Kristján Stefánsson fæddist 1. mars 1945 á Landspítalanum og var þaðan færður í hús afa síns Valhöll við Suðurgötu. Þar bjó fjölskyldan til 1951 þegar hún flutti um skamman veg á Ásvallagötu 17, en frá 1956 bjó fjölskyldan á Lynghaga.
Vellirnir voru leiksvæði Kristjáns og annarra uppátækjasamra krakka. Þar gengu þau að mestu sjálfala, byggðu kofa, teikuðu bíla, spiluðu fótbolta, ræktuðu dúfur, tíndu ánamaðka til sölu og fylgdu heldri borgurum til grafar í garð genginna. Í minningu margra Vesturbæinga voru þetta gullaldarár Reykjavíkur.
Kristján fór í sveit í níu sumur og lærði þar til verka. Dvölin í sveitinni herti hug hans og stældi kjark. Hann var sex sumur á Krossi, Skarðsströnd, Hólum í Hornafirði og tvö sumur vinnumaður á Bakka, Kjalarnesi. Hann fékk af uppeldinu mikinn áhuga á málefnum landsbyggðarinnar og hefur átt traust bönd til sveitarinnar.
Kristján hóf skólagöngu sína í Melaskóla haustið 1951, þaðan lá leiðin í Hagaskóla, síðan í landspróf í Vonarstræti, þá í Menntaskóla Reykjavíkur og svo í lögfræði við Háskóla Íslands. Kristján útskrifaðist úr S-bekk MR 1967 sem reyndist gæfuspor því að bekkjarbræðurnir og makar eru mjög samrýndir og hafa í gegnum tíðina ferðast mikið innanlands og utan.
Meðfram skólagöngu sinnti Kristján fjölþættri vinnu, m.a. í fiski, byggingar- og vegavinnu en upp úr stendur farsala með málningu og ýmsa vöruflokka um landsbyggðina sem hann sinnti um árabil ásamt æskuvini, Jóhannesi B. Helgasyni. Þeir félagarnir tóku líka að sér málningarvinnu fyrir bændur og eignuðust þeir ævilangt vini í mörgum þeirra. Vegna þessa vinskapar hefur Kristjáns í störfum sínum sinnt margvíslegum lögfræðilegum málefnum fyrir bændur.
Kristján lauk lögfræði árið 1974 og hóf eigin lögmannsrekstur 1. júní 1975. Kristján hafði kynnst Hilmari Ingimundarsyni lögmanni og héldu þeir saman skrifstofur sínar allar götur þar til Hilmar féll frá haustið 2010. Þeir reyndust vonandi góðir húsbændur því þeim fylgdu sömu ritararnir um áratugaskeið, þær Áslaug og Heiða. Í sumar verður haldið upp á 50 ára stórafmæli stofunnar, KRST lögmenn, sem Kristján rekur í félagi við syni sína.
Þótt lögfræðin sé fyrirferðarmikil í lífi Kristjáns hefur hún ekki aftrað honum frá því að sinna margvíslegum öðrum hugðarefnum, m.a. stangveiði. Þannig voru hann og Jóhannes leigutakar að Andakílsá í 15 ár og það var í þeirri á sem Kristján landaði stærsta laxi sínum, 19 pund. Hann tók rauðan Frances nr. 14. Þá á fjölskyldan margar minningar af bökkum árinnar en þangað voru farnar veiðiferðir á hverju sumri.
Skák er skemmtileg en Kristján lærði ungur mannganginn án þess þó að tefla að marki. Árið 1995 fór Kristján að tefla reglulega í KR-heimilinu. Varð það til þess að haustið 1999 stofnaði hann ásamt öðrum skákdeild KR og vildu þeir með því greiða skuld við skákina og leiða hana að nýju til vegs og virðingar í Vesturbænum. Kristján veitti deildinni formennsku í 24 ár og hlaut nýlega Stjörnu KR frá félaginu fyrir framlag sitt. Skákdeildin stendur fyrir öflugri starfsemi, m.a. skákkennslu fyrir börn og unglinga. Deildin hefur unnið sér öflugan sess í skákheiminum og farið í víking utanlands og eins tekið á móti erlendum gestum. Á ferli Kristjáns stendur upp úr skák hans við danska stórmeistarann Bent Larsen fyrir um það bil þrjátíu árum. Í hádeginu daginn eftir var Kristján staddur á skrifstofu Hæstaréttar þegar greint var frá því í útvarpsfréttum að Bent Larsen hefði teflt fjöltefli við níu kunna menn úr skákheiminum og unnið alla nema Kristján en þeir gerðu jafntefli. Þegar dómari spurði lögmanninn hversu mörg skákstig hann eiginlega hefði svaraði hann því til að Bent Larsen hefði ríflega 2.600 stig. Það hlyti að vera eitthvað álíka.
