Mikael Máni Ásmundsson gítarleikari kemur fram á tónleikum Jazzklúbbsins Múlans kl. 20 í kvöld, 5. mars, á Björtuloftum í Hörpu. Mikael flytur blöndu af nýjum og gömlum lögum eftir sig og nokkrar ábreiður að auki. Hann gaf út sína fyrstu sólógítarplötu, Guitar Poetry, í mars í fyrra og segja lögin sögur, opna rými og landslag, teikna myndir og eru spegilmynd gítarleikara sem er jafn óhefðbundinn og hann er aðgengilegur, eins og segir í tilkynningu. Er þetta upphafið að tónleikaferð hans í kringum landið, 5.-10. mars, en hann mun stoppa á Akureyri, Egilsstöðum, Neskaupstað og Hvolsvelli.