„Vinir mínir hafa lýst áhyggjum af því að ná ekki að komast í gegnum þakkargjörðarkvöldverð með fjölskyldunni án þess að fara að rífast,“ segir Jón von Tetzchner.
„Vinir mínir hafa lýst áhyggjum af því að ná ekki að komast í gegnum þakkargjörðarkvöldverð með fjölskyldunni án þess að fara að rífast,“ segir Jón von Tetzchner. — Morgunblaðið/Hákon
Þetta er farið að minna á kvikmyndina The Matrix og er of langt gengið. Að mínu mati á tölvutækni að hjálpa okkur en ekki að koma í staðinn fyrir aðra hluti.

Frumkvöðullinn og fjárfestirinn Jón von Tetzchner hefur þó nokkur umsvif hér á landi og er stór hluthafi í símafyrirtækinu Hringdu og mjólkurframleiðandanum Örnu svo dæmi séu tekin. Meginfókus Jóns er þó á þróun netvafrans Vivaldi, sem fagnar tíu ára afmæli á þessu ári.

Áður byggði Jón upp vafrann Operu, frá 1995 til 2010, en síðasta hlut sinn í vafranum seldi hann frá sér árið 2013. Þá voru notendur Operu orðnir um 350 milljónir. „Við settum fyrstu útgáfu af Vivaldi á markaðinn árið 2015, svokallaða tæknilega forsýningu (e. technical preview), og sýndum á spilin. Svo héldum við áfram að þróa,“ segir Jón í samtali við ViðskiptaMoggann.

Í upphafi var vafrinn búinn til fyrir Windows-, Apple Macintosh- og Linux-stýrikerfin en síðar bættust Android- og Apple IOS-stýrikerfin við. „IOS tók meiri tíma í vinnslu.“

Næsta skref á þróunarbrautinni var aðlögun vafrans að bílum. „Við byrjuðum í Polestar en síðan hafa ýmis bílamerki bæst við, Mercedes-Benz, Audi, Ford, Porsche, Lincoln, Renault, Volvo o.fl. Við erum enn þá eina fyrirtækið sem er að þróa vafra fyrir bíla af einhverri alvöru,“ útskýrir Jón.

Hann segir að Google sé t.d. einungis búið að smíða prufuútgáfu (e. beta) af Chrome-vafranum fyrir bíla.

Flestir nýir bílar í dag hafa skjá í miðju mælaborðinu en eiginlegur vafri er oftast ekki innbyggður. „Í bílum frá fyrrnefndum merkjum sem eru með Android Automotive/Google geturðu hlaðið okkar vafra niður og notað internetið óhindrað, horft á vídeó, hlustað á tónlist og vafrað milli síðna.“

Um þróunina segir Jón að Vivaldi líti á hana sem ákveðna hillu til að sækja fram á. „Við mörkuðum okkur sérstöðu hjá Opera með því að búa til vafra fyrir farsíma á þeim tíma sem fólk hafði ekki trú á að hægt væri að nota netið í símum. Nú gerum við það sama með bílana.“

3-3,5 milljónir notenda

Notendum Vivaldi fer jafnt og þétt fjölgandi. „Við erum með 3-3,5 milljónir notenda. Aukningin mætti ganga hraðar, en þetta tekur tíma.“

Jón segir að Vivaldi sé innihaldsríkasti vafrinn á markaðnum. „Til dæmis geturðu hindrað auglýsingar og eftirfylgni (e. tracking). Við höfum byggt inn tölvupóst, dagatal og RSS. Þeir sem hafa mestu þarfirnar koma fyrst til okkar og eru ánægðir. Sama má segja um tölvunördana. Þeir eru margir hjá okkur.“

Jón er ómyrkur í máli þegar hann ræðir stöðuna í heiminum í dag og hlutverk Vivaldi í honum. „Það eru margir spennandi hlutir í pípunum hjá okkur og hluti af þeim tengist því sem er að gerast í veröldinni. Fólk er ekki ánægt með hvað tæknirisarnir eru að gera, Meta, Google, o.s.frv. Fólk er að leita að lausnum til að nota í staðinn og þar höfum við ákveðna sérstöðu.“

Jón ítrekar stöðu Vivaldi í tækniheiminum, sem er mikilvæg að hans mati. „Samkeppnisyfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum ræða reglulega við okkur. Þau leita til okkar til að fá upplýsingar um hvernig er að keppa við þessi fyrirtæki og hvaða aðferðir þau nota til að stöðva keppinauta.“

Risarnir vita sem sagt af ykkur?

