Auður fæddist í sumarhúsi foreldra sinna við Álftavatn í Árnessýslu 28. júlí 1942. Hún lést 23. febrúar 2025. Foreldrar hennar voru Einar Ragnar Jónsson, „Ragnar í Smára“, f. 1904, d. 1984 og Björg Ellingsen, f. 1916, d. 1997.

Systkini Auðar eru Erna Ragnarsdóttir, f. 2. apríl 1941 og Jón Óttar Ragnarsson, f. 10. ágúst 1945, hálfsystur samfeðra voru Edda Ragnarsdóttir, 17. mars 1931, d. 2. mars 2007 og Valva Ragnarsdóttir, 30. júní 1935, d. 19. júní 2024.

Þann 25. september 1965 giftist Auður sínum heittelskaða Davíð Helgasyni, f. 27. janúar 1941, d. 4.12. 2004. Foreldrar hans voru Ragna Ingimundardóttir, f. 1910, d. 1988 og Helgi Kristjánsson, f. 1903, d. 1985.

Þau hjónin eignuðust saman tvær dætur: 1) Dagný Davíðsdóttir, f. 31. desember 1966, sonur hennar er Davíð Kári Kárason, f. 17. júlí 1990, unnusta hans er Lovísa Sigurðardóttir, f. 1 mars 2001. Dagný giftist Karli Emilssyni, f. 19. mars 1968. Dóttir hans er Gunnþórunn Sara Karlsdóttir, f. 25. desember 1999, unnusti hennar er Friðfinnur Sigurðsson, f. 31. janúar 1999. 2) Edda Ragna Davíðsdóttir, f. 26. janúar 1970. Giftist Kristjáni Magnússyni, f. 28.5. 1971, þau skildu. Börn þeirra eru Auður Dís Kristjánsdóttir, f. 16. desember 2005 og Kristján Þór Kristjánsson, f. 8. maí 2008, kærasta hans er Róslinda Sverrisdóttir, f. 22. mars 2008. Áður átti Davíð dóttur, Kristínu Hrund Davíðsdóttur, f. 31. mars 1963.

Auður fór í MR eftir grunnskóla, þaðan á hún enn góðan vinahóp sem enn hittist við hvert tækifæri. Eftir MR fór Auður í nám og varð meinatæknir, hún vann við það mestalla ævina, bæði á Landspítalanum og sem yfirmeinatæknir á heilsugæslu Mosfellssveitar á Reykjalundi í fjölmörg ár og einnig vann hún við það bæði í Odense og Toronto.

Árið 1965 fluttu þau til Odense. Dagný fæddist þar 1966 og eignuðust þau dýrmæta vini þar, sem alltaf héldu hópinn. Eftir Odense kom litla fjölskyldan heim í smátíma en hélt svo til Toronto í Kanada í þrjú ár og þá bættist Edda í fjölskylduna. Þegar þau komu heim til Ísland byggðu þau sér heimili að Fellsási 5, Mosfellsbæ, þar sem að fjölskyldan bjó í um 25 ár.

Þá fluttu þau til Los Angeles þar sem Auður fór í CSU og lærði næringarfræði. Hjónin voru í LA til ársins 2002 en þá byggðu þau sér heimili á Egilsstöðum þar til Davíð lést. Eftir að Davíð lést kom Auður aftur til Reykjavíkur og hóf störf á rannsóknastofu LSH. Auður vann á Landspítalanum til 70 ára aldurs.

Auður var alltaf Mosfellingur, mjög virk í samfélaginu þar og félagsstörfum m.a. hjá Leikfélagi Mosfellssveitar þar sem hún saumaði óteljandi búninga. Hún var í Sjálfstæðisflokki Mosfellsbæjar og gegndi nefndarstörfum þar svo að eitthvað sé nefnt. Hún var alltaf virk við hlið Davíðs í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Rótarý svo að eitthvað sé nefnt.

Auður flutti á Hrafnistu 2022 og bjó þar til síðasta dags.

Útför Auðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 5. mars 2025, klukkan 13.

Elsku mamma. Góða ferð vinkona og takk fyrir þig.

Elsku góða mamma

og barna minna amma.

Ég þakka af öllu hjarta þér

fyr’ allt það góða er gafstu mér.

Þau gullnu gildi ávallt geymi,

í hjarta mér, ég aldrei gleymi.

