3 Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach.
3 Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach. — Morgunblaðið/Eyþór
Dagur Gautason skoraði fjögur mörk fyrir Montpellier þegar liðið hafði betur gegn Kriens í 1. riðli Evrópudeildarinnar í handbolta í Sviss í gær. Leiknum lauk með naumum sigri Montpellier, 32:31, en með sigrinum tryggði liðið sér efsta sæti…

Dagur Gautason skoraði fjögur mörk fyrir Montpellier þegar liðið hafði betur gegn Kriens í 1. riðli Evrópudeildarinnar í handbolta í Sviss í gær. Leiknum lauk með naumum sigri Montpellier, 32:31, en með sigrinum tryggði liðið sér efsta sæti riðilsins með 10 stig og þar með sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Stiven Tobar Valencia skoraði þrjú mörk fyrir Benfica þegar liðið hafði betur gegn Bidasoa í 2. riðli, 33:30, í Portúgal. Benfica hafnaði í þriðja sæti riðilsins með sex stig og mætir GOG í umspili um sæti í átta liða úrslitunum.

Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson léku ekki með Melsungen vegna meiðsla þegar liðið tapaði fyrir Kiel á útivelli í 3. riðli, 35:24, en Melsungen hafnaði í öðru sæti riðilsins og mætir Íslendingaliði Gummersbach í umspilinu.

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, tapaði fyrir Flensburg á útivelli í 4. riðlinum, 32:30, þar sem Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk en Teitur Örn Einarsson er frá vegna meiðsla. Gummersbach hafnaði í þriðja sæti riðilsins.

Þá skoraði Þorsteinn Leó Gunnarsson þrjú mörk fyrir Porto í átta marka sigri gegn Vojvodina á útivelli í 3. riðlinum, 38:30, en Porto hafnaði í þriðja sæti riðilsins og mætir Toulouse í umspilinu.

Umspilsleikirnir fara fram 25. mars og 1. apríl þar sem leikið verður heima og að heiman. Átta liða úrslitin fara svo fram dagana 22. apríl og 29. apríl og úrslitahelgin fer fram 24. og 25. maí í Hamburg.