Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Auðvitað veit kaþólska kirkjan af þessum himinbúum.

Einar Ingvi Magnússon

Giordano Bruno var ítalskur heimspekingur, sem lifði hér á jörð frá 1548-1600. Ein af mörgum kenningum hans var sú að alheimurinn væri óendanlegur og byggður mannfólki.

Fáir fylgdu þó þessari kenningu hans, enda kenndi kristin kirkja og kennir enn í dag að jörðin okkar sé miðja alheimsins og sú eina sem byggð er fólki. Margt fólk hefur því engan grun um líf annars staðar í geimnum í öllum þeim aragrúa af sólkerfum og stjörnuþokum sem fyrirfinnast í útheimi. Í okkar vetrarbraut eru milljónir sólkerfa, þar sem plánetur snúast um lífgefandi sólir. Hví þá ekki jarðir, eins og í okkar sólkerfi?

Dr. Helgi Pjeturss var íslenskur jarðfræðingur og dulvísindamaður, sem var uppi frá 1872-1949. Hann var og er enn þekktur fyrir trú sína á líf á öðrum hnöttum og ritaði safn bóka, sem kallast Nýall. Það var eins með samtímafólk Helga og Bruno. Fáir aðhylltust kenningar hans og skoðanir um mannlíf annars staðar í alheimi, en eingöngu hér á jörð.

Sem betur fer er þetta viðhorf almennings farið að breytast, enda kjánalegt að áætla að eingöngu ein lítil pláneta sé byggð fólki í víðáttu alheimsins. Um alla jörð og um allar aldir eru sögur til af loftförum og fólki sem heimsótti okkar jörð frá öðrum plánetum annarra sólkerfa. Þetta veit fólk sem kynnt hefur sér ævafornar ritningar og þjóðsagnir um alla jörð. Þær finnast á meðal frumbyggja hinna ýmsu heimsálfa hér á jörð. En það finnast einnig sagnir af þessum loftförum utanjarðargesta á meðal okkar í dag. Of margir sjónarvottar geta borið vitni um þessi loftför og utanjarðaverur, sem fylgt hafa mannkyni okkar jarðar frá upphafi mannlífsins hér á jörð. Stjórnvöld stórvelda nútímans hafa reynt að halda þessu leyndu af öryggisástæðum og kaþólska kirkjan að vissu marki, þó að atburðir eins og undrið í Fatíma í Portúgal 1917, þegar hundruð manna urðu vitni að farkosti í skýjunum, hafi opnað vissa himingátt sem ekki var í mannlegu valdi að loka. Auðvitað veit kaþólska kirkjan af þessum himinbúum og þekkir mæta vel af gömlum ritningum, sem margar hafa ekki verið opinberaðar fyrir almenningi, þar sem það gæti haft veruleg áhrif á kenningar kirkjunnar og trú manna.

Til allrar hamingju á heimurinn í dag menn eins og Bruno og dr. Helga Pjeturss, sem trúa því sama og þeir. Þessar heimsóknir hafa sett mark sitt á þjóðir og einstaklinga. Fólk sem hefur persónulega reynslu, þekkingu og skilning mun aldrei sjá heiminn hinn sama á eftir, sama hve stjórnvöld og trúarstofnanir reyna að þagga niður staðreyndir og gera lítið úr sjónarvottum fortíðar og samtímans.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.

Höf.: Einar Ingvi Magnússon