Uppgjör og afhending vegna kaupa Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka fór fram í gær og hefur Landsbankinn tekið við rekstri félagsins. TM verður rekið sem dótturfélag Landsbankans.
Umsamið og upphaflegt kaupverð var 28,6 milljarðar króna og miðaðist við efnahagsreikning TM í byrjun síðasta árs. Hækkun á efnislegu eigin fé TM á tímabilinu 1. janúar 2024 til 31. desember 2024 nemur um 3,7 milljörðum króna og er heildarkaupverð því um 32,3 milljarðar króna.
Lokauppgjör vegna kaupverðsaðlögunar mun fara fram þegar endurskoðað uppgjör TM, miðað við afhendingardag, liggur fyrir og mun koma til hækkunar eða lækkunar á kaupverðinu, segir í tilkynningu frá Landsbankanum.
Þar er m.a. haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra að saman búi bankinn og TM yfir öflugu þjónustu- og söluneti, hvort sem er í gegnum reynslumikið starfsfólk, stafrænar lausnir eða í útibúum um allt land.
„ Við sjáum fyrir okkur gott aðgengi viðskiptavina að vörum og þjónustu beggja félaga sem skapar bankanum og TM mörg tækifæri til sóknar. Við teljum auk þess að kaup bankans á TM muni hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans, fjölga tekjustoðum og auka ávinning eigenda bankans til framtíðar,“ segir Lilja Björk.
Birkir Jóhannsson forstjóri TM segir sitt starfsfólk spennt að ganga til liðs við Landsbankann. Viðskiptavinir bankans hafi um árabil verið meðal ánægðustu viðskiptavina á íslenskum bankamarkaði og TM á undanförnum misserum stigið skref í átt að sama marki á tryggingamarkaði.