Tungutak
Gísli Sigurðsson
gislisi@hi.is
Ari fróði Þorgilsson (1068-1148) segist fyrst hafa gert Íslendingabók fyrir biskupana Þorlák (Runólfsson) og Ketil (Þorsteinsson), og sýnt bæði þeim og Sæmundi presti (fróða) áður en hann gekk frá bókinni. Ketill varð biskup að Hólum 1122 og Þorlákur og Sæmundur dóu báðir 1133.
Ari missti föður sinn ungur og ólst upp hjá Gelli föðurafa sínum, syni Þorkels og Guðrúnar Ósvífursdóttur á Helgafelli. Sagt er frá fjölskyldunni við lok Laxdælu og víðar. Í bernsku lærði Ari af Þorkeli föðurbróður sínum Grænlandsfara sem mundi langt fram og Þuríði Snorradóttur goða „er bæði var margspök og óljúgfróð“. Gellir afi Ara dó í Danmörku, á heimleið frá Róm, og eftir það fór Ari sjö vetra gamall árið 1075 í fóstur hjá Halli Þórarinssyni í Haukadal, föðurafabróður Þorláks Runólfssonar biskups. Móðurafi Þorláks var Snorri sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Þegar Ari kom í Haukadal var Hallur um áttrætt og lést ekki fyrr en fjórtán árum síðar. Þar fóstraði Ara Teitur Ísleifsson, bróðir Gissurar, síðar biskups.
Gissur var á þessum árum í förum með Steinunni konu sinni Þorgrímsdóttur úr Suðursveit eins og sagt er frá í Hungurvöku, en hún hafði áður verið gift að Hofi í Vopnafirði. Þau voru í tygjum við Harald harðráða Noregskonung (sem hafði verið í Miklagarði og féll þegar hann réðst inn í England 1066) og fóru saman til Róms áður en þau sneru aftur til Íslands eftir andlát Ísleifs biskups, föður þeirra Teits og Gissurar, árið 1080. Tveimur árum síðar var Gissur vígður til biskups. Gissur og Steinunn gætu hafa verið samferða Gelli í Rómarferðinni og lofað honum að sjá um Ara litla á Helgafelli. Ari ólst því upp í allra efsta lagi þjóðfélagsins á þeim árum þegar Jón síðar Hólabiskup og Sæmundur fróði voru að koma heim frá námi og hefur átt greiða leið að innsta hring valda- og auðmanna.
Ari leggur áherslu á hvað heimildarmenn sínir hafi náð háum aldri og því getað munað langt fram en afrek hans er að fella hið hefðbundna tímatal munnlegu hefðarinnar, sem miðaðist við lögsögumannstíð einstakra lögsögumanna, að tímatali bókmenningar kirkjunnar. Að auki vísar Ari til ártala úr ævi konunga, páfa og annarra fyrirmenna til viðmiðunar þegar hann stillir hið hefðbundna tímatal af, og hefur þar stuðst við alþekkt rit síns tíma. Hvarvetna þar sem kristni fór um lönd var það með fyrstu verkefnum fróðra manna að fella fyrirliggjandi tímatal að áratalinu frá burði Krists.
Snorri Sturluson taldi fræði Ara hin merkilegustu, enda hefði Ari bæði verið gamall og haft góða heimildarmenn: „Því var eigi undarlegt að Ari væri sannfróður að fornum tíðindum bæði hér og utanlands, að hann hafði numið að gömlum mönnum og vitrum en var sjálfur námgjarn og minnugur.“ Dæmið af Ara fróða sýnir hvað það var stutt aftur til persóna og atburða sögualdar í árdaga ritaldar hér á landi.