Knattspyrnudómarinn Michael Oliver dæmir ekki í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina. Oliver dæmdi leik Crystal Palace og Millwall í enska bikarnum á laugardaginn var og missti af stóru atviki þegar Liam Roberts í marki Millwall tæklaði Jean-Philippe Mateta, sóknarmann Crystal Palace, í andlitið. Oliver ætlaði ekki að dæma neitt á atvikið og var Roberts ekki rekinn af velli fyrr en VAR-dómararnir sögðu Oliver að skoða atvikið betur.
Knattspyrnukonan Berglind Þrastardóttir gekk í gær í raðir Hauka frá FH og gerði tveggja ára samning. Hún er uppalin hjá Haukum. Berglind skipti yfir í Hauka frá FH árið 2022 og fór með FH úr 1. deild og upp í Bestu deildina. Hún lék 18 leiki með FH í Bestu deildinni árin 2023 og 2024 en er nú aftur komin heim í Hauka.
Vont tímabil Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta varð töluvert verra í gær þegar í ljós kom að Kyrie Irving, skærasta stjarna liðsins, sleit krossband í hné í leik gegn Sacramento Kings á mánudagsnótt. Verður Irving frá keppni næstu tíu mánuðina eða svo, aðeins nokkrum vikum eftir að félagið losaði sig við aðra stórstjörnu í Luka Doncic.
Framherjinn Darwin Núnez vildi yfirgefa enska knattspyrnufélagið Liverpool í janúar og ganga í raðir Al Nassr í Sádi-Arabíu. Þetta herma heimildir Football Insider. Al Nassr bauð Liverpool 70 milljónir punda í Núnez en enska félagið hafnaði boðinu, þrátt fyrir að Núnez hafi sjálfur viljað fara.
Dejan Kulusevski, sóknarmaður Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, missir af næstu tveikur leikjum liðsins gegn AZ Alkmaar í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á morgun og gegn Bournemouth í úrvalsdeildinni á sunnudag vegna meiðsla á fæti.