Viðtal
María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
Loftlínur, landmælingar og hversdagslegur misskilningur einkenna tvær sýningar sem standa nú yfir í Kling & Bang í Marshall-húsinu úti á Granda. Um er að ræða annars vegar sýningu Sólbjartar Veru Ómarsdóttur Misskilningur í skipulagsmálum og hins vegar sýningu Hrafnkels Tuma Georgssonar Loftlína. Sýningarnar eru afar ólíkar en beina samt sjónum að hinu mannlega, hvor með sínum hætti.
Hrafnkell sýnir meðal annars margrása vídeóverk og skúlptúr þar sem unnið er með hugmyndir út frá landmælingum og kortagerð. „Bæði verkin varpa ljósi á þessa abstrakt línu sem dregin er í gegnum kort eða landslag. Þetta er í raun mjög mennsk hugmynd og algjörlega á skjön við það hvernig maður upplifir sjálfur heiminn með líkamanum. Ég hef mikið verið að hugsa um hvernig maður upplifir landslag og finnur auk þess fyrir nærveru einhvers sem er langt í burtu,“ segir Hrafnkell Tumi.
Blys á fjallstindum
„Vídeóverkið var tekið upp síðasta haust og sýnir þegar fimm hópar fóru á fjóra mismunandi fjallstinda og einn hópur niður að sjó. Hóparnir sendu svo blysmerki sín á milli og mynduðu keðju frá sjó og upp að Þjórsárveri. Þetta voru einu samskiptin á milli hópanna. Við sólsetur kveikti fyrsti hópurinn á blysi við Landeyjasand, næsti hópur á Þríhyrningi og þannig koll af kolli og sköpuðu þannig þessa ímynduðu línu eða ljósaskúlptúr sem fór yfir hálft landið. Stysta fjarlægðin var um 30 km en sú lengsta 60 km. Verkið sýnir allar þessar upptökur á sama tíma og ber saman landslagið þegar þessi pínulitlu blys kvikna. Þá fanga upptökurnar einnig myndir af hópnum, samskipti þeirra, vináttu og gleði. Hvernig þau tengdu við aðra sem voru að upplifa það sama en á allt öðrum stað.“
22 sjálfboðaliðar tóku þátt í verkefninu en Hrafnkell Tumi segir að fólk hafi strax sýnt því mikinn áhuga. „Ég heyrði í vinum mínum og þetta fór að spyrjast út en allir voru mjög spenntir að fara í fjallgöngu. Þetta krafðist hins vegar mikillar skriffinnsku þar sem þetta flokkaðist sem flugeldasýning og ég þurfti að sækja um leyfi í þremur sveitarstjórnum með tilheyrandi tölvupóstsamskiptum fram og til baka. Loks var þetta auglýst til þess að fá aðsendar myndir frá fólki sem sá þetta úr fjarska.
Spegill á Esjunni
Með skúlptúrnum er verið að takast á við svipaðar hugleiðingar þar sem ég var að skoða ýmsar landmælingar, landmælingatæki, rannsaka fjöll og hvar hægt væri að mynda sjónlínu. Ég byggði mína útfærslu á spegli sem ég kom fyrir vestast á Esjunni og undir réttum verðurskilyrðum, þegar það er nógu sterk sól, þá er hægt að sjá hann með sjónauka út um gluggann í Kling og Bang. Þannig fæ ég þessa línu inn í rýmið og fólk getur horft lengra og umfram það sem það venjulega gerir,“ segir Hrafnkell Tumi en eðlilega þarfnast skúlptúrinn mikils viðhalds. „Það þarf að kíkja reglulega á spegilinn, passa að hann sé á sínum stað og skafa af honum snjó. Viðhaldið er hluti af verkinu en í sýningarsalnum hangir skráningarblað sem sýnir hvenær hann var síðast skoðaður og svo er ætlunin að vera með skoðunarferðir þar sem fólk getur komið með og fylgst með viðhaldinu.“
Skopleg smáatriði
Sólbjört Vera nálgast listina úr allt annarri átt. Hjá henni er hversdagsleikinn áberandi og húmorinn aldrei langt undan. Verk Sólbjartar Veru eru yfirleitt mjög skúlptúrísk og fígúratív á sama tíma.
„Það er algengt að ég taki fyrir þemu sem maður finnur í lífi fólks, sem eru dregin úr skoplegum smáatriðum og flestir tengja við í sínu hversdagslega lífi, eins og til dæmis að standa í flutningum, skipulagsbrasi eða eiga í erfiðum samskiptum. Hugmyndin að þessari sýningu fæðist þegar ég er í fæðingarorlofi og er mikið heima við að vinna að myndlistinni á eldhúsborðinu með lítið ungbarn. Svo flytjum við með lítinn sex mánaða dreng og á sama tíma er vinnustaðurinn minn einnig að flytja. Ég lendi því í vissri skipulagsóreiðu bæði í persónulega lífinu sem og í vinnu og ég bara leyfi henni að taka yfir í sköpununinni. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir á hvað þetta tímabil veitti mér mikinn innblástur,“ segir Sólbjört Vera en á sýningunni má sjá flutningskassa, taupoka og ljóðrænar úrvinnslur inn á milli. „Allt snýst þetta um leiðréttingu á einhverjum misskilningi.“
Viðkvæm og óskýr lína
Það ríkir ákveðinn léttleiki og húmor yfir verkum Sólbjartar Veru.
„Ég finn í minni sköpun að ef ég er komin í dramatíkina og erfiðleikana eða er að túlka streitu og áföll þá verð ég að fara út í það fyndna á móti og það er ekki eitthvað sem ég stjórna beint. Ég lít mikið upp til myndlistarmanna sem eru að gera það sama, sem eru að taka út úr lífinu þung og erfið augnablik en hlaða ofan á það húmor. Þarna liggur alltaf einhver viðkvæm og óskýr lína því ef maður hleður of miklu djóki á eitthvað þá hættir það að skila af sér. Þetta er einhver kokteill sem ég er að reyna að blanda rétt. Sýningin er niðurstaða úrvinnslu þessara persónulegu atburða en er á sama tíma líka viðbrögð við ástandinu í heiminum,“ segir Sólbjört Vera en sýning hennar og Hrafnkels Tuma stendur til 30. mars.