Kristján Alexander Reiners Friðriksson fann ungur sína köllun í lífinu. Tónlist. Hann byrjaði snemma að leika á hljóðfæri og koma fram á tónleikum og ekki löngu síðar gerði hann sér grein fyrir því að hann hefði einnig brýna þörf fyrir að miðla. Fyrir vikið kom bara eitt starf til greina, tónmenntakennari. Róið var að því öllum árum.
„Ég hef mikla þörf fyrir að miðla og fæ mikið út úr því að sjá áhuga kvikna og nemendur taka framförum. Þess vegna gæti ég ekki verið í betra starfi,“ segir Kristján en hann starfar sem tónmenntakennari í Grundaskóla á Akranesi.
Kristján var sjálfur nemandi á unglingastigi í Grundaskóla og þar kviknaði áhugi hans á kennslu. „Það var á þeim tíma sem ég áttaði mig á því að ég vildi kenna. Ég fann athvarf í tónlistinni og það öðlaðist eitthvert fýsískt form í kennslunni,“ segir hann.
Kennarar hans áttu sinn þátt í því, ekki síst Flosi Einarsson sem síðar átti eftir að ráða hann til starfa við skólann. „Ég tengdi vel við Flosa þegar ég var nemandi og fékk góða leiðsögn hjá honum. Þá fékk ég oft að vera í tónmenntastofunni eftir skóla, yfirleitt með einhverja vini mína með mér. Strax þarna fann ég mjög sterkt að þetta væri minn staður í lífinu.“
– Hefur kennslan verið eins og þú bjóst við?
„Það fer eftir því hvernig á það er litið. Alls ekki út frá því sem ég hefði búist við þegar ég var unglingur en í millitíðinni var ég auðvitað búinn að vera í kennaranáminu og fylgjast með starfinu í Grundaskóla, þannig að ég vissi vel hvað ég var að fara út í.“
Þess má geta að aðalfög Kristjáns í kennaranáminu voru tónmennt og samfélagsfræði.
Kennir við draumaskólann
Draumurinn var alltaf að kenna við Grundaskóla en Kristján bjóst ekki við að komast að þar strax eftir að hann lauk kennaraprófi frá Háskóla Íslands. „Ég velti því svo sem ekkert fyrir mér þannig, langaði bara að verða kennari. Það var hins vegar óvænt ánægja þegar haft var samband við mig frá Grundaskóla og mér tjáð að það vantaði tónmenntakennara en á þeim tíma var ég einmitt nýfluttur aftur upp á Skaga. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um.“
Tónmennt er skyldufag á miðstiginu og Kristján sér þá yfirleitt hvar áhuginn byrjar; áhugasömustu nemendurnir skila sér svo til hans í valinu á elsta stiginu. „Það eru krakkarnir sem hafa brennandi áhuga á tónlist og vilja ganga lengra. Það er mjög gaman að vinna með þeim.“
Kristján er sjálfur virkur tónlistarmaður og á aðild að nokkrum hljómsveitum; flestar heyra þær til harðkjarnapönki og öðrum öfgastefnum. „Ég bý ekki til námskrá fyrir 5. og 6. bekk í kringum slíka tónlist,“ svarar hann brosandi, spurður hvernig þetta fari saman. „Þó ég fái útrás fyrir mína tónlistarsköpun í öfgatónlist byrjar ekki tónlistaráhugi minn og endar þar. Kennslan er eitt og mín persónulega útrás annað. Þess utan hef ég komið víða við, var til dæmis í klassískum kór þegar ég bjó í Bandaríkjunum. Ég hlusta á allan fjandann, tek tímabil í hinum og þessum stefnum og þekking mín liggur víða. Starfs míns vegna verð ég að vera með puttann á púlsinum varðandi það sem er að gerast í dag og setja mig inn í ólíka hluti,“ segir Kristján og minnir á að hann sé ekki eini rokkarinn sem kennt hafi tónlist í grunnskólum landsins. „Bæði Þráinn [Árni Baldvinsson] og Gunnar Ben í Skálmöld hafa kennt tónmennt.“
– Er einhver tónlist sem þú myndir alls ekki miðla?
