Elín Pétursdóttir fæddist í Reykjavík 12. mars 1940. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 23. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Pétur Pétursson frá Miðdal í Kjós, f. 10.3. 1895, d. 14.7. 1986, og Kristín Soffía Jónsdóttir frá Gilsfjarðarbrekku, f. 14.11. 1909, d. 3.12. 2000.

Systkini hennar voru Jón, f. 1914, d. 2003; Hallgrímur, f. 1923, d. 1993; Guðfinna Lea, f. 1925, d. 1985; Þorbjörn, f. 1927, d. 2004; Sigríður, f. 1929; Trausti, f. 1937; Pétur, f. 1938, d. 2023; Ester f. 1943, d. 2024; Sara Rut, f. 1946, d. 1946; Ruth, f. 1949, og María, f. 1955.

Elín giftist Birgi Sigurðssyni 11. janúar 1958. Börn Elínar og Birgis eru: 1) Erla Kristín, f. 1960, gift Erling Magnússyni, f. 1959. Þau eiga fjórar dætur og fjórtán barnabörn. 2) Ólafur Birgir, f. 1961, d. 2024, kvæntur Anette Trier Birgisson. Þau eiga fjögur börn og átta barnabörn. 3) Sigríður Esther, f. 1962, var gift Sigtryggi Ástvaldssyni, f. 1945, hann lést af slysförum árið 1996. Þau eiga fjögur börn. Seinni maður Sigríðar er Guðjón Guðjónsson, f. 1965. Þau eiga tvo syni og níu barnabörn. 4) Kristinn Pétur, f. 1966, kvæntur Ásdísi Sigrúnu Ingadóttur, f. 1961. Þau eiga tvo syni. 5) Theodór Francis, f. 1967, kvæntur Katrínu Katrínardóttur, f. 1966. Þau eiga fjögur börn og sex barnabörn. 6) Elín Birgitta, f. 1976, gift Katli Má Júlíussyni, f. 1973. Þau eiga þrjú börn.

Elín fæddist í Reykjavík og ólst upp í stórum og samhentum systkinahópi. Hún gerði mjög ung hlé á skólagöngu til að hjálpa til á stóru æskuheimili sínu og eftir það vann hún ýmis störf, aðallega þjónustu- og umönnunarstörf ásamt því að sinna stóru heimili og ala upp sex fjörmikil og hugmyndarík börn. Hugur Elínar stóð alltaf til hjúkrunar og rúmlega fertug hóf hún nám við Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1986.

Elín starfaði við hjúkrun á ýmsum stöðum, lengst af á bráðamóttöku í Fossvogi, en einnig á Grensásdeild, við virkjanaframkvæmdir upp til fjalla og síðustu árin í heimahjúkrun.

Útför Elínar fer fram frá Lindakirkju í dag, 5. mars 2025, klukkan 11.

Elsku mamma mín, þessi klettur í lífi svo margra, er nú sest að í betri stofunni hjá herra Jesú, frelsara sínum og besta vini. Mamma lifði vissulega tímana tvenna. Hún var fædd á stríðsárunum og mundi vel eftir skömmtunarseðlum, hermönnum og loftvarnarflautum. Það var henni mikilvægt að börnin hennar þyrftu ekki að líða skort. Þegar ekki var til nægt fjármagn til að kaupa t.d. föt, þá prjónaði hún eða saumaði fyrir okkur það sem okkur vantaði. Hún sat oft við saumavélina langt fram á nótt til að klára þessa eða hina flíkina.

Mamma var mögnuð kona, alltaf boðin og búin að hjálpa þeim sem til hennar leituðu. Heimili okkar var oft fullt af gestum og þá hafði hún bakað fjöllin há af kaffibrauði. Hún var hjúkrunarkona af lífi og sál, löngu áður en hún lærði hjúkrun. Mamma var eins og fallegur vormorgunn, hlýr og bjartur. Að heyra hana hlæja og gleðjast var eins og að fá fiðrildi í magann. Ég man líka stundirnar þegar ég var barn og mamma settist inn í stofu með allan hópinn sinn í kringum sig. Þar spilaði hún á gítar og söng bæði skemmtileg lög og önnur angurvær.

