Rímurnar lifa enn góðu lífi með þjóðinni. Komnar eru út Samtímarímur þar sem Sigurlín Hermannsdóttir, Sigrún Ásta Haraldsdóttir, Gunnar J. Straumland og Helgi Zimsen spreyta sig á rímnagaldrinum. Forsetakosningar 2024 eru yrkisefni Sigurlínar og…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Rímurnar lifa enn góðu lífi með þjóðinni. Komnar eru út Samtímarímur þar sem Sigurlín Hermannsdóttir, Sigrún Ásta Haraldsdóttir, Gunnar J. Straumland og Helgi Zimsen spreyta sig á rímnagaldrinum. Forsetakosningar 2024 eru yrkisefni Sigurlínar og gefur hún tóninn í fyrstu rímu sem endar svona:

Drottningar- og konungskrúna

kom við sögu, fræð og lán.

Ég ætla að horfa á Netflix núna,

nýja þáttaröð af Crown.

Saga kosningabaráttunnar er rakin allt þar til úrslit urðu ljós:

Er leið á nóttu línur fóru að skýrast.

Fram úr hinum Halla tók

á harðaspretti forskot jók.

Á Bessastöðum breytinga' er að vænta

Viðskiptaráðsvalkyrjan

verður næsta bústýran.

Margir kannast eflaust við sig í rímu Sigrúnar um umferðina í Reykjavík:

Umferð hér er ósköp hæg,

áfram varla silast,

tilneydd með ég þokast þæg,

þó úr leiða' að bilast.

Stýri fast ég held í hönd

hugsa um raðir strangar,

suður undir sjónarrönd

sé þær teygjast langar.

Gervigreind er yrkisefni Helga Zimsen. Eins og jafnan hefst ríman á mansöng:

Ein er mærin undurfríð

ýmsum kær við netið.

„Lækin“ fær svo brjóstgóð, blíð,

bráðum slær hún metið.

Yndisfríð er oft við skjá,

ekki miklu skýlt er.

Samt í raun er guggin, grá

glassúruð með „fílter“.

Hún svo þrýsting þekkist á

þokka kropps í toppi.

Þakka fegurð þessa má

þéttu „fótó-sjoppi“.

Að síðustu vísa úr Rímnaflóttanum mikla eftir Gunnar J. Straumland:

Þjóðin unga þekkir mál

þæft í klungri tíða.

Ljóð um slungna laxasál

ljóst skal sungið víða.