Elsku fagra mamma,

þú yndislega amma.

Ég veit að nú guðs englateymi

leiði þig í ljóssins heimi.

Í hjarta geym’ eg ásýnd þína

og kærleikann í eilífðina.

Elsku hjartans mamma

og heimsins besta amma.

Ég veganesti allt það ber

sem gafst þú þínum börnum hér.

Þú vildir okkur allt svo vel.

Í drottins faðm ég þig nú fel.

(Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir)

Edda Ragna Davíðsdóttir.

Elsku kæra amma Auður okkar er farin upp til afa Davíðs, þar sem við erum viss um að þér líður best. Þú ert fyrirmyndin okkar til æviloka þar sem þú varst ábyggilega ein indælasta, snjallasta og besta kona sem við höfum fengið að kynnast og erum við óendanlega þakklát og stolt að geta kallað þig ömmu okkar. Þú varst alltaf til staðar þegar við þurftum mest á ömmu okkar að halda og gerðir allt sem þú gast til að hjálpa öðrum. Gott dæmi um það er að amma elskaði að prjóna og prjónaði peysur og allskonar fyrir öll börn sem fæddust í kringum okkur, enda eru fáir í kringum okkur sem eiga ekki einhvern fatnað prjónaðan af elsku ömmu okkar.

Amma Auður lét sko ekkert stoppa sig, konan fór með okkur og vini okkar í Húsdýragarðinn, sund, á bókasafnið, í bíó eða bara hvað sem við vildum gera og ávallt með stafinn sinn í hendi. Ég Auður er mjög stolt af að vera nefnd eftir þessari merkilegu og æðislegu konu sem ég mun alltaf líta upp til.

Takk elsku besta amma Auður okkar fyrir öll árin og æðislegu stundirnar okkar með þér, núna geturðu legið í sólbaði með afa.

Elskum þig alltaf.

Þín

Auður Dís og Kristján Þór.

Auður vinkona okkar úr saumaklúbbnum er horfin á önnur svið þar sem hún mun örugglega njóta sín vel og hlúa að fólki eins og henni var umhugað um allla tíð. Auður passaði upp á heilsuna og vildi að við gerðum slíkt hið sama allar sem ein. Við höfum verið vinkonur frá því við hófum nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Á þeim árum fórum við stelpurnar í margar ógleymanlegar ferðir í sumarbústað foreldra hennar við Álftavatn, fengum við að vera þar í upplestrarfríum fyrir próf og um leið að binda vinabönd sem entust ævilangt. Auður gerði víðreist á þessum árum, faðir hennar Ragnar í Smára var með sambönd við heimsfræga listamenn og einn af þeim var Rudolf Serkin píanóleikari sem búsettur var í Kanada. Auði var boðið að koma í heimsókn til þeirra hjóna og dvaldi hún þar eitt sumarið, þegar við vorum í MR. Hún minntist oft á það seinna meir og hafði notið þess sérstaklega vel.

Á menntaskólaárunum myndast vinahópar sem sumir ná að haldast eins og okkar, þrátt fyrir að sumar hafi dvalið langtímum erlendis þá hefur þráðurinn aldrei slitnað. Auður fór í meinatæknanám í HÍ það hentaði henni vel. Hún giftist Davíð og þau eignuðust tvær fallegar stúlkur. Fullkomin hamingja. Auður meinatæknir var mjög meðvituð um heilsu og mataræði og lét okkur vinkonurnar vita ef við vorum að fara út af sporinu í þeim málum, rétt er rétt og ekki að ræða annað við Auði sérfræðinginn. Enda reyndum við það ekkert. Allt lék í höndum hennar, handavinna var hennar sérgrein líka í seinni tíð. Þau Davíð voru mjög samhent og áttu góða ævi saman, fallegt heimili í Mosfellssveit sem gaman var að heimsækja og nutum við oft gestrisni þeirra hjóna þar í sveitinni.

Auður hefur átt við veikindi að stríða upp á síðkastið og hefur ekki notið sín sem áður. Hún hefur notið góðrar umönnunar á Hrafnistu og líkaði það vel.

Við kveðjum góða vinkonu og sendum samúðarkveðjur til dætra og allra aðstandenda.

Guðríður, Kristín, Margrét, Kristín, Ragna Lára,
Sigríður Ragna, Vigdís.