Guðrún Andrésdóttir fæddist á Drangsnesi við Steingrímsfjörð 29. júní 1939. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala í Reykjavík 20. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Andrés Guðbjörn Magnússon, f. 8.9. 1906, d. 12.12. 1979, og Guðmundína Arndís Guðmundsdóttir, f. 20.9. 1911, d. 28.9. 1978. Systkini Guðrúnar eru: Anna Guðmunda, f. 18.12. 1928, d. 18.1. 1935, Stefanía Guðrún, f. 12.2. 1930, d 19.6. 2021, Magnús, f. 13.9. 1931, Friðrik, f. 9.3. 1934, d. 17.2. 2005, Anna Guðmunda, f. 28.2. 1935, Marel, f. 13.1. 1937, d. 10.4. 2018, Haraldur Vignir, f. 9.8. 1940, d. 30.3. 1961, Herdís Ólína, f. 22.10. 1941, Ingólfur, f. 21.5. 1944, Efemía Guðbjörg, f. 28.8. 1945, Hulda, f. 4.1. 1947, d. 23.5. 1957, Bjarni, f. 8.12. 1949, Ríkey, f. 16.5. 1951, og Hrefna, f. 2.6. 1952.
Eiginmaður Guðrúnar er Jóhannes Vilbergsson, f. 9. febrúar 1937. Þau giftu sig 17. október 1959. Foreldrar Jóhannesar voru Valgerður Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 12.10. 1913, d. 28.4. 2004, og Vilberg Guðmundsson, f. 23.3. 1911, d. 2.7. 1987. Börn Jóhannesar og Guðrúnar eru þrjú: 1) Hulda Arndís, f. 29.12. 1959, maki Gísli Stefánsson, f. 10.1. 1952. Dætur þeirra eru tvær; Guðrún, f. 14.5. 1980, maki Dennis Eriksson, f. 29.9. 1982, Elísabet, f. 13.6. 1984. 2) Ingibjörg, f. 29.8. 1961, maki Hörður Sigurðsson, f. 6.6. 1958. Börn þeirra eru þrjú; Jóhannes, f. 29.1. 1984, Haraldur, f. 27.6. 1989, maki Dagbjört Bríet Bjarklind Lárusdóttir, f. 21.12. 1993, dóttir þeirra er Auður Ísabella, f. 1.6. 2022, Guðný Halla, f. 26.7. 1995, í sambúð með Aroni Gauta Lárussyni, f. 17.4. 1992. 3) Vilberg, f. 30.10. 1969, maki Anna María Pálsdóttir f. 13.1. 1968. Börn þeirra eru þrjú; Valgerður Margrét, f. 20.6. 1999, Andrés, f. 23.3. 2002, Rannveig Edda, f. 2.3. 2008.
Guðrún ólst upp á Drangsnesi og gekk þar í barnaskóla, hún fór í Húsmæðraskólann á Varmalandi 1957-1958. Hún var heimavinnandi meðan börnin voru ung. Guðrún var mjög handlagin, saumaði og prjónaði á börn og barnabörn, hún saumaði mikið út og eftir hana liggja mörg listaverk. Guðrún gekk í mörg störf á yngri árum, meðal annars við fiskvinnslu í Sandgerði og í síld á Raufarhöfn. Hún vann við umönnun aldraðra og lengst af í Sunnuhlíð í Kópavogi.
Guðrún og Jóhannes byrjuðu sinn búskap 1959, fyrst í Sörlaskjóli 22, fluttu svo í Ljósheima 18. Árið 1973 fluttu þau i Kópavoginn og byggðu í Stórahjalla 39. 2008 fluttu þau í Lund 1, þar sem þau hafa búið síðan. Þau eiga ásamt fjölskyldunni jörðina Foss í Skefilsstaðahreppi í Skagafirði þar sem þau eyddu mörgum stundum með vinum og vandamönnum. Þau ferðuðust mikið bæði innanlands og utan.
Útför Guðrúnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 5. mars 2025, klukkan 13.
