Pétur Hafsteinn Pálsson
Grindvíkingar hafa síðustu áratugi verið stoltir af framlagi sínu til þjóðarbúsins og að sama skapi þakklátir öllum sem staðið hafa með þeim í átökum síðustu missera. Þeim finnst nú kominn tími til að hefja endurgreiðslu á stuðningnum og lykillinn að því er að opna fyrir búsetu þeirra sem það kjósa.
Í Grindavík ættu að vera um 1.000 nothæf hús og íbúðir af þeim 1.200 sem búið var í þann örlagaríka dag 10. nóvember 2023. Takist að reka fasteignafélagið Þórkötlu til baka með bann við gistingu í þeim eignum sem þeir halda tímabundið á fyrir Grindvíkinga munu sparast hundruð milljóna og ef það verður til að auka endurkaup fólks á „eigin“ eignum til lengri tíma er verið að tala um milljarða.
Þessar fullyrðingar byggjast á samantekt á orkukostnaði húsa, tryggingum, fasteignagjöldum, fyrirbyggjandi viðhaldi, eftirliti með húseignum og brunabótamati eignanna. Sem dæmi að ef fylgt er plani sem eykur endurkaup um 10% þýðir það 100 fasteignir sem metnar eru á átta milljarða. Samhliða eykst framboð á húsnæði annars staðar án útgjalda. Fyrir hvern þann sem ekki getur keypt í Grindavík en getur leigt þar losnar ríkið við leigustyrk til þess fólks. Við þetta fjölgar leiguíbúðum á markaði án frekari fjárfestinga. Þjóðhagslegur sparnaður af afnámi greinar 2.9 í hollvinasamningi Grindvíkinga við Þórkötlu er því auðséður. Hér erum við ekki farin að tala um þá auknu verðmætasköpun í Grindavík sem þessari ákvörðun mun fylgja.
En hvaða plani þarf að fylgja til að þetta raungerist? Hér er mín sýn og tillaga.
Næstu vikur verði notaðar til að yfirfara lög og reglur sem gilda um fasteignafélagið Þórkötlu, ábyrgð þess og tilgang. Komi eitthvað í ljós sem kemur í veg fyrir að hægt sé að afnema bannið við gistingu þarf löggjafinn að bregðast við því.
Næsta sumar fái Grindvíkingar sér að kostnaðarlausu að vera í „sínum“ húsum, slá garðana, sinna léttu viðhaldi og fara yfir og laga þær skemmdir sem hugsanlega eru orðnar á húsum þeirra. Það er stór hópur sem ekki hefur ráð á tvöföldum orkukostnaði og þyrfti að máta sig fyrst við nýjar aðstæður áður en öðru húsnæði er sleppt.
Fyrir haustið þyrfti fólk að gera upp sig hvort það vildi gera hollvinasamning við Þórkötlu. Á þessum tímapunkti ætti að vera farið að skýrast hvernig fólki liði í bænum.
Að ári liðnu myndi Þórkatla geta krafist eðlilegrar leigu fyrir fasteignina enda ljóst orðið að fólk er tilbúið að sleppa öðrum valkostum fyrir búsetu í Grindavík. Sá leigusamningur gilti þar til fólki yrði boðið að kaupa til baka „sína“ eign.
Hvað þarf löggjafinn að gera til að fá þennan sparnað til ríkisins? Í raun ekkert annað en að skapa Þórkötlu það lagalega svigrúm sem þarf, sé það ekki fyrir hendi nú þegar, og treysta Grindvíkingum fyrr sjálfum sér og Grindavík. Mér er til efs að innan þeirra þúsunda sparnaðartillagna sem bíða á borði ríkisstjórnarinnar séu margir betri kostir í boði.
Grindavík er ógnað með tvennum hætti: Að hraun renni yfir bæinn og að fólk komi ekki til baka. Hetjur hraunsins hafa gefið okkur sterka von um að það takist að forðast hið fyrra og íbúarnir þurfa breytingar til að geta barist fyrir hinu síðara.
Höfundur er framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík.