— Morgunblaðið/Karítas
Við hvað starfar þú dagsdaglega? Aðallega við kvikmyndagerð. Ég hef verið að leikstýra þáttum eins og Kanarí og Sveitarómantík, en auk þess hef ég verið að skjóta og klippa alls kyns myndbönd, bæði fyrir sjónvarp og samfélagsmiðla

Við hvað starfar þú dagsdaglega?

Aðallega við kvikmyndagerð. Ég hef verið að leikstýra þáttum eins og Kanarí og Sveitarómantík, en auk þess hef ég verið að skjóta og klippa alls kyns myndbönd, bæði fyrir sjónvarp og samfélagsmiðla. Ég tók ársnám í almennri kvikmyndagerð í Danmörku og hef svo verið að vinna sjálfstætt síðan. Reyndar hafði ég áður klárað heimspekinám.

Hefur grín alltaf fylgt þér?

Ég hef nú alltaf verið að grínast en sá ekki fyrir mér að gera neitt úr því. En við vinirnir, ég og Pálmi Freyr, mönuðum hvor annan á fyrsta spunanámskeið sem haldið var á Íslandi. Við urðum algjörlega heillaðir af spuna og höfum nú verið að sýna spuna í tíu ár. Ég hef verið í Improv Ísland-hópnum frá byrjun. Svo fékk ég vini mína með mér í Kanarí-hópinn sem gerir sketsa. En það hefur blundað lengi í mér að vera með uppistand.

Ertu nýbyrjaður í uppistandi?

Já, það má kannski segja það en ég hef alltaf haft gaman af því að segja sögur og grínast. Ég hafði frestað því lengi að gera uppistand af því að ég hef verið upptekinn við annað og svo er þetta auðvitað svolítið kvíðavaldandi. Mér finnst gaman að koma fram en var alltaf hræddur við það líka. En smátt og smátt hef ég losnað við hræðsluna, í gegnum Improv-ið. Nú nýt ég þess að vera á sviði. Ég man samt að þegar ég prófaði uppistand fyrst fyrir tveimur árum hugsaði ég áður en ég fór á svið, hvað í fjandanum er ég að gera? En stressið fór um leið og ég byrjaði. Nú hlakka ég alltaf til að sýna.

Hverju ertu að gera grín að á sýningunni?

Ég er nýorðinn pabbi og tala mikið um það. Ég geri mikið grín að barnauppeldinu. Svo er ég með sögur af mér frá því að ég er lítill að reyna að vera töff. Svo tala ég auðvitað um alls konar annað líka, eins og algóritmann hjá mér og íslenskt samfélag. Svo geri ég mjög mikið grín að sjálfum mér. Ég held að það sé best að gera grín að því sem maður þekkir vel.

Er hlegið á sýningum?

Nei, það er dauðaþögn. Djók. Jú, það er hlegið mikið!

Lítill töffari er glæný uppistandssýning Guðmundar Einars. Þar fjallar hann um hversu erfitt er að vera töff, barnauppeldi í samtímanum og í gamla daga, samskipti, tónlist, veðrið og nútímann. Næsta sýning er fimmtudaginn 6. mars í Tjarnarbíói. Miðar fást á tix.is.