Úlfar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 2. janúar 1964. Hann lést á heimili sínu 11. febrúar 2025.
Foreldrar hans eru Sigurður Bjarnason skipstjóri, f. 26. júlí 1944, d. 21. júní 1983, og Urður Ólafsdóttir, f. 19. október 1945. Systkini hans eru Guðmundur skipstjóri, f. 18. júní 1966, Ólafur framkvæmdastjóri, f. 13. febrúar 1970, og Sigríður Lovísa hjúkrunarfræðingur, f. 7. maí 1973.
Börn Úlfars eru Helga Sigríður, f. 7. febrúar 1982, móðir hennar er Brynja Helgadóttir, Jakob, f. 20. júní 1991, móðir hans var Mona Eskilson, Víkingur, f. 18. október 2001, og Sindri, f. 3. ágúst 2003, móðir þeirra er Kristín Anna Guðjónsdóttir.
Úlfar ólst upp á Tálknafirði, Bíldudal og Ísafirði. Eftir grunnskóla fékk hann brennandi áhuga á matreiðslu og vinnslu matvæla, hóf nám við þau fræði og réð sig sem kokk á skip auk þess að taka verknám á veitingahúsum. Úlfar útskrifaðist sem matreiðslumaður frá Hótel- og veitingaskólanum í Kópavogi árið 1994 og vann í kjölfarið á fjölmörgum veitingahúsum bæði hér á landi og erlendis. Eftir að hafa unnið í Glæsibæ um tíma hleypti hann heimdraganum og vann á Odd Monsen og Ellingsen í Noregi, Coq d’Or í Svíþjóð og The Casbah í Ástralíu. Þegar hann kom til Íslands aftur vann hann um tíma á Hótel Borg og Horninu veitingastað. Úlfar ákvað að taka sér frí frá vaktavinnu til að sinna uppeldi sona sinna og vann um tíma hjá Gullfiski en lengst af sem bílstjóri hjá GA smíðajárni. Árið 2022 veiktist Úlfar alvarlega en náði bót sinna meina á Landspítalanum ári síðar. Þrátt fyrir góða eftirfylgni og umönnun náði hann sér ekki að fullu og lést þann 11. febrúar af völdum sjúkdómsins.
Útför Úlfars fer fram frá Digraneskirkju í dag, 5. mars 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku Úlfar minn. Það fylgir því mikill sársauki að missa barnið sitt og enn erfiðara er að koma kveðjuorðum til þín niður á blað. Ég þakka fyrir þau 61 ár sem ég hef fengið að eiga þig, kraftmikli góði sonur. Ég er þakklát fyrir samveruna síðustu tvö ár þar sem þú stjanaðir við mig í orðsins fyllstu merkingu. Síðastliðin fimmtán ár höfum við varið saman sumarfríunum okkar ásamt strákunum þínum sem hefur verið einstaklega gefandi. Nú dreg ég fram allar okkar góðu minningar og læt þær ylja mér þar til við sjáumst í sumarlandinu.
Á kveðjustund er margs að minnast
og margt að þakka, allt sem var,
en orðin eru fá sem finnast
þó fylli hjartað minningar.
Ég man þína bernsku, brosin hlýju,
þá bjarmi sólar lék um hár,
ungur drengur í örmum mínum,
æskumann með von og þrár.
Reyndir öllum gott að gera,
góðvild ríkti í þinni sál,
bakhjarl þinna vina vera,
vanda leysa og bæta mál.
Trútt var hjarta og trygg var hönd,
traust og sterk þín vinabönd.
Frá jarðvist til eilífðar örstutt
er skref,
vor alvaldur harmana sefi.
Í bænirnar mynd þína og
minningu vef,
miskunnsemd drottinn þér gefi.
Þú ljósið sem hjá okkur lýsti um stund
uns leiddu þig örlög á skaparans fund.
(Sigurunn Konráðsdóttir)
Þín mamma,
Urður.
Það var sárt að fá þær fréttir að Úlli bróðir væri fallinn frá. Yfir mig helltust ljúfar æskuminningar um kærleiksríkan og góðan bróður, uppátækjasaman og líflegan. Vinahópar okkar bræðranna sköruðust og saman deildum við minningum sem voru rifjaðar upp með reglulegu millibili. Eftir eina af mörgum ferðum okkar til sólarlanda tók hann til dæmis upp á því að smíða fljótandi stökkpall á Pollinum á Ísafirði, hann langaði nefnilega að geta stokkið á sjóðskíðunum. Þetta er gott dæmi um hugmyndaauðgina og framkvæmdaorkuna sem Úlfar bjó yfir. Hann þurfti líka alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni.
Úlfar var mikill kokkur og eldhúsið hans heimavöllur. Maturinn lék í höndunum á honum og þegar hann hafði eldað ofan í alla áhöfnina vatt hann sér í frágang og eldhúsið var orðið tandurhreint áður en síðasti maður kláraði af disknum. Enda snyrtipinni fram í fingurgóma. Kokkur sem unni sér ekki hvíldar fyrir en allir voru saddir, fullur af orku og lífsglaður, ræðinn með eindæmum. Ég þurfti ekki uppskriftir þegar ég lenti í vandræðum í eldhúsinu, ég hringdi bara og hann hafði ráð undir rifi hverju.
Í yfir tuttugu ár höfum við systkinin ásamt mökum eldað saman villibráð á sérstöku villibráðarkvöldi. Þar hefur Úlfar blómstrað í gegnum tíðina og oftar en ekki staðið uppi sem vinningshafi og þar með Villidýr kvöldsins. Úlfar var einstaklega blíður og góður við alla. Hann laðaði að sér börn og dýr og börnin mín nutu jafnan góðs af hans nærveru. Ég kveð góðan bróður, fullur af sorg, og bið guð að geyma hann.
Guðmundur.
Elsku Úlfar, það er sárt að eiga þig ekki lengur að. Ég var ekki hár í loftinu þegar þú startaðir mér upp efri lyftuna á Ísafirði. Ég lyftist og hringsnerist á hverjum staur og þú kallaðir á eftir mér: Ekki sleppa! Þegar upp var komið stóðum við efst í fjallinu með ekkert nema fegurð Ísafjarðar fyrir sjónum. „Ertu nokkuð hræddur?“ spurðir þú með vinalegum prakkarasvipnum, tólf ára snáði með mig sex ára í eftirdragi í snarbröttum hlíðum Seljalandsdals. Ég var ekki hræddur þegar ég var með þér. Ég kútveltist niður stóra gilið með þér um stökkpalla og snjóhengjur og alltaf togaðir þú mig aftur á lappir, festir á mig skíðin og hvattir mig áfram. Þú varst hvatvís, hvergi hræddur og áræðinn í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Blátt áfram, glaðlyndur og umhyggjusamur, dásamlegur stóri bróðir. Skjól mitt og skjöldur á fyrstu árum ævi minnar.
Þær voru nokkrar brekkurnar sem þú þurftir að taka í lífinu og alltaf komstu standandi niður. Alltaf fann ég þig fyrir með útbreiddan faðminn, með sama glottið og prakkarasvipinn sem líður mér aldrei úr minni. Tilbúinn í rökræðu um allt á milli himins og jarðar, fastur á þínu með svör við öllum lífsins gátum. Síðustu brekkurnar sem við klifum saman voru svo sannarlega brattar og erfiðar en mikið var ég stoltur að sjá þig koma standandi niður og leggja af stað í næstu brekku. Og þótt þú hafir ekki klárað hana þá lifir minningin um góðmennskuna og hjálpsemina sem þú sýndir mér og mínum alla tíð og henni mun ég ekki sleppa frekar en lyftustönginni forðum daga. Hjálpsemina mun ég endurgjalda afkomendum þínum og frændfólki mínu í sömu mynt. Minning þín mun lifa með mér á meðan ég lifi og henni mun ég halda á lofti fyrir allt það góða sem þú afrekaðir á þinni ævi.
Þinn bróðir,
Ólafur.
Elsku yndislegi Úlfar stóri bróðir minn. Mikið hvað er sárt að kveðja þig og missa þig úr systkinahópnum. Þú varst elstur af okkur og níu árum eldri en ég og minningar mínar frá uppvaxtarárunum á Ísafirði á Urðarveginum og Sundstrætinu eru að mestu fengnar frá sögum af okkur en fleiri rifjast upp eftir að við flytjum inn í Holtahverfi í Brautarholtið. Margar dásamlegar og góðar minningar frá þeim tíma. Þú varst alltaf tilbúinn til að aðstoða og hjálpa og alltaf sagðir þú já þegar beðinn um eitthvað. Duglegur og handlaginn, fannst aldrei leiðinlegt að hamast með okkur. Og það sást sérstaklega þegar stórar framkvæmdir í sumarhúsinu okkar á Ísafirði stóðu yfir, þá hlífðir þú þér aldrei.
Eftir að við systkinin fórum að hrúga niður börnum fórum við meira að hittast og samverustundunum fjölgaði. Sumarbústaðaferðir, afmæli, útskriftir, skírnir, brúðkaup, frændsystkinahittingar og svo auðvitað villibráðarhittingarnir hjá okkur Villidýrunum. Þegar þú mættir fannst þér alltaf svo gaman að hitta frændsystkini þín og allt unga fólkið. Þú varst einstaklega barngóður og veittir þeim alltaf mikla athygli. Einnig varstu mikill dýravinur og hjálpaðir þú okkur mikið með hann Sprota okkar, fékkst hann stundum til þín í pössun, mikil ánægja skein úr andlitinu á þér í kringum börn og dýr.
Á síðustu þremur árum eftir erfið veikindi varð breyting í lífi þínu og erfitt að hugsa til baka og hafa ekki gert betur í að aðstoða þig í þeirri þrautagöngu sem þú gekkst í gegnum. Og lífið er alls ekki alltaf dans á rósum. En mamma stóð eins og klettur með þér og hún á eftir að sakna þín mikið elsku bróðir.
En það er komið að kveðjustund. Ég veit að pabbi tekur á móti þér og hugsar um þig núna. Takk fyrir allt elsku stóri bróðir.
Elsku mamma, Helga Sigríður, Jacob, Víkingur og Sindri, guð veri með ykkur og styrki á þessum erfiðu tímum.
Sigríður Lovísa Sigurðardóttir.