Ásdís Evlalía Guðmundsdóttir
Ég, sem einstaklingur með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, get varla nefnt það ógrátandi hversu bagalegt aðgengið er að heyrnartækjum hér á landi miðað við hinar Norðurlandaþjóðirnar.
Á síðustu árum hefur orðið mikil þróun á heyrnartækjum bæði hvað varðar stærð og getu. Nýjustu snjallheyrnartækin geta minnkað umhverfishljóð, magnað fram talhljóð og aukið rýmisskynjun, þ.e.a.s. við getum betur staðsett okkur í rými og heyrt hvaðan hljóðin koma. Einnig er hægt að breyta næmi tækjanna eftir aðstæðum með appi og aukabúnaði. Þetta eru stórkostleg tæki sem gera okkur kleift að taka þátt í lífinu og koma í veg fyrir leiðindamisskilning og einangrun, sem er stór áhætta þegar við erum án heyrnartækja. Eins og staðan er í dag, að því er ég best veit, er ekkert sjónhjálpartæki til sem getur magnað upp sjónina eins og snjallheyrnartæki geta gert fyrir heyrnina.
Nú kemur að því sorglega
Allar Norðurlandaþjóðirnar, fyrir utan Ísland, úthluta einstaklingum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, sama á hvaða aldri þeir eru, heyrnartæki án kostnaðar og teljast það sjálfsögð mannréttindi. Mannréttindi sem gera okkur kleift að taka virkan þátt í þjóðfélaginu félagslega og samfélagslega og stórauka menntunar- og atvinnumöguleika okkar.
Hér á Íslandi fá börn með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu frí heyrnartæki upp að 18 ára aldri. Um leið og barnið er orðið 18 ára verður raunveruleikinn allt annar. Þá þurfum við að fara að borga fyrir tækin. Flest okkar lenda í þeim hópi að fá bara 60 þúsund krónur í styrk frá ríkinu fyrir eitt tæki eða 120 þúsund við kaup á tveimur tækjum. Tvö snjallheyrnartæki sem gera okkur kleift að nýta sem best heyrnarleifar okkar kosta á bilinu 540 til 900 þúsund fullu verði en það er mismunandi hvað af þessum tækjum hentar hverjum og einum best. Tækin þarf svo að endurnýja á fjögurra til sex ára fresti.
Með þessum skrifum er ég ekki að sækjast eftir vorkunn heldur er ég að reyna að varpa ljósi á þá staðreynd að á Íslandi flokkast snjallheyrnartæki undir forréttindi en ekki mannréttindi vegna þess hversu hátt verð við verðum að borga fyrir það að fá að heyra. Sem er grátlegt.
Greinin er skrifuð í tilefni af degi heyrnar 3. mars.
Höfundur er formaður Fjólu – félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.