Elsku Gunna mín, bláber og rjómi var einn af okkar uppáhaldsréttum og var reyndar það fyrsta sem við borðuðum saman þegar ég hitti þig og Jóa í fyrsta sinn. Þið voruð nýkomin af Skaga og buðuð upp á bláber og rjóma. Þú elskaðir að fara í berjamó, bæði fyrir berin og fyrir andlega hvíld. Þú varst sannarlega heilbrigð sál í hraustum líkama, stundaðir jóga, sundleikfimi og útivist. Þið Jói voruð mikið fyrir göngur og hreyfingu og stundum fórum við með ykkur í göngur á staði sem við vissum ekkert um og myndum annars ekki hafa farið á. Þér var margt til lista lagt, handlagin og flink prjóna- og hannyrðakona. Við fjölskyldan eigum margar flottar peysurnar eftir þig, sem eiga eftir að halda minningu þinni og kærleika við líf. Þið systurnar voruð jú líka duglegar að hittast og skapa ýmis listaverk, sérstaklega fyrir jólin. Við skörtum mörgum fallegum gripum eftir þig hver jól. Það er líka hefð hjá okkur að baka kleinur og parta eftir uppskriftum frá þér og þínum systrum, og því munum við að sjálfsögðu halda áfram og hugsum hlýtt til þín elskuleg. Hjartans þakkir fyrir allan þinn kærleika, gleði, hugulsemi og vináttu í gegnum árin. Allar góðar minningar munu lifa áfram. Ég elska þig.
Þín tengdadóttir,
Anna María.
Elsku amma Gunna, við erum svo þakklát fyrir að hafa alist upp með þér, með umhyggju þína, ást og frábæru pönnukökurnar þínar. Við munum alltaf minnast og bera með okkur stundirnar sem við áttum saman, eins og þegar við bökuðum kleinur eða þegar við spiluðum ólsen-ólsen! Við munum alltaf muna eftir húmornum þínum, styrk og áminningu um að njóta lífsins. Þakka þér fyrir alla ástina, viskuna og stuðninginn sem þú gafst okkur í gegnum árin og ótrúlegu handgerðu gjafirnar þínar. Nú getur þú hvílt í friði, elsku amma. Við vitum að þú verður alltaf hjá okkur í hjörtum okkar og hugsunum. Himinninn hefur tekið á móti sínum fallegasta engli.
Valgerður Margrét, Andrés og Rannveig Edda.
Amma okkar, Guðrún Andrésdóttir, skilur eftir sig mikið af góðum minningum hjá okkur systkinunum. Hún var alltaf svo góð við okkur barnabörnin sín, kallaði okkur prinsana og prinsessurnar sínar. Amma var mikill náttúruunnandi og fór með okkur í óteljandi göngutúra – upp á Fossborg og önnur fjöll, í Heiðmörk og í raun út um allt. Það var einnig árlegur viðburður að fara saman á Þingvelli og ganga þar um. Ekki voru það bara göngutúrarnir, heldur kenndi hún okkur nöfnin á öllum blómum sem urðu á vegi okkar. Einnig fékk hún okkur með sér að gróðursetja tré í Guðrúnarlundi á Skaganum, stað sem henni var afar kær og hún leit alltaf við í þegar hún kom á Skagann.
Amma var líka frábær kokkur, allt sem hún eldaði var gott – henni tókst meira að segja að fá Halla til að borða hjörtu og nýru, sem er afrek sem ekki hefur tekist aftur fyrr eða síðar. Amma var mikill dýravinur, var áhugasöm um okkar gæludýr og hafði gaman af því að vera í kringum þau.
Amma elskaði að ferðast og fór með alla stórfjölskylduna til útlanda þegar hún átti stórafmæli. Við eigum ógleymanlegar minningar frá Portúgal, Ítalíu og Króatíu með henni. En eitt fallegasta ferðalag hennar var kannski það að fá langömmubarn. Hún hafði beðið lengi eftir að verða langamma og fékk svo loksins Auði Ísabellu, sem hún elskaði innilega.
Við eigum svo margar dýrmætar minningar með ömmu. Hún var dugleg að spila við okkur þegar við vorum saman á Skaganum, helst minnisstætt hvað hún var alltaf góð í yatzee – við héldum að það væri ekki hægt að vera góður í teningaspilum, en henni tókst það samt, og við munum enn þegar hún kallaði „yatzee!“ Einnig er litli leikurinn minnisstæður, þar sem við áttum að giska á fjölda bíla sem voru á Esjunni þegar við keyrðum fram hjá á leiðinni á Skagann. Ef við giskuðum rétt fengum við fimmtíukall – þetta voru litlir hlutir sem urðu að stórum minningum.
