Illviðráðanlegur FH-ingurinn Jóhannes Berg Andrason sækir að Haukamönnum í gær en Haukar réðu ekkert við Jóhannes Berg í leiknum.
Illviðráðanlegur FH-ingurinn Jóhannes Berg Andrason sækir að Haukamönnum í gær en Haukar réðu ekkert við Jóhannes Berg í leiknum. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar FH eru með tveggja stiga forskot á toppi úrvalsdeildar karla í handbolta eftir sigur gegn nágrönnum sínum í Haukum í 19. umferð deildarinnar á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær. Leiknum lauk með þriggja marka sigri FH, 28:25, en Haukar…

Handboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar FH eru með tveggja stiga forskot á toppi úrvalsdeildar karla í handbolta eftir sigur gegn nágrönnum sínum í Haukum í 19. umferð deildarinnar á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær.

Leiknum lauk með þriggja marka sigri FH, 28:25, en Haukar voru með frumkvæðið allt þangað til tæplega níu mínútur voru til leiksloka.

FH er í efsta sæti deildarinnar með 29 stig en þetta var þriðji sigurleikur liðsins í röð. Haukar, sem hafa aðeins unnið tvo af síðustu fimm leikjum sínum, eru komnir niður í fimmta sætið og eru með 22 stig.

Haukar leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 16:12, en FH komst yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar tæpar sex mínútur voru til leiksloka.

Jóhannes Berg Andrason fór á kostum í liði FH og skoraði tólf mörk en Aron Rafn Eðvarsson var besti maður Hauka, varði 12 skot og var með 38 prósent markvörslu.

Mikilvægur sigur ÍR

Baldur Fritz Bjarnason var markahæstur hjá ÍR þegar liðið vann afar þýðingarmikinn sigur í fallbaráttunni gegn HK í Skógarseli í Breiðholti. Leiknum lauk með þriggja marka sigri ÍR, 32:29, en Baldur skoraði tólf mörk í leiknum.

Þetta var fyrsti sigur ÍR-inga í deildinni síðan 28. nóvember en liðið er með 10 stig í ellefta sæti deildarinnar og ennþá í harðri fallbaráttu. HK hefði með sigri getað jafnað Stjörnuna að stigum í sjöunda sætinu en liðið er áfram í áttunda sætinu með 16 stig.

ÍR leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 14:11, en HK tókst að snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik og komast marki yfir. ÍR-ingar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum.

Ólafur Rafn Gíslason átti stórleik í marki ÍR, varði 20 skot og var með 41 prósent markvörslu en Hjörtur Ingi Halldórsson var markahæstur hjá HK með sex mörk.

Óvænt á Seltjarnarnesi

Fjölnir vann sinn fjórða leik í deildinni á tímabilinu þegar liðið heimsótti Gróttu á Seltjarnarnes en leiknum lauk með fjögurra marka sigri Fjölnis, 35:31.

Fjölnir er áfram í tólfta og neðsta sæti deildarinnar með átta stig, tveimur stigum frá öruggu sæti, en þetta var fyrsti sigur liðsins síðan 24. október þegar liðið lagði Gróttu í Grafarvogi. Grótta, sem var í toppbaráttu eftir fyrstu umferðirnar, hefur tapað sex leikjum í röð og er án sigurs í síðustu fjórtán leikjum sínum en liðið er með 10 stig í tíunda sætinu og í harði baráttu um að halda sæti sínu í deildinni.

Björgvin Páll Rúnarsson var markahæstur hjá Fjölni með átta mörk en Jón Ómar Gíslason var markahæstur hjá Gróttu með sjö mörk.

Jöfnuðu undir lokin

Ott Varik reyndist hetja KA þegar liðið tók á móti ÍBV í KA heimilinu á Akureyri en hann tryggði KA dýrmætt stig með marki á lokasekúndum leiksins sem lauk með janftefli, 31:31.

KA er í níunda sætinu með 13 stig, þremur stigum frá sæti í úrslitakeppninni og hefur aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum. Þetta var annað jafntefli Eyjamanna í röð en liðið er með 20 stig í sjötta sætinu.

Dagur Árni Heimisson var markahæstur hjá KA með tíu mörk en Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Eyjamenn.

Höf.: Bjarni Helgason