„Það er góð spurning. Ég hugsa ekki. Ég er löngu búinn að losa mig við alla fordóma í sambandi við tónlist og tek því bara vel ef krakkarnir vilja læra lög sem ég bölvaði í sand og ösku þegar ég var tvítugur,“ segir hann brosandi. „Sem kennari á maður helst ekki að loka á neitt. Mér kemur samt í hug afkimi innan svartmálmsins sem ég myndi staldra við, ef svo ólíklega vildi til að einhver nemandi bæri það undir mig. Það er þó ekki á tónlistarlegum forsendum heldur hugmyndafræðilegum en þessi afkimi, National Socialist Black Metal, NSBM, aðhyllist nýnasisma og prédikar yfirburði hvíta kynstofnsins. Það þykir mér ekki geðfellt og myndi setjast niður með viðkomandi og spyrja: Heyrðu félagi, ertu viss um að þú viljir fara þangað? Annars er þetta umræða sem líklegra er að maður þyrfti að eiga við unga tónlistarmenn en nemendur í grunnskóla.“
– Er þessi afkimi uppi á yfirborðinu hérlendis?
„Nei, sem betur fer. Maður veit samt aldrei hvað kraumar undir niðri, þeir eru nefnilega til sem eru of mikið á netinu.“
Kynntur fyrir Iron Maiden
Áhugi Kristjáns á tónlist vaknaði snemma og eins og gengur átti bróðir hans, Andri Már Friðriksson, sem er sex árum eldri, þátt í að koma honum á bragðið. „Ætli ég hafi ekki verið svona sjö eða átta ára þegar hann kynnti mig fyrir Iron Maiden. Þaðan fór ég yfir í dauðarokkið, Cannibal Corpse og annað slíkt en tónlistin sem mótaði mig mest er harðkjarnapönkið; ég tengdi langbest við það þegar ég var unglingur.“
Hann man sem gerst hefði í gær þegar hann mætti á tónleika hjá hinni goðsagnakenndu harðkjarnapönksveit Dys í Reykjavík. „Sú upplifun hafði djúpstæð áhrif á mig og ég lærði á gítar með því að pikka upp lögin þeirra. Í dag er ég sjálfur gítarleikari í Dys.“
Seinna komu popp, djass og indítónlist inn í hans líf og í dag heyrir hann til hljómsveit, Snowed In, sem hann segir að einhverjir myndu kalla popp eða indípönk.
„Eftir á að hyggja hafði hálfsystir mín, Inga Þóra Ingadóttir, líka áhrif á mitt tónlistarlega uppeldi. Hún starfaði á sínum tíma með Love Guru og var tengd Mercedes Club, sem er allt öðruvísi músík. Seinna átti útgáfan mín, Ægisbraut Records, sem heitir eftir götu á Akranesi, þar sem við erum með æfingahúsnæði, eftir að gefa út Love Guru á kassettu. Það var á 20 ára starfsafmæli hans, 2023. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Love Guru tengist harðkjarnasenunni en Frosti og Krummi í Mínus gáfu hann út á sínum tíma undir merkjum útgáfu sinnar, Mannaskíts ehf.,“ segir Kristján.
Já, þeir liggja víða þræðirnir í íslenskri tónlist, jafnvel þvert á stefnur.
Kristján byrjaði að læra á píanó og trommur í Tónlistarskóla Akraness en fann sig ekki alveg í því. Þannig að hann færði sig yfir á gítar og bassa. Hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit 13 ára, harðkjarnapönkbandið Organic Nuclear Waste, eða Lífrænn kjarnorkuúrgangur, eins og það myndi útleggjast á hinu ástkæra ylhýra. Tróð það fyrst upp á grunnskólakaffihúsakvöldi á Skaganum en lognaðist út af þegar Kristján var í tíunda bekk. Þá tók við hljómsveit sem nefnd var Skerðing sem var virk til 2015 eða 2016. Í henni var sama fólkið og á aðild að Snowed In í dag.
