50 ára Olga ólst upp á Hvammstanga og er sauðfjárbóndi á Tjörn á Vatnsnesi. Þau hjónin gerðust bændur í Saurbæ, sem er næsti bær við Tjörn, árið 1999 og keyptu Tjörn fyrir nokkrum árum. Þau reka nú sauðfjárbú, með um 600 fjár, í Saurbæ og gistiheimili í gamla prestshúsinu á Tjörn, en Tjörn er kirkjustaður.
„Eins og er þá eru þetta fjögur til sex herbergi. Það er nóg að gera á sumrin en lítið á veturna. Við höfum þá notað tímann til að gera húsið upp.“
Olga sér ásamt fleirum um Nytjamarkaðinn á Hvammstanga, sem er góðgerðarstarfsemi og hafa nytjamarkaðskonurnar verið duglegar að gefa til samfélagsins í Húnaþingi vestra, og svo stendur hún fyrir prjónahelgum á Tjörn á veturna. „Konur koma hingað, yfirleitt á föstudegi og eru yfir helgi til að prjóna og slappa af. Við höfum það huggulegt saman og borðum góðan mat og prjónum eða gerum aðra handavinnu.“
Olga ræktar einnig beagle-hunda undir nafninu Vatnsnes Beagle.
Fjölskylda Eiginmaður Olgu er Baldur Heimisson, f. 1971, frá Sauðadalsá á Vatnsnesi. Börn Olgu og Baldurs eru Elmar, f. 1995, Dagrún Irja, f. 1999, Mars, f. 2004, og Hersteinn Snorri, f. 2013. Barnabörnin eru Gunnbjörn Ingi og Heimir Týr. Foreldrar Olgu eru Hanna Sigríður Garðarsdóttir, f. 1951, búsett í Mosfellsbæ, og Ársæll Geir Magnússon, f. 1954, búsettur á Hvammstanga.