Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. — Morgunblaðið/Hallur Már
Staða ferðaþjónustunnar var til umræðu í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna. Gestur þáttarins var Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Í þættinum var rætt um ganginn í atvinnugreininni, skattspor greinarinnar, stöðu…

Staða ferðaþjónustunnar var til umræðu í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna. Gestur þáttarins var Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Í þættinum var rætt um ganginn í atvinnugreininni, skattspor greinarinnar, stöðu flugfélaganna og áhrif hennar á ferðaþjónustuna ásamt fleiru.

Spurður hvort hann telji mikilvægt að hér á landi séu starfrækt tvö íslensk flugfélög segir Jóhannes að það sé vissulega mikilvægt að íslensk flugfélög fljúgi hingað, til og frá landinu.

„Hvort þau séu eitt, tvö eða þrjú er ekki stóra málið. Við búum við það núna að vera með tvö flugfélög sem eru í samkeppni og ég tel að það sé bara jákvætt, bæði fyrir okkur sem neytendur hér á landi og ekki síður fyrir samkeppni á markaðnum um flug til Íslands,“ segir Jóhannes og bætir við að það geri það að verkum að fleiri flugfélög horfi til Íslands sem áfangastaðar en ekki eingöngu til þess að komast inn í keðjuna yfir Atlantshafið.

„Við höfum á undanförnum árum séð að íslensku flugfélögin hafa forgangsraðað að koma með farþega hingað til lands eða þessa túristafarþega. Íslensk ferðaþjónusta væri ekki á þeim stað sem hún er í dag ef við værum ekki búin að vera með íslenskt flugfélag hér á landi í áratugi,“ segir Jóhannes og bætir við að hver sé fjöldi íslenskra flugfélaga sé eitthvað sem rekstrarlegar forsendur verði að ráða.

Spurður hvernig hann meti stöðu flugfélaganna segir Jóhannes að staða flugfélaga í heiminum sé almennt erfið.

„Staða flugfélaga í heiminum er náttúrulega almennt svona frekar erfið samkeppnislega. Þetta er gríðarlega harður samkeppnisheimur. Og það verður að segjast að við hefðum gjarnan viljað sjá afkomu beggja flugfélaganna íslensku ná sér betur á strik. Við höfum hins vegar fulla trú á að þau muni gera það,“ segir Jóhannes.

Arðsemi greinarinnar lítil

Spurður út í arðsemi ferðaþjónustu segir Jóhannes að hún sé enn lítil en hafi þó verið að aukast.

„Við viljum sjá hana batna. Það er kannski líka bara vegna þess að þetta er ung grein og þetta er þjónustugrein sem þarf mikið af fólki. Þannig að launakostnaður er mjög hár. Miðað við sumar aðrar greinar er erfitt að fara í sjálfvirknivæðingu,“ segir Jóhannes.