Kristófer Oliversson
Samkvæmt fréttum mun matvælaráðherra ásamt samgönguráðherra og fjármálaráðherra setjast niður og fara yfir óskir frá erlendum eigendum gisti- og veitingaskipa að þrepaskipta innleiðingu innviðagjalds á hvern farþega þessara skipa eins og nýsamþykkt lög frá Alþingi kveða á um. Fyrirtæki í hótel- og gistihúsarekstri á Íslandi óska eftir því að í þeirri sömu yfirferð skoði ráðherrar að þrepaskipta gistináttaskatti sem settur var á innlenda gistiþjónustu í einu lagi eftir erfiðleikaár vegna Covid-19, en fyrirtækin eru enn að greiða leigu, afborgarnir af brúarlánum og uppsafnaða skatta og fasteignagjöld sem vegna neyðarástands var frestað. Þá minnum við á að gistináttaskattur á gistingu á landi var hækkaður um síðustu áramót á sama tíma og stjórnvöld ákváðu að fresta enn eitt árið að innheimta eðlilega tolla á aðföng gistiskipa sem sigla á milli innlendra hafna. Við sem veitum gisti- og veitingaþjónustu á landi óskum eftir því að njóta jafnræðis á við erlenda keppinauta sem liggja við hafnarkantinn og minnum á að skatttekjur ríkisins af hverju herbergi á meðalstóru hóteli í Reykjavík námu um 2.150 milljónum króna í fyrra, á meðan hver káeta skilaði um 150 þúsund krónum í gistináttaskatt yfir sumarið og er þá miðað við skip sem gert er út samfellt í fimm mánuði.
Höfundur er formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.