„Já, þeir vita hver við erum.“

En um hvað eru samkeppnisyfirvöld að forvitnast?

„Þau vilja vita hvernig okkur gengur að breiða út vöruna okkar. Staðreyndin er til dæmis sú að allir sem nota tölvu með Windows-stýrikerfinu fá fjölda viðvarana þegar þeir reyna að hlaða vafranum okkar niður. Ef fólki tekst það og það merkir vafrann sem sjálfgefinn (e. default) þarf ekki annað en eina af þessum reglulegu uppfærslum á Windows til að tölvan breyti sjálfgefnum vafra aftur yfir í Microsoft Edge, sem fylgir Windows-stýrikerfinu, án þess að spyrja kóng eða prest. Þetta er sérlega bagalegt af því að vafri er það forrit sem fólk notar í nær alla hluti í dag.“

Það kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir en Vivaldi, Microsoft Edge og fleiri vafrar nota Chromium-kóðann frá Google sem undirliggjandi tækni. Chromium er opinn hugbúnaður (e. open source). „Við gerum samt fullt af breytingum á tækninni, en það er ekki þar með sagt að þær skili sér inn í grunnkóðann.“

Jón segir að samkeppnisyfirvöld séu þessi misserin mikið að skoða hvernig tæknirisarnir koma fram við keppinauta. „Að sumu leyti er þetta að verða stórpólitískt.“

Hluti af vandamálinu er gagnasöfnun risanna, en Jón hefur verið óþreytandi að gagnrýna það atriði. Vivaldi safnar ekki gögnum um notendur sína. „Úr þessum gögnum búa fyrirtækin til gagnagrunna um fólk sem eru notaðir á óheppilegan hátt.“

Ójafnvægi á hlutunum

Eftir nýjustu vendingar í stjórnmálum í Bandaríkjunum, þar sem nýkjörinn forseti, Donald Trump, hefur fengið tæknirisana á sitt band og t.d. fengið fulltrúa í stjórn Meta er komið ákveðið ójafnvægi á hlutina að sögn Jóns. „Þarna eru tæknirisarnir komnir með öflugan bandamann í baráttu sinni við samkeppnisyfirvöld í Evrópu og annars staðar sem vilja einungis verja notendur og samkeppni.“

Jón segir að barátta risanna snúi einnig að skattamálum. „Þessi fyrirtæki hafa fundið aðferðafræði til að borga lítinn skatt í Evrópu. Hlutirnir eru orðnir mjög skrýtnir þegar eðlileg og lögleg krafa um skattgreiðslur er orðin hluti af viðskiptastríði milli heimsálfa.“

En af hverju er gagnasöfnun tæknirisanna hættuleg?

Jón segir að áhrifin séu þjóðfélagsleg og birtist í svokallaðri skautun (e. polarization), sem mikið hefur verið í umræðunni síðustu ár. „Fólk hættir að geta talað saman. Það fer að lifa í mismunandi heimum. Það er hluti af því sem kemur út úr söfnun gagna að þú sérð auglýsingar og efni á netinu tengt því sem þú og aðrir sem líkjast þér eru að horfa á. Þannig er okkur ýtt í mismunandi áttir, sem er stórhættulegt. Á sama tíma hafa þessi fyrirtæki, eins og Facebook, fundið út að það sem gerir okkur reið heldur okkur áfram á síðunni. Fólk fer að rífast um hluti. Persónulega tel ég að það ætti að vera bannað að nýta gögn á þennan hátt og að safna þeim upp um hvern og einn notanda.“

Hann segir að kannski sé ekki um beina hættu fyrir hvern og einn einstakling að ræða heldur fyrir samfélagið í heild. „Við endum á að innbyrða mismunandi upplýsingar, sem gerir okkur reið út í hvert annað. Við förum að lifa á mismunandi „plánetum“. Það er ótrúlega mikilvægt að sporna gegn þessu. Eitt af því sem við gerðum með íslensku Neytendasamtökunum var að búa til vefsíðuna banspying.org. Þar má kynna sér málið.“

