Friedrich Merz
Friedrich Merz
Systurflokkar Kristilegra demókrata í Þýskalandi (CDU/CSU), sem nýverið unnu kosningar til þings þar í landi, segjast vilja setja á fót herskyldu á ný. Óvissa í öryggis- og varnarmálum Evrópu vegna skoðana Bandaríkjaforseta kalli á öflugar varnir

Systurflokkar Kristilegra demókrata í Þýskalandi (CDU/CSU), sem nýverið unnu kosningar til þings þar í landi, segjast vilja setja á fót herskyldu á ný. Óvissa í öryggis- og varnarmálum Evrópu vegna skoðana Bandaríkjaforseta kalli á öflugar varnir. Ekki sé lengur hægt að treysta á hervernd frá Bandaríkjunum.

„Við getum ekki leyft okkur að standa aðgerðalaus á hliðarlínunni á meðan umheimurinn breytist,“ segir Florian Hahn varnarmálafulltrúi CDU/CSU.

Friedrich Merz, kanslaraefni Kristilegra demókrata, segir mikilvægt að fjölga mjög í röðum þýska hersins Bundeswehr. „Ég vil ekki nefna neinar tölur að svo stöddu, en við ráðum ekki við ástandið með núverandi fjölda. Við þurfum einnig fleiri í varalið.“

„Hvað sem það kostar“

Kristilegu flokkarnir ræða nú stjórnarmyndun við jafnaðarmenn í SPD, og tilkynnti Merz í dag að flokkarnir tveir myndu leggja fram tillögur á sambandsþinginu í næstu viku um að gera varnarmál undanþegin hinni svonefndu „skuldabremsu“ sem kveðið er á um í stjórnarskrá Þýskalands, ef framlög til þeirra ná umfram 1% af vergri landsframleiðslu.

Sagði Merz að nú þyrfti að gera „hvað sem það kostar“ til þess að tryggja varnir Þýskalands og friðinn í Evrópu. Þá ætla flokkarnir tveir að leggja fram frumvarp um að þremur milljörðum evra verði varið í tafarlausan hernaðarstuðning við Úkraínu, en til þess að það nái fram að ganga þurfa Græningjar einnig að styðja frumvarpið.