Þau hjónin voru meðal frumbyggja í nýjum hluta Vesturbæjar í Frostaskjóli og stóð heimili þeirra þar í túnjaðri KR. Ungur hafði Kristján spilað fótbolta með Þrótti en sveigðist á sveif með KR eftir því sem hann eignaðist fleiri KR-inga og tóku þau hjónin virkan þátt í starfi félagsins.
Kristján er íhaldssamur og vanafastur og hefur átt sitt sæti í áratugi við háborðið í Kaffivagninum og þaðan er samfélaginu stjórnað að sessunautarnir ætla. Þar fer fram vægðarlítil umræða og allt rætt sem mannlífið varðar. Á tyllidögum eru veittar pönnukökur.
Kristján hefur áhuga fyrir klassískum bókmenntum, einkanlega ljóðum íslenskra skálda og í seinni tíð sakamálasögum, eins og gefur að skilja. Þá hafa þau hjónin safnað málverkum og eiga orðið veglegt safn en þau hafa alltaf deilt áhuga á myndlist eins og öðru. Helstur áhugi þeirra hjóna liggur þó í að rækta fjölskylduböndin og vonarstjörnur vandamanna, þ.e. barnabörnin fjölmörgu.
Fjölskylda
Eiginkona Kristjáns er Steinunn Margrét Lárusdóttir, f. 10.3. 1951, lögfræðingur. Þau eru búsett í Vesturbæ Reykjavíkur. Foreldrar Steinunnar eru Lárus Bjarnason, f. 12.10. 1922, d. 12.8. 1974, búfræðingur og Valdís Hildur Valdimars Höskuldsdóttir, f. 17.12. 1930, d. 31.3. 1964, húsfreyja í Reykjavík. Steinunn var kjördóttir Steinunnar Valdimarsdóttur, f. 26.6. 1901, d. 7.5. 1972, og alin upp hjá henni og Margréti Valdimarsdóttur, f. 26.1. 1903, d. 16.8. 1977, systur hennar.
Börn Kristjáns og Steinunnar eru: 1) Stefán Karl, f. 23.1. 1980, hæstaréttarlögmaður, búsettur í Reykjavík. Eiginkona hans er Sara Dögg Ólafsdóttir aðstoðarleikskólastjóri. Börn þeirra eru Kristján Óli, Hildur Sunna, Vigdís María og Steinar. 2) Páll, f. 2.3. 1984, hæstaréttarlögmaður, búsettur í Hafnarfirði. Eiginkona hans er Kristbjörg Tinna Ásbjörnsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru Jón Flóki, Steinunn Jana og Orri Kristjáns. Fyrir á Tinna soninn Styrmi Ása. 3) Jón Bjarni, f. 26.9. 1985, hæstaréttarlögmaður, búsettur í Reykjavík. Sambýliskona hans er Hlédís Maren Guðmundsdóttir félagsfræðingur. 4) Gunnar, f. 3.3. 1987, mannvirkjajarðfræðingur, búsettur í Reykjavík. Eiginkona hans er Eva Björg Ægisdóttir rithöfundur. Börn þeirra eru Benjamín Ægir og Embla Steinunn. Fyrir á Eva soninn Óliver Dreka.
Bræður Kristjáns eru: Jón B. Stefánsson, f. 31.10. 1942, verkfræðingur, Þorgrímur Stefánsson, f. 13.7. 1946, byggingatæknifræðingur og Páll Stefánsson, f. 11.6. 1952, líffræðingur.
Foreldrar Kristjáns eru Stefán Jónsson, f. 30.12. 1920, d. 23.8. 1971, skrifstofustjóri í Reykjavík og eiginkona hans Anna Þorbjörg Kristjánsdóttir, f. 6.12. 1923, d. 6.7. 2000, húsfreyja og skrifstofumaður í Reykjavík.