Amma var líka dugleg að hlúa að sköpunargleði okkar, sérstaklega minnisstætt þegar Guðný og amma fóru upp á Fossborg og fundu þar steina sem litu út eins og tröllastelpa. Seinna fóru þær upp með málningu og máluðu steinana í öllum regnbogans litum.
Þegar við hringdum í ömmu og spurðum hvernig hún hefði það, þá sagði hún alltaf „allt meinhægt“. Og ef hún var fyrir norðan, þá var alltaf sól og blíða, sama hvernig veðrið var.
Síðustu ár ævi sinnar barðist amma við krabbamein, en hún lét það samt aldrei draga úr sér kraftinn. Rétt rúmri viku áður en hún kvaddi kom hún í heimsókn til að skoða nýju íbúðina sem Guðný var að flytja inn í, og áttum við þar saman yndislega stund – eina af þessum stundum sem við munum alltaf þakka fyrir að hafa átt.
Elsku amma, við söknum þín. Við munum alltaf geyma þig í hjörtunum okkar og við munum passa vel upp á afa.
Jóhannes (Jói),
Haraldur (Halli) og Guðný.
Elsku amma Gunna.
Orð fá ekki lýst hversu mikilvæg þú varst mér og hversu sérstakt samband okkar var. Frá því að ég man eftir mér hefur þú verið uppáhaldsmanneskjan mín. Ég var mjög sérstakt barn og mér fannst mun skemmtilegra að vera með þér og ræða málin en að leika við önnur börn. Heimili ykkar afa var mitt annað heimili og ég bað reglulega um að fá að gista hjá þér án nokkurrar ástæðu (en ég gat annars ekki gist annars staðar en heima hjá mér). Ég var alltaf örugg hjá þér og afa. Þú kenndir mér svo margt og ég á svo margar góðar og dýrmætar minningar af okkur saman, að ræða málin í Stórahjallanum, sögurnar sem þú sagðir mér frá barnæsku þinni á Drangsnesi, ferðir norður á Skaga með ykkur afa og hinar ýmsu fjallgöngur. Ég man þegar þú borgaðir mér fyrir að smakka hákarl og þegar mamma skammaði þig fyrir að gefa mér allt of mikið í skóinn þegar ég gisti hjá þér. Elísabet velti því mikið fyrir sér hvers vegna jólasveinninn væri svona örlátur í Kópavogi. Ég man líka hvað það var erfitt fyrir þig þegar mér leið ekki vel, en ég vissi að þú varst alltaf til staðar fyrir mig.
Það hefur verið erfitt að búa svona langt í burtu frá þér síðustu ár. Það skipti mig svo miklu máli að gifta mig á afmælisdaginn þinn, jafnvel þótt það þýddi að ég gifti mig á fimmtudegi. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að þú hafir komið alla leið til Linköping til að fagna deginum með okkur. Ég fékk alla til að syngja afmælissönginn fyrir þig í veislunni. Þú áttir smá erfitt með það, enda varst þú aldrei mikið fyrir að vera miðpunktur athyglinnar.
Um daginn var ég að tala við mömmu þegar hún var hjá þér á spítalanum. Ég bað hana að skila því til þín hvað ég elska þig mikið og í gegnum símann heyrði ég þig segja „jaaá, það veit ég vel“. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að þú hafir vitað hversu mikilvæg þú varst mér. Elsku amma, ég verð alltaf drottningin þín, eins og þú kallaði mig alltaf. Það er svo erfitt að kveðja þig en ég er óendanlega þakklát fyrir allar minningarnar.
Þín
Guðrún.
Það er komin kveðjustund. Guðrún Andrésdóttir systir okkar lést 20. febrúar, með þakklæti og góðum minningum kveðjum við frábæra systur.
Gunna systir var ákveðin í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, hún lá ekki á skoðunum sínum og sagði þær umbúðalaust. Síðustu mánuðir voru henni erfiðir en aldrei kvartaði hún. Þegar hringt var í hana og spurt um líðan var svarið einfalt: „Ég hef það fínt.“ Að kvarta var ekki til í hennar orðabók þótt hún gerði sér fulla grein fyrir því sem fram undan væri. Við systkinin frá Háafelli á Drangsnesi þökkum innilega samfylgdina.
Við sendum Jóhannesi og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd systkinanna,
Bjarni Andrésson.