Kristján er líklega þekktastur fyrir veru sína í harðkjarnapönkbandinu Gaddavír en það kom fyrst fram á Músíktilraunum 2017. „Það var upphaflega pínu grín enda síðasti séns fyrir trommarann að vera með, þar sem hann var orðinn 25 ára en þar draga Músíktilraunir mörkin. Það snarvirkaði hins vegar eitthvað við þessa hljómsveit, Gaddavír var eiginlega bara hljómsveitin sem mig hafði lengi langað að stofna, þannig að við héldum áfram og þá í fullri alvöru.“
Gaddavír lifir góðu lífi og kláraði á dögunum upptökur á nýrri plötu sem Kristján vonast til að komi út í sumar. „Þetta er sú músík sem stendur hjarta mínu allra næst.“
Áhrifin koma þó víða að og Kristján nefnir Green Day, merkilegt nokk, sem þá hljómsveit sem hafi haft mest áhrif á hann sem lagasmið. Þá sækir hann einnig mikinn innblástur í harðkjarnapönksenuna í áttunni, eins melódískt „crust“ pönk. „Svartmálmurinn stendur mér líka mjög nærri en það eru samt ekki alveg sömu persónulegu áhrifin,“ segir Kristján sem var um skeið í hljómsveitinni Grafnár sem hann skilgreinir sem svartmálms-„grindcore“.
Þá starfrækir hann einnig band sem heitir Fölt folald, nafn sem sótt er til Davids heitins Lynch, og hefur yngri bróðir hans, Friðrik Þór Friðriksson, sungið með því.
Sendiherrasonurinn
Kristján fæddist árið 1994 og man fyrst lauslega eftir sér í kjallaraíbúð í húsi afa síns og ömmu í Vesturbænum. Þriggja ára fluttist hann til Washington ásamt fjölskyldu sinni en faðir hans, Friðrik Jónsson, hefur lengi starfað í utanríkisþjónustunni og er í dag sendiherra Íslands í Varsjá. Kristján var í Washington til sjö ára aldurs. „Ég man ágætlega eftir þeim tíma en við vorum í Washington þegar hryðjuverkaárásin var gerð á Bandaríkin 11. september 2001. Ég var þó of lítill til að gera mér grein fyrir því sem hafði gerst en maður skynjaði að það var eitthvað alvarlegt. Og eftir þetta varð maður logandi hræddur við Osama bin Laden og óttaðist að hann myndi birtast á ólíklegustu stöðum, eins og í sturtunni.“
Þegar hann var sjö ára flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar og þaðan á Kristján bjartar og góðar minningar. Hann náði góðum tökum á tungumálinu og hefur viðhaldið tengingu sinni við Danmörku. „Ég reyni að fara þangað tvisvar á ári,“ segir Kristján sem er ágætlega tengdur inn í harðkjarnasenuna þar um slóðir. „Vera mín í Danmörku hafði mun meiri áhrif á mig en dvölin í Bandaríkjunum enda var ég orðinn eldri.“
Fjölskyldan flutti heim þegar Kristján var 11 ára en 17 ára bjó hann í eitt ár í Bandaríkjunum. „Það hentaði mér ekki að fara frá Akranesi, þar sem ég var farinn að skjóta rótum, til Fairfax sem er önnur ríkasta sýslan í Bandaríkjunum. Mér leiddist þarna og var feginn að komast aftur heim.“
– Ertu róttækur þegar kemur að pólitík?
„Já, ég er það. Það kemur að hluta til úr pönkinu sem er í grunninn mjög samfélagslega gagnrýnin stefna. Það var til dæmis mikið gargað um pólitískt óréttlæti á „eitís“-tímanum, undir Reagan og Thatcher. Sú stemning hefur lifað og menn spyrja sig í sífellu: Hvað getum við gert til að gera okkar nærsamfélag að betri stað? Í mínu tilviki tengist þetta líka efnahagshruninu hérna heima. Mín pólitíska vitund verður til þegar allir eru reiðir. Og kraumi samfélagsleg reiði innra með manni er gott að geta losað um hana gegnum tónlistina.“
– Hún er þá öðrum þræði þerapía?
