Egilsstaðir Kallað er eftir úrbótum eystra í fjarskiptamálum.
Egilsstaðir Kallað er eftir úrbótum eystra í fjarskiptamálum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nauðsynlegt er að gera úrbætur á innviðum fjarskipta á Austurlandi. Takmarkað farsíma- og netsamband dregur úr öryggi og takmarkar möguleika til atvinnuuppbyggingar, t.d. með fjarvinnu. Þetta kemur fram í úttekt Gagna ehf

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nauðsynlegt er að gera úrbætur á innviðum fjarskipta á Austurlandi. Takmarkað farsíma- og netsamband dregur úr öryggi og takmarkar möguleika til atvinnuuppbyggingar, t.d. með fjarvinnu. Þetta kemur fram í úttekt Gagna ehf. sem unnin var fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi.

Úttektin staðfestir að farsímasamband á lykilleiðum eystra er ófullnægjandi. Þá nær net Tetra, sem sinnir neyðarfjarskiptum, ekki til mikilvægra svæða. Slíkt ógnar öryggi og getur tafið viðbrögð við neyð. Sömuleiðis eru göt í dreifikerfi RÚV, sem takmarkar aðgengi að tilkynningum þegar önnur fjarskipti bregðast. „Fjarskiptaöryggi eru lífsnauðsynlegt öryggismál,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir formaður SSA í frétt á vef Austurbrúar – stofnun sem sinnir þróun og hagsmunagæslu landshlutans.
Sterkir fjarskiptainnviðir eru efnahagslegt hagsmunamál, segir í kynningu Austurbrúar. Þar segir að Austurland leggi til um fjórðung af verðmæti vöruútflutnings Íslands þrátt fyrir að þar búi innan við 3% landsmanna. Stór alþjóðleg fyrirtæki séu á svæðinu sem gjaldi þess að örugg fjarskipti séu ekki fyrir hendi. Af þessu skapist einnig ójöfn staða þegar kemur að því að laða austur ný fyrirtæki, fjárfestingu og fólk.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson