Magnea Marín Halldórsdóttir
magnea@mbl.is
Donald Trump Bandaríkjaforseti sakaði Volodimír Selenskí Úkraínuforseta um að hætta á að heimsstyrjöld brjótist út á fordæmalausum fundi leiðtoganna fram fór á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu í gær. Trump og varaforseti hans J.D. Vance helltu sér yfir Selenskí áður en fundurinn leystist upp og Úkraínuforseta var vísað á dyr.
„Annaðhvort gerirðu samning eða við erum hætt þessu,“ sagði Trump við Selenskí á fundinum en markmiðið með honum var að draga úr spennu á milli landanna.
„Þú ert að spila með líf milljóna manna. Þú ert að hætta á þriðju heimsstyrjöldina og það sem þú ert að gera er vanvirðing við þetta land,“ fullyrti Trump.
Fundurinn átti að draga úr spennu
Selenskí var í Hvíta húsinu til að skrifa undir samning um að deila jarðefnaauðlindum Úkraínu með Bandaríkjunum og til að ræða friðarsamning við Rússland, þrátt fyrir að Trump hafi nýlega sakað úkraínska starfsbróður sinn um að vera einræðisherra. J.D. Vance sagði Selenskí sýna Bandaríkjaforseta vanvirðingu á skrifstofu hans. Trump tók undir með varaforseta sínum og ástandið varð sífellt spennuþrungnara.
Skrifaði ekki undir samninginn
Trump er sagður hafa vísað Selenskí á dyr í kjölfar þess að upp úr sauð á fundinum á forsetaskrifstofunni fyrir opnum tjöldum. Sameiginlegum blaðamannafundi leiðtoganna, sem átti að fara fram eftir fundinn í Hvíta húsinu, var í kjölfarið aflýst.
Selenskí skrifaði ekki undir samninginn um að deila jarðefnaauðlindum Úkraínu, en Trump hafði áður sagt að samningurinn yrði undirritaður á sameiginlegum blaðamannafundi.
Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér að fundi loknum segir Trump að Selenskí sé greinilega ekki tilbúinn fyrir frið ef Bandaríkin eiga hlut að máli, af því hann telji þátttöku Bandaríkjanna gefa sér forskot í samningaviðræðum.
„Ég vil ekki forskot, ég vil frið. Hann vanvirti Bandaríki Norður-Ameríku okkar ástkæru forsetaskrifstofu. Hann getur komið til baka þegar hann er tilbúinn fyrir frið.“