Meyvant Þórólfsson
Meyvant Þórólfsson
Matsferli er ætlað að virka eins og svissneskur vasahnífur, gæddur óteljandi notkunarmöguleikum og ævinlega með rétta tólið þegar á þarf að halda.

Meyvant Þórólfsson

Í viðtali við mbl.is 12. febrúar síðastliðinn sagðist nýskipaður ráðherra menntamála ætla að fylgja fordæmi forvera síns og mæla gegn fyrirlögn samræmdra prófa, enda teldu „allir sérfræðingar“ slík próf óheppileg, þau hefðu lítinn tilgang og væru flókin og dýr.

Er samræmt námsmat óheppilegt? Hvað segja rannsóknir?

Daginn eftir viðtalið var nýtt frumvarp kynnt á vef Stjórnarráðsins um svonefndan Matsferil, sem á að koma í stað „gömlu samræmdu prófanna sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi“, eins og það var orðað þar.

Allt voru þetta kostulegar fullyrðingar ráðherra og meintra sérfræðinga hennar um eina árangursríkustu leið sem völ er á til að meta námsstöðu og námsárangur á heiðarlegan hátt. Gildi hennar hefur verið staðfest með fjölda rannsókna. Athyglisverðar niðurstöður Ludger Wößmann háskólaprófessors í München byggðar á gögnum úr PISA og TIMSS leiddu í ljós jákvæða fylgni milli miðlægrar stýringar (samræmds námsmats samfara hóflegri sjálfstjórn skóla) annars vegar og markverðs námsárangurs hins vegar. Kerfi eins og það íslenska, án miðlægrar stýringar og samræmds námsmats, bjuggu á hinn bóginn við slakan námsárangur samkvæmt þessum stóru samanburðarrannsóknum.

Vart er annað að sjá en að þróunin hér á landi styðji þessar niðurstöður. Námsárangur íslenskra unglinga í PISA tók snögga dýfu eftir að samræmd lokapróf voru aflögð fyrir 17 árum. Eftir nokkra daga kemur að næstu fyrirlögn PISA með megináherslu á náttúruvísindi. Í tæpa tvo áratugi hefur það námssvið þróast í íslenskum skólum án nokkurs innra eftirlits eða aðhalds. Um það liggja engin gögn fyrir önnur en PISA-gögn. Eftirfarandi tafla byggð á PISA gefur vísbendingar um þróunina í náttúruvísindum frá árinu 2006 til 2022:

taða íslenskra unglinga samkvæmt OECD PISA 2006-2022]Nemendur undir þrepi 2 teljast ekki hafa náð lágmarkshæfni til að taka fullan þátt í samfélaginu samkvæmt skilgreiningu OECD. Þar fjölgaði íslenskum nemendum úr 21% í 36%. Þeir sem lenda á þrepum 5 eða 6 teljast hafa afburðahæfni á sviðinu. Þar hefur íslenskum nemendum hins vegar fækkað úr 6% í 2%.

Á fundi um PISA-niðurstöður 4. apríl 2024 snerist umræðan um menntakerfið og meintan ójöfnuð. Þar benti Helgi Eiríkur Eyjólfsson á jákvæð tengsl miðlægrar stýringar og samræmds námsmats annars vegar og félagslegs jöfnuðar hins vegar. Hann vísaði meðal annars í rannsókn Hollendinganna Herman Van de Werfhorst og Jonathan JB Mijs, sem hefur verið vitnað í yfir 1.000 sinnum. Rannsóknin leiddi í ljós að stöðluð menntakerfi með skýrum námskrám og heiðarlegu, samræmdu námsmati byggju við marktækt meiri jöfnuð en þau sem búa við sjálfræði án miðlægs matskerfis. Niðurstöður Hollendinganna minna svolítið á landspróf miðskóla hér á landi og tilgang þess og samræmdra prófa við lok skyldunáms, sem Þorlákur Axel Jónsson, kennari
við Háskólann á Akureyri, benti nýlega á í blaðagrein: „Samræmd próf gegn stéttaskiptingu“.

Samræmd lokapróf – Samræmd könnunarpróf

Auk Matsferils er ýmist talað um samræmd próf, samræmd könnunarpróf, samræmt námsmat, stöðupróf eða framvindupróf í kynningunni á vef stjórnarráðsins. Þetta hlýtur að virka óreiðukennt fyrir alla sem lítið þekkja til. Í raun er um að ræða ólík matstæki eða „verkfærakistur“ og það sem mestu máli skiptir: Tilgangur þeirra er ekki sá sami.

Árið 1990 skiluðu tveir starfshópar Menntamálaráðuneytisins áliti, annar um framkvæmd og tilgang „samræmdra könnunarprófa“ og hinn um framkvæmd og tilgang „samræmdra lokaprófa“. Könnunarprófin voru hugsuð sem stuðningur við skólastarf eða leiðsagnarmat. Hlutverk lokaprófa var að veita áreiðanlegar upplýsingar um námsárangur við lok grunnskóla, vera viðmið við inntöku í framhaldsnám og gefa vísbendingar um hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár hefði verið náð. Lokapróf hafa ekki verið haldin hér á landi síðan 2007 og könnunarpróf ekki síðan 2021.

Í staðinn á að koma Matsferill, sem mun „innihalda fjölda tækja
og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi“, svo aftur
sé vitnað í tilkynninguna á vef Stjórnarráðsins. Miðað við lýsingar mun Matsferill virka eins og svissneskur vasahnífur, gæddur óteljandi notkunarmöguleikum og ævinlega með rétta tólið þegar á þarf að halda. Munurinn er þó sá að svissneski hnífurinn leit dagsins ljós fyrir löngu, en Matsferill er enn hugsýn í mótun; ef maður líkir honum við fjölnota vasahnífinn mætti segja að tappatogarinn væri kannski rétt farinn að skjóta upp kollinum.

Miðað við lýsingar á Matsferill að leysa samræmd könnunarpróf af hólmi, þ.e. ef hann þá lítur einhvern tíma dagsins ljós. En hann mun ekki koma í stað samræmdra lokaprófa sem heiðarlegt, áreiðanlegt og réttmætt mat við lok skyldunáms, sem hver og einn nemandi á heimtingu á að gangast undir til að fá vottun um námsstöðu áður en hann sækir um framhaldsskólanám.

Orð ráðherra og sérfræðinga hennar um slík próf eru varhugaverð að mati undirritaðs, þ.e. að þau séu gagnslaus fyrirbrigði úr fortíðinni, hætt að þjóna tilgangi sínum.

Höfundur er fyrrverandi háskólakennari og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum.

Höf.: Meyvant Þórólfsson