Mamma var stolt kona, hnarreist eins og hávaxið tré sem borið hefur margan ávöxt. Hún gladdist yfir sérhverjum afkomanda sínum og gaf endalaust af sér. Hún var orðheppin og snögg til andsvars, lét engan eiga neitt hjá sér. Það skyldi heldur enginn gera neitt á hlut hennar fólks, þá varð hún eins og reið birna sem ver húnana sína og þá heyrðist í „þrumunni miklu“. Mömmu var mjög umhugað að börnin sín væru sjálfstæð, hraust og heiðarleg. Það varð leiðarljós mitt í lífinu, að gera hana stolta af mér og mínum. Mamma kenndi mér að trúa á Jesú og sigurverk hans á krossinum. Auk þess er hlýjan, gleðin staðfestan, gamnið og lífsgleðin það besta sem hún hefur lagt inn í líf mitt.

Elsku mamma mín, þessi hjartahlýja, ráðagóða, óútreiknanlega, skemmtilega, orðheppna og þrjóska kona sem átti svo margt að gefa. Það verður skrítið að koma ekki til hennar í ömmuhús, sitja með kaffibolla í litlu sætu stofunni hennar og fá æskuminningar hennar beint í æð. Þvílíkar gæðastundir sem við höfum átt saman. Ég mun sakna mömmu um alla tíð um leið og ég er þakklát fyrir að hún er nú laus undan þjáningum og sorg, hefur hitt litlu krílin sín sem fengu ekki að lifa hér á jörðinni, hitt alla ástvini sína, þá sem á undan eru gengnir og ekki síst besta vin sinn Jesú. Ég er þakklát fyrir að vita að þegar minn tími er liðinn hér á jörðu fæ ég að hitta hana í betri stofunni.

Elsku besta mamman mín, takk fyrir þig og bless á meðan.

Sigríður Esther (Sirrý litla).

Allt í einu eru þær kaldar. Ekki bara kveðjurnar, heldur hendurnar. Hendurnar hennar mömmu sem hingað til hafa alltaf verið svo hlýjar. Þær hafa komið við sögu í svo mörgum kringumstæðum. Og við öll sem hana höfum þekkt höfum notið svo mikils góðs af þeim. Hvort sem þær voru að hlýja köldum litlum krökkum, búa um sár, sauma, smíða, mála, laga eða bæta nánast hvað sem var. Þessar mjúku góðu hendur gátu allt.

Allt í einu hafa þeir stöðvast. Ekki bara tíminn, heldur fæturnir. Fætur hennar, sem alltaf voru á fullri ferð með mömmu á ferð nýrra ævintýra. Nýrra staða og inn í nýjar kringumstæður þar sem mamma gat komið sem best að notum og verið öðrum hvað mesta uppörvunin. Með okkur fór hún víða. Bæði á Íslandi og úti í hinum stóra heimi. Margar ferðirnar voru til Óla bróður og hans fjölskyldu en einnig aðrar til Vesturheims. Alltaf þótti henni gaman að sjá eitthvað nýtt. Hvort sem það var stórbrotin náttúran í Kanada eða nýmóðins tuskubúðir í Bandaríkjunum. Öllu þessu fagnaði hún af einlægni.

Allt í einu er hún hljóðnuð. Hún hver? Nú röddin hennar mömmu. Þessi milda rödd móðurinnar sem ekkert aumt mátti sjá. Alltaf tók hún svo vel á móti mér og öllum öðrum sem litu við hjá henni í lífinu. Hún hafði milda rödd huggunar og hvatningar. Á bak við röddina var djúp viska og farsæl greind. Hún þorði að hafa skoðun og átti auðvelt með að hvetja fólk til að ná sínum eigin sigrum. Þetta nýttist henni vel í fjölskyldunni og ekki síður í hjúkrunarstarfi sínu, hvar hún mætti fólki í alls konar ástandi með mismikinn lífsvilja. Fólk fór gjarnan hressara í bragði og styrkari í lífsgöngunni eftir þau samskipti.