„Alveg klárlega.“
– Hvað finnst þér um stöðu mála í dag? Fer pólariseringin vaxandi?
„Úff, ég átti ekki von á því að þetta yrði svona pólitískt viðtal,“ svarar hann sposkur á svip. „En já, það er eitthvað mjög skrýtið á seyði í dag og öfgafull, alræðisleg öfl að rísa upp með vaxandi andúð í garð fólks sem á nú þegar undir högg að sækja. Í Bandaríkjunum er til dæmis verið að rúlla til baka réttindum hinsegin fólks og við sjáum stjórnmálaflokka í Evrópu með sömu markmið. Það er áhyggjuefni.“
Án áfengis og tóbaks
Kristján aðhyllist svokallaðan „straight edge“-lífsstíl, það er heldur sig alfarið frá áfengi og öðrum vímuefnum og tóbaki. „Ég kynntist þessari hugmyndafræði fyrst í kringum fermingu gegnum pönkið, þar sem rætur hennar liggja, og þetta höfðaði til mín. Hér var hins vegar mikil óreiða á þessum árum og fyrir mann sem aðhyllist öfgar þá verður áfengi því miður aðlaðandi. Ekki svo að skilja að ég hafi rifið í landaflösku og bölvað Geir H. Haarde en ég byrjaði samt að drekka og djamma. Ætli það hafi ekki verið einhver blanda af unglingaangist og óreiðu í samfélaginu.“
Drykkjan tengdist líka kvíða sem þá var farinn að sækja nokkuð stíft að Kristjáni. „Ég fór að nota áfengið sem meðal við kvíðanum. Það voru að ég held lógísk viðbrögð úr því ég var umkringdur kvíðnu fólki. Þá er ég að tala um ástandið í samfélaginu. Ég gat slökkt eitt kvöld á kvíðanum,“ segir hann.
Að því kom að Kristján áttaði sig á því að hann væri á villigötum. „Ég fann að kvíðinn varð bara meiri í þynnkunni og ég skynjaði að áfengi hefur ekki góð áhrif á mína andlegu heilsu. Það virkaði ekki lengur að slökkva á raunveruleikanum. Fljótlega eftir tvítugsafmælið mitt hætti ég því að drekka, svona loksins þegar ég var orðinn löglegur í vínbúðinni og á barnum,“ segir hann og brosir.
Björgunarhringurinn var „straight edge“-lífsstíllinn og hann hefur haldið sig á beinu brautinni síðan, í rúman áratug. „Þetta var pínu strembið fyrstu mánuðina enda er oft áfengi í kringum tónleikahald og annað slíkt. Ég gætti þess hins vegar að setja mig ekki í erfiðar aðstæður og fólk fór mjög snemma að taka tillit til mín. Sagði bara: „Hey, þetta er Stjáni. Hann er straight!“ Og fólk virðir það.“
Hann kveðst bara hafa fengið athugasemd við þennan nýja lífsstíl úr einni átt. „Amma mín er eina manneskjan sem hefur gefið mér skít fyrir að hætta að drekka,“ segir hann kíminn. „Hún er orðin 86 ára en finnst ennþá gott að fá sér bjór og skilur ekkert í mér. Hún býður mér stundum rauðvínsglas með matnum en segir svo: „Æ, nei, ég var búin að gleyma að þú ert orðinn leiðinlegur.““
Hann hlær.
Kært er með þeim langfeðginum en Kristján bjó hjá ömmu sinni um tíma. Og þaðan hefur hann ættarnafnið en amma hans, Dóra Emilsdóttir Reiners, er þýsk. Hún ólst þar upp í seinna stríði en hefur búið áratugum saman á Íslandi.
Er á mjög góðum stað
Kristján hætti að drekka upp á eigin spýtur, fór ekki í áfengismeðferð. „Ég var ekki alki í líffræðilegum skilningi þess orðs en var orðinn hræddur um að í það stefndi.“
– Þetta hefur væntanlega slegið á kvíðann?
