Yfirlýsing þessi markar mikil tímamót, en átökin, sem kostað hafa tugi þúsunda lífið, hafa staðið í um fjörutíu ár.
Vopnaðar sveitir PKK hafast nú að mestu við í fjalllendi í norðurhluta Íraks. Engin afgerandi viðbrögð höfðu í gær borist frá samtökunum við þessu ákalli Öcalans. Sjálfur hefur leiðtoginn setið í fangelsi í Tyrklandi frá árinu 1999 og stóran hluta þess tíma verið í algerri einangrun. Fylgjendur hans hafa af þeim sökum lítið frétt af honum undanfarin ár og ekkert séð til hans í eigin persónu.
Samtök PKK voru stofnuð á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar með það að markmiði að stofna sameinað ríki Kúrda, sem dreifðir eru um landsvæði Tyrklands, Sýrlands, Íraks og Írans. Fréttaveita AFP segir ákall Öcalans veita Kúrdum von um bjartari framtíð en á sama tíma finni þeir margir fyrir kvíða og óvissu um hvað tekur við.
Blendnar tilfinningar
Þrítugur Kúrdi sem AFP ræddi við í Írak fagnar ákallinu en segir fólk þó sýna blendnar tilfinningar. Margir viti vart hvort þeir eigi að gleðjast eða gráta. Fórn undanfarinna áratuga hafi verið þeim erfið og mannfall í röðum Kúrda mikið. Reiði í garð Öcalans sé einnig nokkuð áberandi á meðal fólks.
Annar ungur Kúrdi, búsettur í Sýrlandi, fagnar útspilinu. Segir hann það skref í átt að sáttum við Tyrki og til þess fallið að stuðla að stöðugleika á svæðinu. Vonast hann því til þess að PKK-liðar fallist á ákallið.
Sérfræðingar í deilu Tyrkja og PKK segja afvopnun samtakanna tromp á hendi Tyrklandsstjórnar. Hún geti nú lýst yfir stórsigri og eflt stöðu sína enn frekar í þessum heimshluta.
Staða Kúrda í Sýrlandi er að líkindum flóknari en annars staðar. Þar nýttu Kúrdar sér upplausn í landinu samhliða veikri stjórn þáverandi Sýrlandsforseta, en nýtt afl íslamista mun vafalaust reynast Kúrdum þar erfitt.