WOW Vöxtur flugfélagsins var ævintýralegur og á tímabili stefndi í að umsvif þess yrðu meiri en Icelandair.
WOW Vöxtur flugfélagsins var ævintýralegur og á tímabili stefndi í að umsvif þess yrðu meiri en Icelandair. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugfélagið WOW air var orðið ógjaldfært í síðasta lagi í nóvember 2018. Þetta staðfesta gögn innan úr félaginu sem Morgunblaðið hefur fengið aðgang að. Þar má meðal annars sjá Stefán Eystein Sigurðsson fjármálastjóra fyrirtækisins útskýra fyrir Páli Rúnari M

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Flugfélagið WOW air var orðið ógjaldfært í síðasta lagi í nóvember 2018. Þetta staðfesta gögn innan úr félaginu sem Morgunblaðið hefur fengið aðgang að. Þar má meðal annars sjá Stefán Eystein Sigurðsson fjármálastjóra fyrirtækisins útskýra fyrir Páli Rúnari M. Kristjánssyni lögmanni félagsins, Sveini Inga Steinþórssyni flugrekstrarstjóra þess og Ragnhildi Geirsdóttur að félagið eigi sér ekki viðreisnar von. Það er í pósti sem hann sendi á hópinn 5. nóvember 2018.

Þar segir Stefán: „Staða félagsins í dag er sú að gjaldfallnar skuldir þess eru $28m. Á sama tíma mun félagið um næstu mánaðamót þurfa að greiða laun starfsmanna félagsins að upphæð $7,5m og til viðbótar þá munu $64m gjaldfalla í mánuðinum. Núverandi laust fé félagsins er $1m og áætlað innflæði mánaðarins er $56m, því liggur fyrir að laust fé dugar ekki til að standa við þessar skuldbindingar. Við blasir því ekkert annað en þrot félagsins verði ekkert að gert.“

Á fallanda fæti

Póstinn sendi fjármálastjórinn vegna bréfs sem þá var í smíðum innan fyrirtækisins og stílað var á Samkeppniseftirlitið (SKE). Þar færðu stjórnendur fyrirtækisins veigamikil rök fyrir því að fyrirtækið væri á fallandi fæti (e. failing firm) en það var talin forsenda fyrir því að SKE myndi samþykkja samruna WOW air við Icelandair. Bréfið var sent í kjölfar þess að samningar tókust um kaup Icelandair á öllu hlutafé WOW air af fjárfestingafélaginu Títan, sem var í eigu Skúla Mogensen, stofnanda og eiganda flugfélagsins. Samkvæmt samningnum átti hann að fá 3,7% hlut í Icelandair fyrir vikið, en viðskiptin voru undirrituð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Þótt áhrínsorð fjármálastjórans hafi verið látin falla í byrjun nóvember 2018 voru aðrir sem sannfærst höfðu um það allnokkru fyrr að fyrirtækið væri á fallanda fæti. Það gerðist raunar tveimur mánuðum fyrr þegar Bogi Nils Bogason sendi tölvupóst á Úlfar Steindórsson stjórnarformann flugfélagsins þess efnis að stjórnendur WOW air þyrftu „að horfast í augu við það“ að fyrirtækið væri í raun á fallanda fæti, ætti að skáka í því skjóli við mögulega yfirtöku Icelandair á því.

Skrifin urðu í kjölfar þess að stjórnendur WOW air tóku að kanna flöt á samruna fyrirtækjanna tveggja. Var það dagana 3.-5. september og var vinnan unnin undir gunnfána eldfuglsins Fönix (e. „project Phoenix“).

Slitu viðræðum fljótt

Ekki tókst að leiða stjórnendum WOW air þessa stöðu fyrir sjónir og var samrunaviðræðunum slitið þann 12. september. Sérstaka athygli vekur að meðan á þessu öllu stóð vann WOW air að því að loka skuldabréfaútboði sem loksins tókst þann 18. september. Þá var tilkynnt að fyrirtækið hefði aflað sér 50 milljóna evra. Var það allnokkru lægri fjárhæð en stefnt hafði verið að og síðar var upplýst að aðeins hluti fjármagnsins sem safnaðist í útboðinu var nýtt fjármagn. Að hluta til var þar um skuldbreytingu að ræða og í enn öðrum tilvikum höfðu lánardrottnar tekið þátt með fyrirvara um að fjármununum sem frá þeim stöfuðu yrði undir eins ráðstafað til endurgreiðslu skulda við þá sjálfa.

Öll var þessi atburðarás fyrir luktum dyrum þótt fjárfestar og almenningur hafi fylgst andaktugir með framvindu útboðsins, uns úrslit þess voru tilkynnt.

Hins vegar urðu önnur tíðindi til þess að valda miklum titringi kringum WOW air þessa sömu daga. Þannig birti Morgunblaðið á forsíðu sinni frétt, laugardaginn 15. september, þar sem upplýst var að WOW skuldaði Isavia, opinberu hlutafélagi sem heldur utan um rekstur Keflavíkurflugvallar, tvo milljarða króna í lendingargjöld og að skuldunautur og lánveitandi hefðu að „undanförnu unnið að útfærslu afborgana“ eins og það var orðað.

Brugðust stjórnendur WOW air ókvæða við fréttaflutningnum og sögðu hann rógburð. Síðar var fréttin staðfest í gögnum sem flutu upp á yfirborðið. Hins vegar var forstjóri Icelandair ekki seinn að bregðast við og sagðist afar undrandi á því, og raunar óboðlegt, að opinbert hlutafélag væri með lánveitingum að niðurgreiða taprekstur einkafyrirtækis í samkeppnisrekstri.

Ekki leitt í jörð

Þótt hálfur áratugur sé nú liðinn frá falli WOW air á enn eftir að hnýta marga lausa enda varðandi gjaldþrotaskipti þess. Enn standa yfir málaferli sem flest lúta að ábyrgð stjórnenda þess, tryggingum sem þeir höfðu í gildi vegna mögulegs tjóns sem þeir gætu valdið og eins riftunarmál sem að lokum munu skera úr um hversu miklum fjármunum verður úr að spila þegar gerðar verða upp kröfur sem lýst hefur verið í búið.

Fyrir Landsrétti er eitt slíkt mál er varðar greiðslu WOW air til fyrirtækisins Eurocontrol að fjárhæð 540.028 evrur. Hún var innt af hendi 27. mars 2018, degi fyrir þrotið, þegar öllum innan WOW var orðið ljóst að vegferðin var í raun á enda runnin. Krafan snýr þó ekki aðeins að þrotabúinu sjálfu heldur og forstjóra og stjórnarmönnum félagsins þegar gjörningaveðrið gekk yfir.

Á næstu dögum verður á síðum Morgunblaðsins fjallað um eftirleik falls WOW air og minnisverð tíðindi tengd því rifjuð upp.

Höf.: Stefán E. Stefánsson