Bjarni Már Magnússon
Bjarni Már Magnússon
Ef Ísland myndi stofna eigin her er einn kosturinn í stöðunni að innleiða herskyldu sem næði til allra landsmanna.

Bjarni Már Magnússon

Með vaxandi öryggisógnum í Evrópu, breyttu alþjóðlegu öryggislandslagi og aukinni spennu í Norður-Atlantshafi og á norðurskautinu er ljóst að Ísland getur ekki lengur reitt sig í jafn miklum mæli og áður á varnir annarra ríkja. Þrátt fyrir að Ísland hafi hingað til ekki haldið úti eigin her er ljóst að samfélagið þarf að vera betur undirbúið en nú er til að mæta margvíslegum áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Ræða þarf málaflokkinn fordómalaust og takast á við ýmis tabú. Meðal efna sem nauðsynlegt er að huga að er hvort skynsamlegt sé að taka upp herskyldu, í anda sænskra heildarvarna (totalförsvar), þar sem samfélagið allt tekur virkan þátt í vörnum landsins.

Svíþjóð hefur þróað öflugt varnarkerfi sem byggist á samvinnu hernaðarlegra og borgaralegra varna. Þessi nálgun tryggir að samfélagið í heild sinni sé viðbúið og tilbúið til að bregðast við ógnunum, hvort sem þær eru hernaðarlegs eðlis, tengdar netöryggi eða náttúruvá. Í Svíþjóð er herskylda mikilvægur hluti af þessu kerfi og stuðlar að því að borgarar axli ábyrgð á eigin þjóðaröryggi. Með þessu móti er ekki aðeins byggt upp sterkara varnarlið heldur einnig samfélagslegur stöðugleiki þar sem almenningur tekur virkan þátt í að verja grunnstoðir samfélagsins.

Hernaðarlegt og borgaralegt

Ef Ísland myndi stofna eigin her er einn kosturinn í stöðunni að innleiða herskyldu sem næði til allra landsmanna, með mismunandi útfærslum eftir hæfni og áhugasviði viðkomandi. Hefðbundin herþjónusta gæti falið í sér grunnþjálfun og þjálfun í sérhæfðum hernaðarlegum greinum á meðan borgaraleg varnarþjónusta gæti boðið upp á störf tengd almannavörnum, hjá björgunarsveitum og í tengslum við viðbrögð vegna ógnana gegn innviðum landsins. Eftir grunnþjónustu gætu einstaklingar verið skráðir í varalið sem tryggði viðvarandi öryggisgetu landsins og viðbúnað í neyðartilvikum. Til að útfæra þetta fyrirkomulag með nákvæmari hætti er hægt að sækja í smiðju Norðurlandanna.

Upptaka herskyldu myndi styrkja íslenskt þjóðaröryggi á margvíslegan hátt. Með því að byggja upp eigin varnir gæti Ísland orðið sjálfstæðara í öryggis- og varnarmálum og dregið úr þörfinni á að reiða sig á utanaðkomandi vernd. Þá myndi herskylda stuðla að því að samfélagið allt væri meðvitað um mikilvægi þjóðarvarna og að landið væri betur í stakk búið til að takast á við öryggisógnir samtímans. Að auki myndi slíkt kerfi styrkja stöðu Íslands innan NATO, þar sem landið yrði virkari þátttakandi í sameiginlegum vörnum bandalagsins.

Samfélagslegur stöðugleiki

Innleiðing herskyldu myndi einnig hafa jákvæð áhrif á samfélagslegan stöðugleika. Þátttaka allra í vörnum landsins myndi auka samhug og ábyrgðartilfinningu meðal landsmanna. Slík nálgun gæti aukið samstöðu þjóðarinnar og stuðlað að sterkari og samheldnari samfélagsgerð. Að auki gæti hún skapað tækifæri til aukinnar færniþróunar og starfshæfni, þar sem einstaklingar myndu öðlast fjölbreytta reynslu og þekkingu sem nýttist þeim í framtíðinni.

Með hliðsjón af reynslu Svíþjóðar og annarra Norðurlandaþjóða væri skynsamlegt fyrir Ísland að huga að upptöku herskyldu í tengslum við stofnun eigin hers. Með því að byggja á hugmyndinni um allsherjarvarnir og aðlaga hana að íslenskum aðstæðum gæti Ísland tryggt öflugt og sjálfbært þjóðaröryggi. Slík stefnumótun myndi ekki aðeins styrkja öryggi landsins heldur einnig efla samfélagið í heild og gera það betur í stakk búið til að takast á við framtíðaráskoranir í varnar- og öryggismálum.

Höfundur er prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Höf.: Bjarni Már Magnússon