Svíþjóð Birgir Steinn Jónsson skrifaði undir þriggja ára samning við Svíþjóðarmeistara Sävehof og gengur til liðs við félagið í sumar.
Svíþjóð Birgir Steinn Jónsson skrifaði undir þriggja ára samning við Svíþjóðarmeistara Sävehof og gengur til liðs við félagið í sumar. — Ljósmynd/IK Sävehof
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Birgir Steinn Jónsson, leikstjórnandi Aftureldingar í handknattleik, var í gær tilkynntur sem nýr leikmaður ríkjandi Svíþjóðarmeistara Sävehof. Skrifaði hann undir þriggja ára samning sem tekur gildi í sumar að yfirstandandi tímabili loknu

Svíþjóð

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Birgir Steinn Jónsson, leikstjórnandi Aftureldingar í handknattleik, var í gær tilkynntur sem nýr leikmaður ríkjandi Svíþjóðarmeistara Sävehof. Skrifaði hann undir þriggja ára samning sem tekur gildi í sumar að yfirstandandi tímabili loknu.

Birgir Steinn, sem er 25 ára gamall, hefur verið á meðal bestu leikmanna úrvalsdeildarinnar hér á landi undanfarin tímabil og verið afar atkvæðamikill. Sem stendur er hann fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar á tímabilinu og markahæstur hjá Aftureldingu með 126 mörk í 18 leikjum. Auk þess er hann langstoðsendingahæstur allra í deildinni með 90 stoðsendingar.

„Tilfinningarnar eru mjög góðar. Ég er ánægður með að þetta sé loksins orðið opinbert og er virkilega spenntur fyrir næsta sumri. Að prófa mig áfram, fara út og prófa mig á stærra sviði,“ sagði Birgir í samtali við Morgunblaðið.

Hefur það legið lengi fyrir að þú værir á leið til Sävehof?

„Nei, ekki beint. En jú, jú það er langur aðdragandi að þessu frá því ég heyrði frá þeim fyrst. Ég kíkti út til þeirra núna um miðjan febrúar.

Ég var yfir eina helgi, í tvær nætur, og eftir það var þetta eiginlega nánast orðið klárt. En bæði Sävehof og Afturelding vildu í samvinnu bíða með það í einhvern smá tíma áður en þetta yrði tilkynnt,“ útskýrði hann.

Góð viðurkenning fyrir mig

Sävehof kaupir Birgi af Aftureldingu þar sem samningur hans átti að renna út eftir næsta tímabil.

„Ég var með samning til 2026 þannig að þeir þurftu að kaupa mig frá Aftureldingu, sem er mjög gott líka. Það er góð viðurkenning fyrir mig að þeir hafi svo mikið viljað fá mig að þeir voru tilbúnir að kaupa mig frá Aftureldingu.

Að sama skapi er ég mjög ánægður með það að Afturelding fái eitthvað fyrir mig. Félagið hefur hjálpað mér mikið síðastliðin tvö ár og ég er ánægður með að þeir fái eitthvað fyrir það,“ sagði Birgir, sem kom til Aftureldingar frá Gróttu sumarið 2023.

Vart hefur orðið við áhuga á honum erlendis frá á undanförnum árum. „Já, það hefur alveg komið upp einhver áhugi, bæði í fyrra og hittifyrra. En það var eitthvað sem mér fannst ekki alveg nógu spennandi til þess að hoppa á.

Ég vildi frekar vera í toppbaráttunni og berjast um titla hérna heima en að fara út í eitthvert lið sem er kannski ekki alveg jafn gott og toppliðin hérna heima.

Þetta lið varð sænskur meistari í fyrra og hefur verið að berjast um titilinn síðustu þrjú eða fjögur ár. Þegar það kom upp gat maður ekki sagt annað en já,“ sagði Birgir.

Duglegir við að áframselja

Sävehof er sem stendur í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar en átta efstu liðin fara í úrslitakeppni um sænska meistaratitilinn. Með liðinu leikur Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson. En hvað var það sem heillaði við Sävehof?

„Fyrst og fremst þekkir maður þetta lið út frá því að það er búið að vera í úrslitum um sænska meistaratitilinn þrisvar á síðustu fjórum árum og vinna hann tvisvar á síðustu fjórum árum.

Maður þekkti liðið að utan. Svo er einnig það að félagið hefur verið duglegt við að áframselja sína leikmenn. Í hittifyrra seldu þeir Færeying til Kiel. Svo er annar að fara til GOG í Danmörku.

Svo er leikmaðurinn í minni stöðu að fara til Frakklands. Þeir vilja vera þannig lið að þeir hjálpi leikmönnum að taka næsta skref, sem er náttúrlega mjög heillandi,“ sagði hann.

Færeyingurinn sem seldur var til Kiel er Elias Ellefsen á Skipagötu, sá sem fer til GOG í sumar er Óli Mittún og leikmaðurinn sem fer til Toulouse í Frakklandi í sumar er Pontus Brolin.

Markmiðið eftir nokkur ár

Með þetta í huga telur Birgir að skiptin til Sävehof geti hjálpað honum að taka enn stærra skref á næstu árum.

„Já, það er auðvitað markmiðið eftir tvö til þrjú ár. En það er auðvitað undir mér komið að spila almennilega þarna og standa mig vel. Þá held ég að það séu allar líkur á því að það geti eitthvað meira spennandi gerst.

En eins og staðan er núna er ég bara að einbeita mér að því að klára tímabilið með Aftureldingu. Það verður spennandi að fara þarna út í sumar og já, ég hugsa þetta klárlega sem ákveðinn stökkpall. Þetta er klárlega mikill stökkpallur þarna úti.“

Hef notið mín í Mosfellsbænum

Áður en Birgir heldur út vill hann enda tímabilið með Aftureldingu á sem allra bestu nótum og vinna Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er engin spurning. Frá því við töpuðum þessu í fyrra á móti FH þá hefur það verið stefnan hjá okkur. Stefnan hjá okkur er að berjast um alla titla. Við misstum nú af einum um helgina sem var ansi súrt en við setjum stefnuna á að berjast alveg til enda um hina tvo.

Það er allavega markmiðið í Mosó og er búið að vera það síðustu tvö ár, að berjast um alla titla sem eru í boði,“ sagði Birgir, en Afturelding datt út úr bikarkeppninni í undanúrslitum í síðustu viku en er í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn og fer í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn.

Eftir tæplega tveggja ára dvöl í Mosfellsbænum ber hann Aftureldingu afar vel söguna.

„Ég hef notið mín ekkert smá vel í Mosfellsbænum. Mér líður ekkert eðlilega vel þar. Allt fólkið í kringum þetta og stjórnin, þetta er svona það næsta sem þú kemst því að vera í smá atvinnumennskuumhverfi á Íslandi.

Það er allt gert fyrir þig. Þjálfararnir Gunni [Gunnar Magnússon] og Stebbi [Stefán Árnason] eru alveg frábærir. Með fólkinu í kringum þetta og stjórninni er þetta svona alvöru samfélag, handboltasamfélag þarna í Mosfellsbæ,“ sagði Birgir.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson