Helga Eiríksdóttir, bóndi og húsfreyja í Vorsabæ á Skeiðum, fæddist 17. október 1928. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi 16. febrúar 2025.

Foreldrar Helgu voru hjónin Eiríkur Jónsson, bóndi og oddviti í Vorsabæ, f. 1891, d. 1963, og Kristrún Þorsteinsdóttir, f. 1894, d. 1966. Systkini Helgu eru Ragna, f. 1917, d. 1998; Sigursteinn, f. 1919, d. 1934; Jón, f. 1921, d. 2010; Axel, f. 1923, d. 2006; óskírður drengur, fæddur andvana 1925; Friðsemd, f. 1932, og Sigríður Þóra, f. 1928, d. 2024.

Helga fæddist og ólst upp í Vorsabæ í stórum systkinahópi. Hún gekk í barna- og unglingaskóla í Brautarholti. Veturinn 1947-8 stundaði hún nám í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni.

Helga átti heimili í Vorsabæ fram á síðustu æviár. Á yngri árum var hún í síld á Raufarhöfn, ráðskona vinnuflokks hjá RARIK á Skeiðum og í Borgarfirði, auk þess sem hún var starfsstúlka á Bessastöðum í tvo vetur í forsetatíð Ásgeirs Ásgeirssonar.

Þegar foreldrar hennar féllu frá tók hún við rekstri búsins í Vorsabæ sem hún rak þar til Eiríkur systursonur hennar og Unnur eiginkona hans tóku við búinu.

Síðustu æviárin naut Helga góðrar umönnunar á Ási í Hveragerði og síðan Ljósheimum og Móbergi á Selfossi.

Útför Helgu fer fram í Skálholtsdómkirkju í dag, 1. mars 2025, og hefst athöfnin kl. 13.

Jarðsett verður frá Ólafsvallakirkju.

Helga móðursystir mín hefur nú kvatt okkur eftir langa, hamingjuríka og viðburðaríka ævi. Það er mér bæði ljúft og skylt að minnast hennar, svo mikið á ég henni að þakka.

Helga var mikil kvenskörungur og kona til allra verka. Hún bjó nánast alla sína æfi í Vorsabæ á Skeiðum og tók við búi ömmu og afa þegar þau féllu frá. Hún giftist ekki og átti ekki börn en við afkomendur systkina hennar vorum öll börnin hennar. Ég fékk ávallt að njóta hlýju, væntumþykju og leiðsagnar Helgu sem mótaði mig mikið sem einstakling. Vorsabær var mitt annað æskuheimili og ómetanlegur lærdómur að vera í sveitinni hjá Helgu. Það var ekki fyrr en ég varð eldri og þroskaðri að ég áttaði mig á því hversu stór verkefnin voru sem Helga stóð frammi fyrir ekki bara sem fyrirmyndar húsfreyja heldur líka sem bóndi. Helga var hamhleypa til verka og þess á milli sem hún sinnti útiverkum þá var heimilið glæsilegt, mikill gestagangur og alltaf allir velkomnir. Það var alltaf fjölmenni hjá Helgu, verkefnin mörg og fékk maður að takast á við ýmsar áskoranir í sveitinni. Minningin er ljóslifandi um svamptertubotnana sem ég fékk í hendurnar frá Helgu til þess að skreyta með rjóma. Þarna var ég rétt svo búin að fylla fyrsta tuginn og aldrei snert rjómasprautu. Helga hafði engan tíma til að spá í smáatriðin, gestirnir voru að koma, treysti mér fyrir verkinu og engar athugasemdir gerðar við útkomuna. Þetta er bara eitt lítið dæmi af mörgum þar sem maður fékk tækifæri til að vinna sjálfstætt og takast á við misflókin verkefni. Það var ekki síður lærdómsríkt að vera með Helgu í kringum skepnurnar og við útiverkin. Hún var natin í kringum skepnurnar og kenndi mér að skynja líðan þeirra, atferli og fegurð.

Árin liðu og aldrei slitnaði þráðurinn. Helga var alltaf ein af fjölskyldunni og samgangurinn mikill. Glaðværðin var sterkur eiginleiki hjá henni, áhugi á fólki, líðan þess og velferð.

Helga elskaði að lesa bækur, fróðleiksfús og hafði leiftrandi frásagnargleði. Naut þess að segja frá ættinni sem og huldu- og þjóðsögur frá Vorsabæ. Lýsandi dæmi um dugnað og elju Helgu var þegar hún á áttræðisaldri fór í liðskiptaaðgerð á hné. Kvöldið eftir skurðaðgerðina kom ég til hennar og gaf henni eina af mínum uppáhaldsbókum. Þegar ég kom inn á sjúkrastofuna sá ég að hún var ekki í neinu standi til að lesa bók. Það hafði blætt mikið eftir aðgerðina, hún var hvít eins og lak og mjög máttfarin. Daginn eftir kom ég aftur til Helgu, sem var þá brosandi og glöð, búin að lesa bókina, ekki bara einu sinni heldur tvisvar.

Helga tók mig á eintal fyrir mörgum árum og bað mig að sjá til þess að henni yrði aldrei haldið á lífi tengd við vélar. Til þess kom aldrei að ég þyrfti að standa við loforð mitt en mér hefur oft orðið hugsað til þessa samtals okkar síðasta áratuginn, fylgjast með henni hverfa inn í heim gleymskunnar og vera öðrum háð. Þannig vildi Helga ekki eyða síðustu æviárunum, sjálfstæðið var henni svo mikilvægt.

Hvíl í friði elsku frænka.

Þín

Kristrún Þórkelsdóttir.

Í dag kveðjum við Helgu Eiríksdóttur móðursystur mína, sem alla tíð hefur verið mér mjög kær.

Helga ólst upp í Vorsabæ við ástríki foreldra sinna og systkina. Þá voru þar vinnufólk frænka okkar Ingveldur Magnúsdóttir og Einar Gíslason, sem voru hluti af fjölskyldunni. Yngstu systurnar þrjár, Helga, Fríða móðir mín og Sigga, voru mjög samrýndar. Vorsabæjarheimilið var ágætlega efnum búið og er eftirtektarvert á myndum frá þeim tíma hversu vel tilhafðar þær systur voru. Gaman er að sjá mynd af Helgu í pilsi og með perlufesti í berjamó.

Um tvítugt fór Helga til náms í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni, sem hefur örugglega nýst vel við þau störf sem biðu hennar. Helga var einstaklega myndarleg húsmóðir og Vorsabæjarheimilið alla tíð annálað fyrir gestrisni.

Um tíma var Helga ráðskona vinnuflokks hjá RARIK í Borgarfirðinum. Hún var afar vel liðin og heyrði ég sagt að „allir vildu þeir eiga hana“. Einng vann Helga sem starfsstúlka á Bessastöðum í tvo vetur. Þá var Ásgeir Ásgeirsson forseti og var henni alla tíð mjög hlýtt til forsetahjónanna.

Helga var mikill skörungur. Að foreldrum sínum látnum tók hún við búinu í Vorsabæ og rak það ein með aðstoð Einars og Ingu meðan starfskrafta þeirra naut við. Réð hún til sín ungt fólk tímabundið til hjálpar við bústörfin, meðal annars erlendis frá. Sjálf gekk hún í öll störf, jafnt inni sem úti, og rak búið af festu. Aðdáunarvert var að þótt Helga hefði mikið að gera gaf hún sér alltaf tíma til að sinna þeim sem hjá henni voru. Eftirminnilegar eru sögurnar sem Helga sagði okkur krökkunum, einkum af huldufólkinu.