Minna á Íslandi

Spurður hvort hann hafi orðið var við þessa skautun í daglega lífinu játar Jón því. „Þetta er minna á Íslandi en víða annars staðar, en þetta er orðið mjög sýnilegt í Bandaríkjunum þar sem ég bý. Vinir mínir hafa lýst áhyggjum af því að ná ekki að komast í gegnum þakkargjörðarkvöldverð með fjölskyldunni án þess að fara að rífast. Þetta er ekkert grín. Um þetta er líka rætt í bandarískum fjölmiðlum, um það hvernig þú átt að lifa af fjölskyldusamkomur þar sem þú hittir fólk sem sér heiminn á allt annan máta en þú.“

Jón segir að í covid-19-faraldrinum hafi Íslendingar kynnst þessari skautun. „Þá skiptist fólk í ólíka hópa. Sumir hættu að treysta rannsóknum og tækni. Ég persónulega lít þannig á að ef bíllinn bilar viti bifvélavirki best hvað eigi að gera, og það sama gildir um sjúkdóma og lækna.“

Jón segir að samt sem áður, þegar horft sé á alþjóðlegan samanburð, hafi langflestir á Íslandi hlustað á sérfræðingana og því hafi hlutirnir virkað vel. „Ég kom í covid-frí frá Bandaríkjunum með syni mínum. Þar í landi gátum við ekki gert neitt en hér gátum við um frjálst höfuð strokið eftir sóttkví og þrjú covid-próf. Í öðrum löndum voru oft send út mismunandi skilaboð og sumir hlustuðu og aðrir ekki. Þú stöðvar ekki svona sjúkdóm nema allir vinni saman.“

Til að leggja frekari lóð á vogarskálarnar hefur Vivaldi í samstarfi við aðra byggt upp sinn eigin samfélagsmiðil, Vivaldi Social, og er hann aðgengilegur inni í vafranum. „Við erum ekki stórir en ástæðan fyrir þessu er að við viljum berjast fyrir því að byggður verði upp öðruvísi samfélagsmiðill. Vivaldi Social er hluti af Mastodon-samfélagsmiðlinum, sem er aftur hluti af Fediverse, en kerfið er opinn hugbúnaður og líkist X/Twitter. Þarna geta aðilar sett upp tölvur sem tengjast öðrum tölvum. Þannig hangir kerfið saman í stað þess að það sé eitt miðlægt risafyrirtæki sem heldur um stjórnartauma, safnar gögnum og ákveður hvað þú færð að sjá.“

Jón segir að markmiðið sé að búa til samfélagsmiðil þar sem þú sérð það sem vinir þínir deila en ekki bara hitt og þetta dót sem algóritminn sýnir þér sjálfvirkt.

Í Mastodon-kerfinu eru 10 milljónir notenda. Til samanburðar eru notendur Facebook rúmlega þrír milljarðar.

„Notendum fjölgar og ég tel að okkar lausn sé miklu betri en X, Facebook, TikTok o.s.frv. Þar færðu að sjá alls konar furðulega hluti sem þú valdir ekki sjálfur að sjá. Á stóru miðlunum er líka gríðarlega mikið af efni sem búið er til af gervigreind, sem er hálfskrýtið og nokkuð sem maður hefur eiginlega ekki áhuga á.“

Jón ætti að vita um hvað hann er að tala. Þegar hann vann hjá rannsóknastofnun Símans í Noregi kom hann að því að setja upp einn af 100 fyrstu netmiðlurum í heimi. „Við byggðum upp intranet án þess að það nafn væri orðið til. Svo bjuggum við Operu-vafrann til innan þess og færðum svo í sérstakt fyrirtæki. Þannig að ég hef verið á netinu síðan 1992 og séð allar þær breytingar sem orðið hafa.