„Já, það hefur gert það. Auk þess að hætta að drekka þá hef ég verið hjá sálfræðingum og stend vel í dag. Hef verið á mjög góðum stað síðustu árin. Ég hef lært að lifa með kvíðanum og veit hvað ég á að gera byrji hann að læðast að mér.“
Ári eftir að hann setti tappann í flöskuna gerðist Kristján vegan og segir þá lífsstílsbreytingu einnig hafa gengið mjög vel. „Annars er ég ekkert að ræða það mikið að fyrra bragði; fólk hefur svo sterkar skoðanir á þessum hlutum enda á veganisminn rætur í skaðaminnkandi pólitík. Leiti fólk ráða hjá mér er ég vitaskuld til í að spjalla en ég ræði ræði þessi mál helst ekki að fyrra bragði við neina nema þá sem eru í svipuðum pælingum, eins og Valla vin minn dordingul.“
Fyrir þá sem ekki þekkja til er Valli dordingull einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar í öfgatónlist og hefur um langt skeið verið vegan.
Mikilvæg mótunarár
Kristján er ógiftur og barnlaus. Spurður hvort hann hafi ekki haft tíma vegna anna til að stofna fjölskyldu svarar hann: „Ekkert endilega. Ég hef vissulega nóg að gera og upplifi mig alls ekki einmana en það kemur fjölskyldu svo sem ekkert við. Það er heldur ekki sama samfélagslega pressan að vera með fjölskyldu í dag og var áður. Sumum finnst bara fínt að vera einir. Það er fjölskyldufólk í hljómsveitunum með mér, þannig að allur gangur er á þessu.“
Hann kann afar vel við sig á Akranesi enda liggja ræturnar þar. Móðir hans, Elínborg Þóra Þorbergsdóttir, er þaðan og sjálfur fæddist hann á Skaganum. „Ég átti mikilvæg mótunarár á Skaganum og staðurinn togaði í mig. Núna erum við að byggja upp harðkjarnasenu þar og ég get ekki hugsað mér að fara frá því verkefni.“
Liður í því er tónlistarhátíðin Lilló Hardcore Fest sem haslað hefur sér völl á umliðnum árum en þar fá öfgabönd af ýmsu tagi að láta ljós sitt skína. Hún er haldin árlega um mánaðamótin október/nóvember. Kristján tengist einnig annarri slíkri hátíð, Norðanpaunki á Laugarbakka, órofa böndum en hún er skilgreind sem árshátíð eða ættarmót fólksins í harðkjarnasenunni.
„Þessar hátíðir eru gríðarlega mikilvægar fyrir jaðartónlistarsamfélagið. Þetta eru ekki bara ættarmót, heldur líka tækifæri fyrir öfgahljómsveitir til að kynna sig eða eftir atvikum minna á sig,“ segir Kristján.
Hann nefnir einnig þungarokkshátíðina Sátuna í Stykkishólmi sem haldin var í fyrsta sinn í sumarbyrjun í fyrra og verður aftur á dagskrá nú. „Allar eiga þessar hátíðir þátt í mikilli fjölgun í öfgatónlistarsamfélaginu á undanförnum árum. Nýliðun hefur verið mikil. Fyrir nokkrum árum leið mér eins og að ég væri unglingur í þessari senu en núna finnst mér ég vera orðinn gamli karlinn. Framtíðin er mjög björt.“
Tónlist og aftur tónlist
Talið berst í lokin að öðrum áhugamálum en tónlist og svarið kemur líklega ekki á óvart. „Allur minn tími fer í músík,“ svarar Kristján. „Meira að segja þegar ég fer í göngutúra, þá er ég með tónlist í eyrunum. Ég er líka mjög duglegur að fylgjast með og fer mikið á tónleika hjá öðrum tónlistarmönnum og hljómsveitum. Þegar maður hugsar út í það er í raun furðulegt að ég sé ekki kominn með ógeð á tónlist.“
Hann hlær.
– Heldurðu að það eigi eftir að gerast?
„Nei, ábyggilega ekki. Fyrst það er ekki búið að gerast nú þegar.“