Allt í einu hefur það stöðvast. Það hvað? Nú hjartað sem sló svo heitt í brjósti hennar. Það var kappsfullt og ekki á því að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Svolítið eins og eigandinn. Hjartað hennar mömmu var fölskvalaust og heiðarlegt. Hún mamma var svo sönn. Hún hafði sínar meiningar en neikvæð var hún aldrei. Hafði lag á að finna alltaf eitthvað gott í fari flestra. Leyfði fólki að njóta vafans en lét það samt alls ekki vaða yfir sig. Allt hennar viðmót einkenndist af góðu hjartalagi og notalegu viðhorfi til lífsins. Fáir finnast greiðviknari meðal eftirlifenda.

Allt í einu er því lokið. Ekki bara lífinu, heldur gjafaflóðinu. Gjafaflóðið er eitt af því sem einkenndi lífið hennar mömmu. Frá unga aldri var henni umhugað um þá sem eitthvað skorti; ef hún varð þess vör að einhvern vantaði eitthvað eða langaði í þá gaf hún það hiklaust ef hún gat. Og nú er því lokið, sem og lífinu sem hún lifði. Í því gaf hún fólkinu sínu og vinum endalaust af sjálfri sér og af efnum eftir því sem hægt var. Hún var mér dýrmætari en orð fá lýst. Hún kenndi í svo mörgu og var okkur slík fyrirmynd að áskorun fylgir því að feta þann stig.

Trúin var henni einlæg og stöðugur styrkur. Í okkar sameiginlegu trú fylgir sú fullvissa að við hittumst á ný í fögnuði himnaföðurins. Ég hlakka til þess samfundar. Guð blessi þína yndislegu minningu.

Sonurinn sem kenndi þér þolinmæði,

Kristinn (Kiddi).

Ég tek ykkur með inn á stofu 12 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Starfsfólkið með sitt hlýlega viðmót býður góðan daginn og mamma brosir þegar hún sér okkur systur birtast í dyragættinni. „Eruð þið komnar elskurnar, það er svo gott að hafa ykkur.“ Svo koma þær sem hugsa um hana og sjá til þess að henni líði vel, að það fari vel um hana og alltaf endar hún á að segja þeim aðeins til, t.d. hvar snyrtidótið hennar sé enda engin ástæða til annars en að hugsa vel um sig. Ég brosi út í annað og gleðst yfir henni, þessari dýrmætu mömmu minni sem ég þarf nú að kveðja í bili.

Alltaf var velferð annarra henni efst í huga og þessa síðustu viku hennar rak hún okkur Sirrý heim á kvöldin því við vorum auðvitað mjög þreyttar að hennar mati, reyndar rangt mat en það fannst henni ekki. Það kom ekki á óvart þegar starfsfólkið sagði mér að mamma væri uppáhaldið þeirra, nærvera hennar væri svo ljúf og ótrúlegur friður inni hjá henni.

Ég tek ykkur líka með niður á bryggju í Reykjavíkurhöfn og árið er 1980. Ég tvítug með Írisi dóttur mína tveggja ára, við erum að koma með Akraborginni og ég átti að fara í sónar á Landspítalanum en þannig tæki var ekki algengt í þá daga. Ljósmóðurinni sem sinnti mér fannst meðgangan ekki alveg eftir plani og ég var send suður eins og sagt var. Mamma keyrði okkur, beið með Írisi og sá mig koma náföla til baka. Í raun vissi hún alveg hvað þetta var, hún var búin að segja það við mig áður, en mér datt ekki í hug að hún hefði rétt fyrir sér, að ég gengi með tvö börn, en sjálf hafði hún gengið með tvíbura.

