KVIKMYNDIR
HELGI SNÆR
SIGURÐSSON
Orðið „conclave“ er notað í ensku yfir páfakjör og um þá snúnu og tímafreku athöfn fjallar þessi vandaða kvikmynd þýska leikstjórans Edwards Bergers. Berger leikstýrði Im Westen nichts Neues, eða Tíðindalaust af vesturvígstöðvunum, einni bestu kvikmynd ársins 2022 sem sópaði að sér verðlaunum á sínum tíma og skal engan undra. Conclave var frumsýnd í fyrra, 30. ágúst, á hátíðinni Telluride í Colorado í Bandaríkjunum, og er nú loksins komin í íslensk kvikmyndahús. Hefur myndin hlotið mikinn fjölda verðlauna, m.a. hin bresku Bafta-verðlaun og er tilnefnd til átta Óskarsverðlauna. Óskarinn verður afhentur 3. mars og þykir líklegt að Conclave hljóti nokkrar styttur. Spyrjum þó að leikslokum.
Ralph Fiennes fer með aðalhlutverk myndarinnar, leikur enska kardínálann Thomas Lawrence sem er svo að segja á nálum alla myndina. Myndin hefst með dimmum og drungalegum tónum úr kontrabassa, dramatískum strokum og höggum bogans á strengina og plokki sem einkennist af endurtekinni stígandi. Þessi tónlist hefur strax sín áhrif á áhorfandann og veldur spennu ein og sér. Setur tóninn, bókstaflega, enda ærin ástæða til því nokkrum sekúndum síðar kemur í ljós að páfinn er dáinn. Leggst það á þreyttar herðar kardínálans Lawrence að stýra þeirri miklu og flóknu atburðarás og athöfn sem fylgir í kjölfarið, að sjá til þess að nýr páfi verði kjörinn. Nokkrir koma til greina og hver þeirra er með sínar áherslur, misjafnlega íhaldssamar, þeir helstu Aldo Bellini (Stanley Tucci), Joseph Tremblay (John Lithgow), Joshua Adeyemi (Lucian Msamati) og Goffredo Tedesco (Sergio Castellitto). Þessir menn eru misgeðslegir og Tedesco einna verstur og fordómafyllstur. Líst Lawrence ekki á blikuna eftir fyrstu umferð páfakjörs því allt stefnir í að sá sem hann kýs og lítur á sem vin sinn, Bellini, muni ekki verða fyrir valinu.
Leikaraveisla
Þó stutt lýsing á innihaldi myndarinnar bendi til þess að hún sé óskaplega leiðinleg og langdregin (háttsettir kirkjunnar menn sækjast eftir því að verða páfi, úff!) þá er hún það alls ekki, þökk sé vel skrifuðu handriti. Hætt er við því að áhorfendur ruglist framan af á persónum, um hvern sé verið að ræða hverju sinni og er það er vel leyst með því að sýna tiltekinn leikara hverju sinni þegar um hann er rætt í Sixtínsku kapellunni, þar sem kirkjunnar menn funda og ráða ráðum sínum fyrir luktum dyrum. Þegar verið er að tala um Tremblay er hann í mynd, og svo framvegis. Þá er þess gætt að halda spennunni með óvæntum snúningum í framvindunni og vel mótuðum persónum. Ekki er allt sem sýnist í Páfagarði, svo mikið er víst, og áhorfandinn veit í raun aldrei við hverju má búast næst. Fyrir vikið er þetta ekki síður spennumynd en drama.
Conclave er hreinasta veisla þegar kemur að leikaravali. Ralph Fiennes er að vanda frábær, leikari sem slær aldrei feilnótu og ekki eru þeir Stanley Tucci og John Lithgow síðri. Sergio Castellitto leikur hinn ógeðfellda Tedesco kardínála sem virðist af öllu vera kynþáttahatari og Lucian Msamati er sannfærandi sem Adeyemi. Mexíkóski leikarinn Carlos Diehz er þó einna eftirminnilegastur í lágstemmdu en afar mikilvægu hlutverki kardínála og erkibiskups í Kabúl, Benitez. Atriði þar sem þessi persóna er kynnt til sögunnar er býsna spaugilegt og skrítið en persónan er afar mikilvæg sögunni, svo ekki sé meira sagt. Og hvar eru svo allar konurnar? kann einhver að spyrja. Þær koma heldur lítið við sögu en ein er þó mikilvæg, nunnan Agnes sem leikin er með dramatískum þunga af Isabellu Rossellini.
Guðdómleg lýsing
Inn í þá sögu sem hér hefur verið rakin stuttlega fléttast trúarlegar efasemdir aðalpersónunnar og leyndarmál sem þola illa dagsljósið. Það er maðkur í mysunni og sá maðkur er bústinn.
Líkt og Kristur á krossinum forðum er Lawrence plagaður af efasemdum um trúna og hlutverk sitt í Páfagarði og snemma myndar er ljóst að hann vildi heldur sinna köllun sinni með öðrum hætti. Til hvers ætlast guð almáttugur af honum? Er fulltrúi hans hér á jörðu í Páfagarði? Þessar spurningar og fleiri eru bornar undir áhorfendur og í höndum hvers og eins að svara þeim. Lokakafli myndarinnar mun mögulega veita einhver svör.
Allt útlit þessarar myndar er hnökralaust og leikmyndir svo vel úr garði gerðar að halda mætti að myndin væri öll tekin í Páfagarði og þá m.a. Sixtínsku kapellunni sem er vægast sagt erfitt að endurgera fyrir kvikmynd.
Kvikmyndataka er líka glæsileg og nokkur skot sem lifa lengi með manni eftir áhorf. Má sérstaklega nefna atriði sem er tekið úr lofti utandyra og sýnir prestana ganga til fundar, alla með eins regnhlífar en einn er þó regnhlífarlaus og er það væntanlega táknræn leið til að sýna þann sem sker sig úr, að öllum líkindum fer þar Lawrence.
Annað atriði á sér stað í fundarsal og lýsingin í því vekur athygli þar sem ljósi virðist beint sérstaklega á einn viðstaddra, líkt og hann sé öðrum heilagri. Þannig mætti áfram telja þau mörgu atriði myndarinnar sem gleðja augað, eru með undurfallegri lýsingu og myndatöku og leikmyndahönnun er líka vönduð og hefur án efa haft mikið að segja þegar kom að innlifun leikara, ekki síður en búningarnir.
Nú má vera að Conclave sé ekki fullkomlega raunsæ og að eitt og annað sé fært í stílinn, formsins vegna, og það eðlilega. Þetta er bíómynd, ekki heimildarmynd, og fellur að auki í flokk spennu- og dramamynda. Einhverra hluta vegna varð rýni við áhorfið hugsað til skúlptúrs Ítalans Maurizios Cattelans, „La nona ora“, frá árinu 1999, sem sýnir Jóhannes Pál páfa II liggjandi á gólfinu eftir að hafa orðið fyrir loftsteini. Er það einkum eitt atriði myndarinnar sem olli þessum hugrenningatengslum, þó ekki sé það alveg jafnóvænt og að verða fyrir loftsteini.