Frá því ég fyrst man eftir mér var Vorsabærinn mitt annað heimili. Sóttist ég eftir að vera í sveitinni, fyrst hjá ömmu og afa og síðar hjá Helgu. Þegar ég hafði aldur til var ég þar snúningastrákur á sumrin og vinnumaður þau þrjú síðustu. Tvö sumur var Róbert Eiríksson vinnumaður og var mikill vinskapur milli hans og Helgu alla tíð. Eftir að Róbert veiktist alvarlega rúmlega þrítugur og varð óvinnufær var hann mikið í Vorsabæ hjá Helgu, því þar þótti honum gott að vera.

Helga var ákveðin og hafði ríka réttlætiskennd. Eitt sinn voru Helga og virðuleg frú úr Reykjavík að ræða hlutverk kvenna í þjóðfélaginu. Ekki gat sú síðarnefnda tekið undir skoðanir Helgu og spurði hvort hún væri kvenréttindakona. Svaraði Helga þá: „Auðvitað er ég kvenréttindakona, af hverju ætti ég ekki að vera það?“ Þetta var á þeim árum sem það þótti róttækara að vera málsvari kvenna en það er í dag. Þegar Vigdís bauð sig fram sem forseti studdi Helga hana ákveðið og var stolt af því að vera frænka hennar.

Helga var mjög barngóð. Hún eignaðist ekki börn sjálf, en tók þátt í uppeldi fjölda barna og nutum við systkinin góðs af því. Einnig minnist Edda Björk dóttir mín með mikilli hlýju þess tíma sem hún var hjá Helgu. Henni leið svo vel hjá frænku sinni að lengi vel var hún ákveðin í því að verða sveitakona þegar hún yrði stór.

Helga var einstök kona sem við fjölskyldan kveðjum með söknuði. Blessuð sé minning hennar.

Þórður Þórkelsson.

Það eru rúmlega fjörutíu ár liðin frá því að ég rataði fyrst inn á heimili Helgu. Vorsabær hefur frá þeim tíma verið mitt annað heimili á Íslandi og Helga hefur verið mér eins og fósturmóðir enda kallaði ég hana gjarnan íslensku mömmu mína.

Fyrsti veturinn hjá Helgu er ógleymanlegur og hefur mótað mig á margan hátt. Helga var fús að leyfa mér að taka þátt í öllu því sem til stóð og treysti mér fyrir verkum. Í leiðinni kenndi hún mér svo margt um Ísland, sveitarmenningu, búskap, handavinnu og margt fleira – alltaf með bros á vör, áhuga og þolinmæði. Við áttum vel saman og úr því varð traust vinátta. Umfram búskap og sveitarlífið var Helga áhugasöm um margt, víðlesin, hafði ánægju af leikhúsferðum og tónlist. Það eru ófáar menningarferðir sem við nutum saman í gegnum árin. Efst í minningu þar eru opnunartónleikar Hörpunnar þar sem Helga skartaði sínu fegursta innan um allt fræga fólkið.

Þegar ég bjó vestur á Ísafirði kom hún í heimsókn og ákvað, varla komin í hús, að sauma gardínur í nýja húsið, innan um hóp af ungu fólki úr öllum heimshornum og naut hverrar mínútu.

Alltaf var hún þakklát fyrir allt sem var gert fyrir hana, sama hversu lítið það var. Að flytja frá Vorsabæ að Ási í Hveragerði var henni erfitt og lagðist þungt á hana. Bíltúr niður á strönd, heimsókn í hesthús, skreppitúr í næsta kaffihús eða spjall yfir prjónaskap hjálpaði þá til að létta lund. Eitt sinn eyddum við hluta aðfangadags í hesthúsinu og var það besta jólagjöfin þetta árið.

Nú er komið að leiðarlokum og ég get bara sagt takk fyrir allt kæra Helga, takk fyrir að hafa verið í lífi mínu og Sunnu í öll þessu ár.

Dorothee og Sunna.