Mamma var ein af þessum konum sem vita allt, kunna allt og skilja allt. Hún var hjúkkan okkar alla tíð þótt hún færi nú ekki í nám fyrr en á fimmtugsaldri. Við bjuggum í nágrenni við hana með stelpurnar okkar litlar og ef eitthvað kom fyrir, flís í putta, skurður eða eitthvað annað þá var ég ekki beðin um aðstoð, „ég fer bara til ömmu“. Ég held nú að mamma hafi bara haft gaman af þessum heimsóknum þeirra enda urðu þær allar góðar vinkonur þegar stelpurnar uxu úr grasi og langömmubörnin nutu þess að koma til hennar.

Mömmu féll aldrei verk úr hendi og nú eru að baki notalegu stundirnar í Krummahólum, ég að koma við hjá henni, ganga inn og heyra í sögunni sem hún var að hlusta á og sjá hana sitja í sófanum með handavinnuna sína. Við fengum okkur kaffi og sögðum hvor annarri það sem á daga hafði drifið síðan síðast. Hún tók lífinu af miklu æðruleysi þótt þungar byrðar hafi oft verið lagðar á hana. Andlát Óla bróður fyrir ári reyndi þó mjög á hana og það var erfitt að sjá hana kveðja son sinn hinstu kveðju en keik stóð hún, sjálf orðin veik af sama meini og tók hann frá okkur alltof snemma.

Við mamma vorum ekki bara mæðgur heldur líka vinkonur og ég sakna hennar sárt. Elsku dýrmæta mamman mín,

þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist meðan
lífs ég er.

Ég elska þig svo mikið og í trú og von á Guð þá segi ég bless á meðan og við sjáumst þegar minn tími kemur. Þín,

Erla.

Mamma var hetjan mín og fyrirmynd, hún var stóri áttavitinn í lífi mínu. Við vorum mjög nánar og oft talað um okkur sem Ellurnar, við leiddumst í gegnum líf mitt en samt leiddist okkur aldrei. Ég á óteljandi minningar um mömmu því við vörðum miklum tíma saman og vorum þannig að það gerðist allavega einu sinni í hverju samtali okkar að við sögðum sömu setninguna báðar í einu. Spurðum svo hina af hverju við værum yfirhöfuð að tala saman og vorum alltaf sammála um að það gerðum við af því okkur fyndist það svo gaman.

Hvert sem ég lít yfir líf mitt sé ég fingraför mömmu og nú eru þau fjársjóðurinn minn. Ein af minningunum varð eins og forspá fyrir allt líf mitt. Ég var sex ára, kom heim með skólabílnum í brjáluðum byl og skrefin voru þung fyrir mig að kafa í gegnum djúpan snjó og sjá ekki nema rétt fram á nefbroddinn. Þegar ég var u.þ.b. hálfnuð heim var ég orðin örmagna og hugsaði með mér að nú kæmist ég ekki lengra og hér myndi ég deyja. En ég hafði varla sleppt hugsuninni þegar ég sé mömmu birtast í gegnum sortann. Þá hafði hún fylgst með bílnum og ákveðið að koma á móti mér enda veðurhamurinn slíkur. Sælan sem fór um mig alla við það að sjá mömmu var magnþrungin því ég vissi að nú væri mér borgið, mamma var komin! Síðan þá hefur mamma margsinnis sótt mig út í sortann. Þegar lífið var á brattann hjá mér og ég vissi ekki hvort ég kæmist alla leið, þá brást það ekki að mamma lét ekkert stoppa sig, heldur náði í mig og kom mér í skjól.

Mamma var sólin í sólkerfinu mínu öll mín uppvaxtarár og ef hún var nærri var allt alltaf í lagi, sama hvað! Mamma var öryggið á völtum sjó, leiðbeinandinn þegar verkefnin voru flókin og skemmtikrafturinn á gleðistundum, enda spriklandi húmoristi.

