Tragikómísk sjálfsævisaga Unnur Elísabet segir lögin sem hún samdi fyrir sýninguna hafa flætt auðveldlega til sín.
Tragikómísk sjálfsævisaga Unnur Elísabet segir lögin sem hún samdi fyrir sýninguna hafa flætt auðveldlega til sín. — Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson
„Ég hef verið að díla við ansi margt í gegnum tíðina, bæði alls konar furðulegar fóbíur, kvilla, kvíða, ofnæmisköst og bara nefndu það, ég hef lent í mjög undarlegum hlutum,“ segir Unnur Elísabet Gunnarsdóttir, leikkona, tónlistarkona og höfundur…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Ég hef verið að díla við ansi margt í gegnum tíðina, bæði alls konar furðulegar fóbíur, kvilla, kvíða, ofnæmisköst og bara nefndu það, ég hef lent í mjög undarlegum hlutum,“ segir Unnur Elísabet Gunnarsdóttir, leikkona, tónlistarkona og höfundur verksins Skíthrædd sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúskjallaranum á laugardaginn, þann 8. mars, klukkan 19.30.

„Það var því kominn tími til að segja frá þessu því ég hef verið í mikilli sjálfsvinnu og finnst ég vera tilbúin til að deila þessu öllu óhrædd. Svo varð ég fertug um daginn og hugsaði með mér að nú yrði ég að gera söngleik,“ segir hún og hlær en í þessu tragikómíska sjálfsævisögulega verki fer hún yfir það sem hefur hamlað henni í lífinu hingað til og gerir það meðal annars með leik, dansi og söng.

Algjör tilfinningarússíbani

Innt eftir því hvort erfitt sé að berskjalda sig með jafn persónulegu verki segir Unnur Elísabet svo vera.

„Þetta er klárlega mikil opinberun og erfitt. Ég hef alveg velt því fyrir mér hvort ég geti sagt hitt og þetta en ég reyni að fara inn í þetta óhrædd og þora að segja hluti því maður vonar alltaf að listsköpun manns geti hjálpað einhverjum. Svo að ef það væri ekki nema bara ein manneskja í salnum sem fengi innblástur og færi í kjölfarið að vinna í sínum málum þá væri það sigur. En jú, það er krefjandi að skrifa svona um sjálfan sig og setja það á svið,“ segir hún og bætir því við að hún stækki að sjálfsögðu allt um nokkur númer á sviðinu og ýki örlítið.

„En það er sjúklega fyndið að fara í gegnum þetta og maður fer í algjöran tilfinningarússíbana.“

Lagasmíðin leikur einn

Sjálf semur Unnur Elísabet alla tónlistina í sýningunni og segir hún þá vinnu hafa gengið stórkostlega vel.

„Lögin svoleiðis flæddu til mín. Þetta er algjört tónleika-sjóv. Ég held að tónsmíðin hafi gengið vel af því að efniviðurinn er svo tengdur mér sjálfri og minni reynslu. Textinn bara flæddi út úr mér og laglínurnar birtust. Það er mjög erfitt að útskýra þetta en ég hafði áður gefið út tvö lög fyrir þetta og svo allt í einu var ég farin að semja fullt af tónlist.“

Með Unni Elísabetu á sviðinu er tveggja manna band skipað þeim Önnulísu Hermannsdóttur og Einari Lövdahl Gunnlaugssyni en hljómsveitarstjóri er Halldór Eldjárn. „Þau eru náttúrulega algjörir snillingar og eru alveg með mér í þessu. Þeirra hlutverk á sviðinu stækka með hverjum deginum og þó svo að ég sé með mestan textann þá er alveg æðislegt að hafa þau mér til halds og trausts. Halldór sá svo um útsetningar á lögunum með mér sem var alveg frábært,“ segir hún til útskýringar.

Algjört ofurlið

Um leikstjórn verksins sér leikkonan Katrín Halldóra Sigurðar­dóttir og segir Unnur Elísabet æfingar hafa gengið mjög vel.

„Ég gæti ekki verið heppnari með teymi. Ég er með Katrínu Halldóru sem leikstjóra og Vigdísi Hafliðadóttur sem aðstoðarleikstjóra og svo er engin önnur en Gógó Starr sem sér um sýningarstjórn þannig að ég er með algjört ofurlið með mér,“ segir hún og tekur fram í kjölfarið að eins og staðan sé núna séu fimm sýningar í sölu. „Fólk þarf því að drífa sig ef það ætlar að sjá þetta.“

Spurð að lokum hvort hún sé ávallt með mörg járn í eldinum segir hún verktakabransann flókinn.

„Þetta hefur samt gengið ótrúlega vel undanfarin ár og það hafa alltaf komið verkefni inn á borð til mín, sem er mjög lukkulegt. Akkúrat núna er ég í þessu eina verkefni og veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er mjög kvíðavaldandi,“ segir hún kímin.

„Ég ætla því að klára þessa sýningu og svo veit ég ekki neitt. Ég þarf bara að læra að treysta. Það koma alltaf verkefni og maður þarf bara að vona það besta. Ég kem einmitt inn á þetta í sýningunni sjálfri.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir