Hella Læknir hefur ekki alltaf verið til staðar á Heilsugæslustöðinni á Hellu. Íbúar búa því við mikið óöryggi.
Hella Læknir hefur ekki alltaf verið til staðar á Heilsugæslustöðinni á Hellu. Íbúar búa því við mikið óöryggi. — Morgunblaðið/Óli Már Aronsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á-listinn, sem skipar meirihluta sveitarstjórnar í Rangárþingi ytra, hefur á stefnuskrá sinni að koma upp svokölluðum lífsgæðakjarna við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu. Á stjórnarfundi Lundar í desember var farið yfir nýjustu hugmyndir…

Úr bæjarlífinu

Óli Már Aronsson

Hellu

Á-listinn, sem skipar meirihluta sveitarstjórnar í Rangárþingi ytra, hefur á stefnuskrá sinni að koma upp svokölluðum lífsgæðakjarna við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu. Á stjórnarfundi Lundar í desember var farið yfir nýjustu hugmyndir varðandi byggingu íbúða fyrir eldri borgara eða þjónustuíbúða og aðstöðu til félagsstarfs á Lundi. Samþykkt var að stefna að þessu í náinni framtíð.

Bjargshverfi er nýtt hverfi á Hellu og fram fór hugmyndasamkeppni um götuheiti. Heimilt var að skila inn tillögum til og með 19. nóvember sl. og bárust alls um 50 tillögur með rúmlega 400 heitum frá yfir 30 aðilum. Skipulags- og umferðarnefnd hefur farið yfir fram komnar tillögur og leggur eftirfarandi til við sveitarstjórn:

Aðalgatan beri heitið Bjargsbrún. Aðrar götur ættu að bera heiti sem enda á bjargi, t.d. (eftir stafrófsröð) Brekkubjarg, Heiðarbjarg, Heklubjarg, Hellubjarg, Holtabjarg, Rangárbjarg, Ægisbjarg. Þær götur sem byrja á H…bjarg ættu að vera ofan við aðalgötuna í stafrófsröð. Fyrir neðan ætti Brekkubjarg að vera fyrst, svo Rangárbjarg og Ægisbjarg næst Auðkúlu.

Starfshópur hefur verið skipaður um gervigrasvöll á Hellu, þar er m.a. fulltrúi frá Knattspyrnufélagi Rangæinga og búið að halda fyrsta fund. Farið var yfir stöðu á hönnun verksins en hún er langt komin. VSÓ er aðalhönnuður vallarins. Stefnt er að því að hönnun klárist í byrjun mars. Upplýst að verið sé að vinna að því að kynna sér tæknilausnir aðila sem bjóða upp á mismunandi lausnir í gervigrasmálum.

Landsvirkjun hyggur á miklar virkjanaframkvæmdir í sveitarfélaginu Rangárþingi ytra og á Holtamannaafrétti á næstu mánuðum og árum, í tengslum við Vaðölduver (áður Búrfellslundur), Hvammsvirkjun og stækkun Sigöldustöðvar. Framkvæmdir þessar kalla á fjölda starfsfólks. Reiknað er með að framkvæmdir við Vaðölduver nái hámarki árið 2026 og þá verði allt að 150 manns á verkstað, framkvæmdir við Hvammsvirkjun eru taldar kalla á um 400 starfsmenn þegar flest verður árið 2027.

Í tengslum við framkvæmdirnar hefur Landsvirkjun í hyggju að koma upp starfsstöð á Hellu og hefur þegar verið sótt um byggingarlóð fyrir þá starfsemi. Uppbyggingu þeirrar starfsstöðvar má tengja við áherslumál Á-listans í Rangárþingi ytra um að þrýsta á Landsvirkjun um að koma upp varanlegum starfsstöðvum í sveitarfélaginu.

Framkvæmdir við stækkun Sigöldu munu einnig kalla á mikið vinnuafl en reiknað er með að um 100 manns verði á verkstað árið 2026 og hafi aðstöðu í vinnubúðum þar.

Sveitarfélögin lýsa yfir verulegum áhyggjum af stöðunni og ítreka að núverandi staða og óvissa sé óboðleg hinum 4.519 íbúum sýslunnar ásamt gestum hennar. Sveitarfélögin hafa einnig komið að málum með því að liðka til með húsnæði og leikskólapláss. Samhliða þessu er unnið að því í heilbrigðisráðuneytinu að finna leiðir til þess að laða íslenska lækna heim með einhvers konar hvötum og ívilnunum.

Nýir eigendur að Hótel Vos (Norður-Nýibær) í Þykkvabæ eru með áætlanir um að stækka hótelið í ca. 5.000 fm. Á svæðinu er rekið hótel og gisting fyrir allt að 55 gesti og fyrirhugað er að stækka hótelið í áföngum, vera með þakgarð og útbúa aðstöðu fyrir starfsfólk svo það geti verið með fasta búsetu. Gert er ráð fyrir allt að 200 gistiplássum og hefur landeigandi hug á að bjóða upp á afþreyingu á svæðinu, til að mynda útsýnis- og norðurljósaferðir.

Málefni heilsugæslu Rangárþings hafa verið til mikillar umræðu undanfarin misseri vegna vanda við að manna stöður lækna í héraðinu. Sú staða hefur reglulega komið upp að enginn læknir er á vakt á stóru svæði á Suðurlandi. Þetta hefur skapað aukið álag á annað heilbrigðisstarfsfólk og óöryggi fyrir íbúa og þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem fer um svæðið. Fulltrúar Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Ásahrepps hafa fundað með forstjóra og framkvæmdastjóra hjúkrunar og heilsugæslu HSU til að fara yfir málin og leita skýringa og lausna. Fyrir liggur að búið er að tryggja mönnun með erlendum og íslenskum verktakalæknum næstu mánuði.

Höf.: Óli Már Aronsson