Kristján Jónsson
Vinnufélagi hér á blaðinu, Orri Páll Ormarsson, hefur haldið því fram í þessum dagskrárlið að ekki sé til æsilegra sjónvarpsefni en veðurfréttir á Íslandi. Hefur hann skrifað ófáa ljósvakapistlana um íslenska veðurfræðinga sem spreyta sig á því að koma veðurofsanum til skila í gegnum veðurkort í sjónvarpi. Hefur Orri gjarnan farið mikinn á lyklaborðinu þegar hann skrifar um þennan eftirlætisdagskrárlið sinn í sjónvarpi. Þegar tilþrifin voru sem mest í skrifunum gaf tónlistarmaðurinn Róbert heitinn Hjálmtýsson honum viðurnefnið „Maradona lyklaborðsins“. Blessuð sé minning Róberts.
Orri hefur reyndar ekki haft síður gaman af því þegar veðurfræðingarnir eru dregnir út undir bert loft þegar fréttastofum sjónvarpsstöðvanna þykir nauðsynlegt að sýna landsmönnum að veðrið sé slæmt. Mér varð því hugsað til Orra í lok janúar þegar Vésteinn Örn Pétursson og Haraldur Ólafsson stóðu hundblautir á Stöð 2 fyrir utan hlýja byggingu í appelsínugulri viðvörun.
Okkar reyndasti maður á blaðinu hrósaði Haraldi fyrir að halda húfunni á höfðinu meðan hann veitti viðtalið. „Ein og hálf lægð á dag,“ sagði Haraldur og mælti með bóklestri innandyra.