Brussel Ursula von der Leyen kynnti í gær nýjar aðgerðir ESB til þess að efla varnir Evrópu og Úkraínu.
Brussel Ursula von der Leyen kynnti í gær nýjar aðgerðir ESB til þess að efla varnir Evrópu og Úkraínu. — AFP/Nicolas Tucat
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að ríki Evrópu hygðust stíga upp til þess að veita Úkraínumönnum tafarlausa hernaðaraðstoð, en Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í fyrrakvöld að Bandaríkin hefðu gert hlé á herstuðningi sínum við Úkraínu

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að ríki Evrópu hygðust stíga upp til þess að veita Úkraínumönnum tafarlausa hernaðaraðstoð, en Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í fyrrakvöld að Bandaríkin hefðu gert hlé á herstuðningi sínum við Úkraínu.

Tilkynning Trumps vakti misjöfn viðbrögð í Evrópu og í Úkraínu, en Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, fagnaði ákvörðun Trumps í gær og sagði hana vera „líklega besta framlagið til friðar“ í Úkraínu.

Stjórnvöld í Póllandi og Eistlandi lýstu hins vegar yfir áhyggjum sínum, og gagnrýndi pólska utanríkisráðuneytið meðal annars að Bandaríkjastjórn hefði ekki haft neitt samráð við neinn af bandamönnum sínum í Atlantshafsbandalaginu áður en greint var frá ákvörðuninni.

Heimildarmaður breska dagblaðsins Financial Times í Úkraínu sagði í gær að ákvörðunin myndi ekki hafa áhrif þegar í stað, þar sem Úkraínumenn ættu enn nægar birgðir af bandarískum vopnum til næstu 2-3 mánaða, en að eftir það yrði staðan erfið. „Það verður ekki algjört hrun, en við munum neyðast til þess að draga herlið okkar til baka fyrr frá vissum svæðum.“

Áætlun í fimm liðum

Von der Leyen tilkynnti svo í gær nýja áætlun Evrópusambandsins í fimm liðum, sem felur í sér að um 800 milljörðum evra, eða um 116,9 billjónum íslenskra króna, verði varið til varnarmála aðildarríkjanna á næstu fjórum árum, en stuðningur sambandsins við Úkraínu er hluti af áætluninni.

„Við stöndum frammi fyrir nýjum tíma,“ sagði von der Leyen í bréfi sem hún ritaði til þjóðarleiðtoga aðildarríkja ESB, en gert er ráð fyrir að hin nýja varnaráætlun sambandsins verði samþykkt á leiðtogafundi þess, sem haldinn verður í Brussel á morgun.

Áætlunin, sem gengur undir heitinu „ReArm Europe“, snýst aðallega um að gera aðildarríkjunum kleift að auka framlög sín til varnarmála, án þess að þau lendi upp á kant við reglur sambandsins um halla á fjárlögum aðildarríkjanna. Þá verður settur á fót sjóður upp á 150 milljarða evra, sem ríkin geta nýtt til lántöku til að ýta undir fjárfestingar í hergagnaiðnaði sínum.

Sagði von der Leyen að þær fjárfestingar væru þá einkum hugsaðar til þess að auka framleiðslu ríkjanna á loftvarnarflaugum, stórskotaliði, eldflaugum, drónum og drónavörnum. „Með þessum búnaði geta aðildarríkin aukið stórlega stuðning sinn við Úkraínu,“ sagði hún.

Áætlunin felur einnig í sér að Fjárfestingabanki Evrópu taki þátt í uppbyggingu hergagnaiðnaðarins, og verður takmörkum á útlánum bankans til evrópskra vopnaframleiðenda aflétt.

Þeir sérfræðingar sem AFP-fréttastofan ræddi við sögðu að áætlunin myndi líklega ekki skila haldbærum niðurstöðum fyrir Úkraínu fyrr en eftir nokkrar vikur eða mánuði. Aðstoð ESB gæti þó skipt máli, þar sem hún myndi þá byrja að berast um það leyti sem bandarísku hergögnin færu að klárast.

Hins vegar væri einnig ljóst að ríki Evrópu gætu ekki með góðu móti bætt upp fyrir sum hergögn Bandaríkjanna á borð við Patriot-loftvarnarkerfið, sem hefur reynst lykilþáttur í vörnum Úkraínumanna gegn daglegum loftárásum Rússa.

Selenskí biðlar til Trumps

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sendi svo frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlum sínum í gær, þar sem hann lýsti yfir vilja sínum til þess að koma samskiptum sínum við Trump Bandaríkjaforseta aftur á réttan kjöl eftir rifrildi þeirra í Hvíta húsinu í síðustu viku.

Sagðist Selenskí reiðubúinn til þess að vinna að varanlegum friði með Trump, og kallaði eftir því að gert yrði hlé á öllum árásum bæði Rússa og Úkraínumanna á lofti og á sjó sem fyrsta skrefið í átt að varanlegum friði. Vísaði Selenskí þar í vopnahléstillögur Breta og Frakka sem ríki Evrópu hafa rætt undanfarna daga.

Selenskí sagði jafnframt að það væri miður að fundurinn í Hvíta húsinu hefði farið úr skorðum, og sagðist vera reiðubúinn að undirrita auðlindasamninginn við Bandaríkin. Bárust svo fréttir í gærkvöldi um að ríkin tvö hygðust undirrita samkomulagið í nótt, en þá átti Trump að flytja fyrstu stefnuræðu sína fyrir báðum deildum Bandaríkjaþings.

Varaforseti Trumps, JD Vance, sagði í fyrrakvöld í viðtali á Fox News-sjónvarpsstöðinni að auðlindasamkomulagið fæli í sér meira öryggi fyrir Úkraínu en „20.000 manna friðargæslulið frá einhverju ríki sem hefur ekki háð stríð í 30 eða 40 ár“.

Tóku stjórnmálamenn í bæði Bretlandi og Frakklandi ummæli Vance óstinnt upp í gær, en bæði ríki hafa sent herlið til aðstoðar Bandaríkjaher á síðustu áratugum. Var Vance sakaður um að gera lítið úr mannfórnum beggja ríkja.

Vance sagði í gærkvöldi að ummælum sínum hefði ekki verið beint að ríkjunum tveimur og að þau hefðu bæði barist af hugprýði við hlið Bandaríkjahers.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson