Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Tillögum um hagræðingu í ríkisrekstri, sem unnar voru upp úr ábendingum og tillögum almennings í samráðsgátt, var í gær skilað til ríkisstjórnarinnar, en um þær verður svo fjallað í ríkisstjórn og af viðkomandi ráðherrum.
Alls bárust um 10.000 tillögur um aukna hagræðingu, en eftir að starfshópur forsætisráðherra hafði farið yfir þær, tekið saman og metið standa 60 tillögur eftir. Margar þeirra, ekki þó allar, hafa verið metnar til fjár og er áætlað að sparnaðurinn nemi um 71 milljarði á fimm árum eða 14 milljörðum á ári að jafnaði.
Í ár eru ríkisútgjöld áætluð 1.550 milljarðar króna, svo sparnaðurinn er innan við 1% af ríkisútgjöldum. Því má segja að áætluð hagræðing sé mjög hófleg, þótt vissulega geti hún orðið nokkru hærri komi tillögurnar allar til framkvæmda.
Björn Ingi Victorsson formaður starfshópsins sagði að margar tillögur hefðu komið fram sem snertu pólitísk álitaefni, en þær hefði hópurinn ákveðið að eftirláta stjórnmálamönnum að fjalla um. Þær snerust t.d. um ríkisútvarp og áfengissölu. » 6