Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur telur ekki tímabært að svo stöddu að heimila uppbyggingu á lóðinni Skógarhlíð 8. Svæðið þurfi að skipuleggja í heild m.a. vegna nálægðar við fyrirhugaðan Miklubrautarstokk.
Skógarhlíðin er fyrir neðan Öskjuhlíð og telst til Hlíðanna. Þetta er því eftirsótt og áhugaverð staðsetning í höfuðborginni.
Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa nýlega var lögð fram fyrirspurn Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins dags. 11. desember 2024, um breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar vegna lóðarinnar nr. 8, sem felst í uppbyggingu og þróun svæðisins fyrir blandaða byggð, samkvæmt tillögu Kanon arkitekta.
Með frekari uppbyggingu á lóðinni vilji félögin taka þátt í þróun svæðisins í takt við aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og hverfisskipulag Hlíða, og um leið skapa sér grundvöll til að þróa starfsemi sína, mögulega í samstarfi við Landspítalann eða aðrar stofnanir.
Í aðalskipulagi sé reiturinn sem umrædd lóð tilheyrir einn af uppbyggingarreitum borgarinnar sem skilgreindir eru m.a. fyrir nýja íbúðabyggð.
Landnotkun geri ráð fyrir verulegri aukningu á byggingamagni á svæðinu sem sé í takt við þá sýn að þéttleiki byggðar verði mestur næst tengilínu borgarlínu. Gert er ráð fyrir því að aðkomuleið verði óbreytt.
Á lóðinni stendur nú ein bygging, sem hýsir starfsemi krabbameinsfélaganna, 2.636 fermetrar að stærð. Fram kemur á heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands að árið 1981 hófst söfnunarátak til kaupa á húsi fyrir hina umfangsmiklu starfsemi sem fram fer á vegum félaganna. Söfnunarféð dugði til að kaupa Skógarhlíð 8 sem þá var í byggingu. Flutt var í húsið 1984.
Byggingar allt að fimm hæðir
Meginniðurstaða forskoðunar sé sú að lóðin beri vel nýja, allt að fimm hæða byggð, í samræmi við stefnu aðalskipulags. Heildarbyggingamagn á lóð, að núverandi byggingu meðtalinni, gæti verið á bilinu 10.000 til 11.500 fermetrar.
Í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa kemur fram að þegar horft sé til þróunar möguleika á uppbyggingu á lóðinni nr. 8 við Skógarhlíð sé nauðsynlegt að horfa til reitsins í heild þar sem það varðar fleiri hagsmuni hvernig hún er nýtt.
Í gildandi deiliskipulagi er heimiluð uppbygging á lóðunum við Skógarhlíð. Vel mætti sjá fyrir sér þróun og breytingar á uppbyggingarreitunum við Skógarhlíð 8 en það þurfi að gerast í stærra samhengi og þá meðal annars með Miklubrautarstokk. Þar sé meginhugmynd meðal annars ný byggð ofan á stokkinn þar sem tilgangurinn sé að tengja saman íbúðabyggð í Hlíðum, Norðurmýri og Hlíðarenda.
„Að ofansögðu er því ekki mælt með að heimila breytingar á einni lóð á þessu svæði þar sem þörf er talin á að skoða hana sem stærri skipulagslega heild og með Miklubrautarstokk. Svæðið er framtíðarsvæði og því ekki tímabært að svo stöddu að vinna með heildstæða mynd,“ segir verkefnastjórinn í umsögn sinni.
Í samantekt á heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands má lesa að snemma árs 1949 var farið að undirbúa stofnun grasrótarsamtaka til að berjast gegn krabbameinum. Þar var ákveðið að stefna að stofnun landssamtaka en hefja þó starfið svæðisbundið í Reykjavík og nágrenni.
Krabbameinsfélag Reykjavíkur var stofnað á fjölmennum fundi. Stofnfélagar voru 500 og formaður var kjörinn Níels Dungal, forstöðulæknir Rannsóknarstofu Háskólans (RH) í meinafræði.
Krabbameinsfélag Íslands var stofnað árið 1951 og Níels Dungal kjörinn formaður. Þá voru þegar starfandi svæðafélög í Reykjavík, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum og síðar bættust við félög á Akureyri og Suðurnesjum.