Fréttaskýring
Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík segir sér ekki kunnugt um hvernig byggingarleyfi Fiskislóðar 31 var afgreitt og að óheimilt sé samkvæmt skipulagsreglugerð að byggja á þekktum flóðasvæðum við ár, vötn og sjó. Þetta kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins en hann var spurður hvers vegna heimilað hefði verið að byggja glervegg við sjóvarnargarð. Tilefnið er stórtjón á mannvirkjum og sérstaklega húsinu númer 31 við Fiskislóð. Í fréttum Morgunblaðsins í gær kom fram að húseigendur og Faxaflóahafnir hefðu ekki komið sér saman um varnargarð við húsið. Höfnin vildi hækka varnargarðinn en það vildu húseigendur ekki þar sem það skyggði á útsýni og hafa lagt til aðra leið.
Vísa hvor á annan
Í svari byggingarfulltrúans kemur jafnframt fram að áhættuna við að staðsetja mannvirki innan flóðahættusvæða eigi að meta við gerð skipulags og telur hann að á viðkomandi svæði hafi legið fyrir hættumat í skipulagsgerðinni og vísar á skipulagsfulltrúa Faxaflóahafna.
Gunnar Tryggvason hafnarstjóri bendir á að byggingarnefndarteikningar séu samþykktar af byggingarfulltrúanum í Reykjavík. „Faxaflóahafnir hafi ekki skipulagsvald heldur leggja fram skipulagstillögur sem sveitarfélögin afgreiða.“
Hann segir augljóst að þetta byggingarform sé mjög óheppilegt á þessum stað.
„Þetta er eina húsið sem er byggt með þessum hætti í þessari línu. Önnur hús eru byggð sem iðnaðarhúsnæði og þola vel sjógang. Garðurinn við Lýsi er nákvæmlega eins og garðurinn sem stóð til að gera við Fiskislóð 31 og sú stækkun virðist hafa hjálpað verulega til í veðrinu sem var um helgina.“
Húsfélagið lét vinna skýrslu
Í september 2020 var ráðist í viðgerðir á varnargörðum og þeir hækkaðir. Töluverður sjógangur var við Fiskislóð 9. mars 2022 og gekk sjór á land við húsið austanvert og bar með sér laust grjót. Einnig urðu töluverðar skemmdir árið 2003 þegar sjór gekk á land við Ánanaust og olli miklum skemmdum.
Viðræður hafa átt sér stað milli húsfélagsins að Fiskislóð 31 og Faxaflóahafna um varnargarðinn fyrir framan húsið. Húsfélagið lét vinna skýrslu um tillögur í málinu. Skýrsluna unnu verkfræðingarnir Friðrik Hansen Guðmundsson og Sigurður Áss Grétarsson.
Tilgangur skýrslunnar er að kynna Faxaflóahöfnum aðra lausn sem leiðir til þess að útsýni til sjávar hverfi ekki. Í skýrslunni kemur fram að hægt sé að finna jafn góða ef ekki betri lausn með því að byggja annan varnargarð nær sjó og brjóta þannig ölduna utar en gerist í dag.
Guðjón Ómar Davíðsson, stjórnarformaður Truenorth sem er með höfuðstöðvar í húsinu, segir að Faxaflóahafnir hafi aldrei svarað þessum tillögum.
„Þau komu aldrei í heimsókn, og buðu aldrei upp á fund til að ræða þetta mál þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Nú les ég það á forsíðu Morgunblaðsins að húsfélagið hafi hafnað hærri varnargarði.“
Hann segir að tilgangur þeirrar vinnu sem húsfélagið lét gera hafi verið að leita annarra lausna en að hækka núverandi grjótgarð.
„Þótt garðurinn verði hækkaður er alls ekki víst að hann taki verstu flóðöldurnar. Eins gæti hár garður orðið óstöðugur og hættulegur fólki á göngustígnum þegar verstu brotin ganga yfir. Þessi lausn með að setja annan garð framan við núverandi garð tryggir betur Fiskislóð 31 og fólk á göngustígnum,“ segir Guðjón Ómar.