Gláp Það getur reynst erfitt að breyta til.
Gláp Það getur reynst erfitt að breyta til. — Morgunblaðið/Ernir
Mér leiðist margt en að horfa aftur og aftur á ákveðið sjónvarpsefni eða hlusta aftur og aftur á sama lagið, er ekki eitt af því. Ég get alveg fengið eitthvert ákveðið lag á heilann og hlustað endalaust á það í dágóðan tíma

Jökull Þorkelsson

Mér leiðist margt en að horfa aftur og aftur á ákveðið sjónvarpsefni eða hlusta aftur og aftur á sama lagið, er ekki eitt af því. Ég get alveg fengið eitthvert ákveðið lag á heilann og hlustað endalaust á það í dágóðan tíma.

Það sama gildir um sjónvarpsþætti og kvikmyndir en auðvitað í öðruvísi lagi. Þar er maður ekki endalaust að horfa á sama efnið, enda yfirleitt tímafrekara.

Hins vegar þegar ég sest loks upp í sófa eftir langan dag í vinnunni eða skólanum, set ég í flest tilfelli eitthvað á sem ég hef séð áður. Þetta er ekki endilega eitthvað sem ég monta mig af, og ég væri til í að breyta þessu. Aftur á móti finnst mér oft erfitt að finna nýtt sjónvarpsefni, og á sama tíma tónlist til að hlusta á.

Í þau skipti sem ég geri það þó, nýt ég þess mikið. Ég veit ekki alveg hvernig skal vinna úr þessum galla hjá mér, en ég hef reynt margt. Týpískt er að mæta upp í sófa, mjög peppaður að fara horfa á nýtt efni, og segja síðan: „Æ, ég byrja á þessu á morgun.“ Kannski er þetta bara svipað og með allt annað, þótt ómerkilegra sé. Á morgun er nefnilega djöfull sem maður verður við að eiga allt sitt líf. Fyrst ég hef náð að sigrast á honum í nokkrum mikilvægum þáttum í lífinu, hlýtur þetta næsta skref að vera auðvelt, eða hvað?

Höf.: Jökull Þorkelsson