Ég hef alltaf sagt að netið geri heiminn betri, en svo gerðist eitthvað fyrir 12-13 árum sem ég var ekki ánægður með, og tengdist fyrrnefndri gagnasöfnun. Fyrir þann tíma voru samfélagsmiðlar öðruvísi, en á þessum tímapunkti breyttist algóritminn. Ef þú varst með milljón fylgjendur sáu þeir færslur frá þér. Núna sér bara brot af þessum fylgjendum efnið sem þú setur út, nema þú örvir það með tilheyrandi kostnaði.“

Halda þér inni

Tæknirisarnir gera allt sem þeir geta til að halda þér inni í þeirra kerfi að sögn Jóns. „Facebook vill halda þér inni, helst þannig að þú farir aldrei aftur út. Svo eru þeir að byggja sýndarveruleikaheiminn Metaverse. Þangað áttu að fara og spjalla við gervifólk og dvelja helst sem allra lengst. Ég spyr mig hvernig þetta endar. Þetta er farið að minna á kvikmyndina The Matrix og er of langt gengið. Að mínu mati á tölvutækni að hjálpa okkur en ekki að koma í staðinn fyrir aðra hluti. Það er mikilvægt að fólk talist við og hittist. Því miður er fólk að lokast inni í ákveðnum gerviheimi.“

En af hverju halda tæknirisarnir þessu áfram?

„Þetta er auðvitað spurning um peninga. Því meira sem þú ert inni í kerfinu hjá þeim, þeim mun meira geta þeir þénað. Rannsóknir sýna að ef fólk er reitt, þá er það lengur í kerfunum og skrifar meira.“

Í upphafi samfélagsmiðlanna var fullt af skrítnu fólki sem skrifaði á miðlana að sögn Jóns. En það var úti í horni og fáir sáu færslurnar frá því. „Nú er þessu efni lyft í hæstu hæðir.“

Jón segir að þó að Elon Musk eigandi X tali um opnun og skoðanafrelsi hafi hann ekki leyft Vivaldi að skrifa það sem þau vildu og þau orðið minna sýnileg. „Það var af því að við vorum að bjóða fólki yfir á Vivaldi Social. Þetta er allt frelsið. Musk hefur breyst mikið. Það er ekki langt síðan hann var hetja í nördasamfélaginu.“

Annað dæmi um hegðun netrisanna er að Vivaldi hefur þurft að hætta að segjast vera Vivaldi á netinu. „Í hvert sinn sem þú tengist miðlara segirðu hver þú ert, hver vafrinn er. Við byrjuðum að segja að við værum Vivaldi en þurftum að hætta því. Allt í einu var þetta orðið þannig að ef við vildum t.d. fara inn á Google-síður með Vivaldi virkuðu þær ekki. Okkur var ekki hleypt inn. Við brugðum á það ráð að breyta einum bókstaf og þá var okkur hleypt inn án vandræða. Þannig að risarnir þekkja okkur.“

Núna þykist Vivaldi vera Chrome í veffyrirspurnum, enda er kerfið byggt á þeim grunni. Því lenda notendur ekki lengur í vandræðum með að skoða vefsíður í vafranum. „Vandinn er samt sá að það er erfitt að mæla notkun á Vivaldi rétt vegna þessa. Auðvitað væri betra að segjast vera það sem við erum, en það skiptir meira máli að fólk komist á vefsíðurnar sem það vill skoða.“

En hvað verður um tæknirisana ef þeir hætta að safna gögnum og hagnýta þau? Fara þeir á hausinn?

„Netið virkaði fínt áður en byrjað var að safna gögnum á þann hátt sem gert er í dag. Nú eru allar auglýsingar seldar sjálfvirkt og enginn hefur neina stjórn á innihaldi þeirra. Áður gastu selt auglýsingu í tækniblað af því að þú vissir að allir nördarnir læsu það. Þú gast tryggt að það fylgdu engin skrýtin skilaboð með. Þessi sjálfvirka auglýsingasala hefur eyðilagt markaðinn. Ákveðin fyrirtæki hafa þénað mikinn pening á þessu en ég er viss um að þau myndu lifa af ef gagnasöfnun yrði hætt, þau myndu bara hafa öðruvísi auglýsingar, kannski minna hrollvekjandi.“

Notendur óánægðir

Jón segir að notendur séu ekki ánægðir með þessa þróun auglýsinga á netinu. Þess vegna noti margir auglýsingahindranir (e. adblock) eins og þær sem Vivaldi býður upp á. „Ef auglýsingar ganga of langt hafna notendurnir þeim. Þess vegna held ég að það væri góð lausn að banna þessa hluti, en það þýðir ekki að við viljum banna auglýsingar.“

En hver er framtíð netvafrans, er hann nauðsynlegur til framtíðar?

„Allt sem þú sérð á netinu er aðgengilegt í gegnum vafra og meira að segja smáforritin, öppin, nota vafra undirliggjandi. Ég sé ekki annað en að netið haldi áfram að virka á sama hátt og það gerir í dag og það er líka best að það geri það.“

Gervigreind og rafmyntir hafa verið mikið í tísku?

„Ég er rosalegt tækninörd en það er sum tækni sem ég er ekki hrifinn af, eins og rafmyntir. Þær eru bara pýramídasvindl. Fólk verður að opna augun fyrir því. Þetta er bara rugl. Þetta er fjárfesting en ekki mynt sem hægt er að nota í viðskiptum. Það var haft samband við mig tiltölulega snemma í rafmyntaæðinu og mér boðin þátttaka. Ég las mér til og hugsaði: Þetta er pýramídasvindl en ef ég verð með núna get ég orðið ríkur á þessu. En ég vildi ekki verða ríkur á pýramídasvindli. Ég vil ekki efnast á að svíkja fólk og pretta.“

Hvað gervigreindina varðar segir Jón að Vivaldi hafi spurt notendur sína hvort þeir vilji gervigreindina, og þeir hafi sagt nei. „Það er hægt að nota gervigreind í flotta hluti, til dæmis til að fara í gegnum rannsóknir og finna mynstur sem getur verið notadrjúgt. Þannig að það eru verðmæti í tækninni. Einnig er hún öflugt þýðingartól. En á móti kemur að við erum að fá miklu betri svindlpósta, á góðri íslensku, og fullt af rusli á Facebook sem fólk sér daglega, og er búið til með gervigreind. Við ákváðum að byggja enga gervigreind inn í okkar vafra. Þú getur auðvitað notað gervigreindarforrit eins og ChatGPT í honum, en við erum ekki að sjá að notendur hafi áhuga á þessu. Gervigreind er í dag eins og blockchain og rafmyntir voru fyrir nokkrum árum, aðaltískuorðið. Og fjárfestar elta það. Ég var á sprotaráðstefnu í Noregi um daginn og þar voru allir að gera eitthvað með gervigreind. Ég skil vel að hægt sé að gera eitthvað skemmtilegt með henni, en það þurfa ekki allir að fara í það. Einhvern tímann þótti asbest frábært byggingarefni,“ segir Jón að lokum og brosir.

Viltu láta mynda skjáinn hjá þér?

„Microsoft bjó til forritið Recall sem er hluti af gervigreindarlausn fyrirtækisins, Copilot Plus. Recall tekur mynd af skjánum þínum á fimm mínútna fresti. Það urðu mikil læti út af þessu og Microsoft þurfti að slökkva á búnaðinum, en mér skilst að þetta sé samt sem áður á leiðinni inn. Vill fólk að mynd sé tekin af skjá þess á fimm sekúndna fresti og myndunum safnað upp sem hluta af prófíl notanda? Þarna er verið að ýta tækni að fólki sem er ekki að hjálpa því. Stundum getur svona lagað sparað tíma, t.d. þegar tölvan skrifar fyrir þig tölvupósta, en hver er kostnaðurinn við það? Vill einhver að risafyrirtæki sé að fylgjast með öllu sem þú gerir í tölvunni og búi til gagnagrunn um þig? Hvað ef einhver fær aðgang að þessum upplýsingum? Þarna er of langt gengið.“

Hann segir að Google gangi einnig of langt í eftirlitinu. „Þeir bjóða þér t.d. notkun á Google Maps til að finna bestu leiðina milli staða en í staðinn leyfirðu þeim að vita á tveggja mínútna fresti hvar þú ert staddur í veröldinni.“

Jón segir að fólk treysti Vivaldi fyrir gögnum sínum. „Við forðumst að fá aðgang að gögnum hjá Vivaldi að mestu leyti.“