Ráðhúsið Borgarstjórn fundaði í gær.
Ráðhúsið Borgarstjórn fundaði í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nýr meirihluti í borgarstjórn hyggst ekki veita lyfjafyrirtækinu Alvotech leyfi til þess að byggja leikskóla sem myndi þjóna starfsfólki fyrirtækisins. Kom þetta fram í máli Skúla Helgasonar borgarfulltrúa Samfylkingarinnar á fundi borgarstjórnar í gær

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Nýr meirihluti í borgarstjórn hyggst ekki veita lyfjafyrirtækinu Alvotech leyfi til þess að byggja leikskóla sem myndi þjóna starfsfólki fyrirtækisins. Kom þetta fram í máli Skúla Helgasonar borgarfulltrúa Samfylkingarinnar á fundi borgarstjórnar í gær. Skúli vék þar einnig að hugmyndum Arion banka um að taka upp daggæslu á vinnustað, og sagði að ekki hefði verið tekin afstaða til þess.

Fyrri meirihluti hafði tekið jákvætt í umleitanir Alvotech í málinu en ný vinstristjórn hefur aðra sýn á hlutina. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, sagði í samtali við mbl.is í gær að niðurstaða meirihlutans væri vonbrigði.

„Ég lýsi verulegum vonbrigðum með þá ákvörðun meirihlutans að vinna ekki með atvinnulífi að lausn leikskóla- og daggæsluvandans í Reykjavík. Borgin hefur ekki náð neinum árangri í leikskólamálum síðastliðinn áratug, þvert á móti hefur vandinn stigmagnast. Við þurfum að vera lausnamiðuð og leita skapandi leiða til að mæta fjölskyldum í borginni. Það er forgangsmál í mínum huga,“ sagði Hildur. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins og fyrrverandi borgarstjóri, sagði í gær í samtali við mbl.is að sér þætti það sorglegt að pólitísk kredda meirihlutaflokkanna fengi að vega þyngra en sú skynsamlega lausn sem lögð hefði verið fram um að brúa bilið í leikskólamálum.

Sagði Einar jafnframt að vinnustaðir hefðu lagt mikið af mörkum til þess að koma að lausnum í leikskólavanda borgarinnar. Þannig hefði Alvotech t.a.m. lofað því að um helmingur leikskólaplássa myndi verða fyrir starfsfólk og um helmingur fyrir önnur börn í hverfinu og að ekki hefði verið hugsunin að reka leikskólann í hagnaðarskyni fyrir Alvotech.

Höf.: Viðar Guðjónsson