Mamma var nagli, en sveigjanlegasti og mýksti nagli heimsins þegar þess þurfti. Hún var alltaf til í að fara friðarleiðina og var tilbúin til að leggja mikið á sig til að stuðla að sáttum. Engan hef ég hitt sterkari en mömmu, það var alveg sama hvað lífið bauð henni upp á, það var aldrei neinn bilbug á henni að finna, uppgjöf orð sem hún þekkti ekki og alltaf stóð hún keik, hugrekki hennar óbilandi. Það var henni í blóð borið að sigrast á öllum áskorunum.

Mamma átti ráð við öllu og alltaf átti hún allan tíma heimsins til að hlusta og leiðbeina. Það hefur aldrei neinn elskað mig eins og mamma, enda elskaði enginn eins og mamma. Enginn í heiminum hafði eins botnlausa trú á mér og hún mamma. En á sama tíma var hún aldrei feimin við að leiðrétta mig ef ég stefndi í ranga átt, alltaf hrein og bein.

Elsku mamma, þótt ég sakni þín með hverjum andardrætti og sorgin nísti hjarta mitt er eina rökrétta niðurstaðan að leiðarlokum þakklæti. Djúpt og innilegt þakklæti fyrir að hafa fengið að eiga þig að í tæpa hálfa öld. Þakklæti fyrir allt sem þú varst og alltaf verður mér og mínum. Ég mun bera kyndilinn þinn áfram og ylja mér við minningarnar. Nú ert þú komin heim þangað sem þú alltaf stefndir og við það hugga ég mig. Þú lifðir vel og þú kláraðir vel.

Bless á meðan elskan.

Elín Birgitta Birgisdóttir.

Hvernig lýsir maður því sem manni finnst ólýsanlegt? Mamma mín var eiginlega ólýsanleg á svo margan hátt. Fyrir mig sem ungan dreng var hún öryggi mitt, skjól fyrir hættum og nærvera hennar var læknandi. Ég veit að þetta er í starfslýsingu mæðra en það er ekki sjálfgefið að eiga móður sem uppfyllir þessi skilyrði. Mamma mín fór langtum lengra en hefðbundin starfslýsing myndi nokkurn tíma rúma. Ég sá mömmu aldrei hrædda þó að ég viti í dag sem fullorðinn maður að hún hefur örugglega oft verið óttaslegin í alls konar aðstæðum. En mamma var hugrökk og hugrakkur einstaklingur gefst ekki upp þó að hann sé hræddur.

Mamma var aldrei efnamanneskja, sennilega vegna þess að það skipti hana afar litlu máli. Mamma átti samt alltaf nóg, því að þannig leit hún á lífið. Það sem Drottinn færði henni var alltaf nóg fyrir mömmu. En mamma var samt svo rík af ýmsu öðru. Hún var rík af kærleika, hún var rík af þolinmæði, hún var rík af góðum ráðum, hún var rík af seiglu og útsjónarsemi, hún var rík af húmor og hún var einstaklega rík af baráttuvilja. Sá baráttuvilji kom ekki síst fram þegar einhver átti undir högg að sækja. Hún tók alltaf málstað með þeim sem minna máttu sín og var óþreytandi við að styðja, styrkja og hjálpa. Og mamma var rík af elsku annarra á henni, því mamma var kona sem safnaði vinum en ekki óvinum. Mamma óskaði sér hvorki frægðar né frama, hún óskaði sér þess að lifa lifi sínu þannig að kærleikur Guðs sæist í lífi hennar og það tókst henni með miklum sóma.

Ef til vill lýsir þessi frásögn mömmu vel. Við hjónin bjuggum á Akureyri og vegna starfa minna þurfti ég nokkuð oft að sækja fundi til höfuðborgarinnar. Við Katrín mín höfum alltaf verið mjög samstiga og því nýttum við oft fundarferðir mínar sem fjölskylduferðir. Við vorum á leiðinni á einn slíkan fund þegar við keyrðum um kvöldmatarleytið inn í borgina með börnin okkar fjögur. Við vorum á leiðinni til tengdamömmu þar sem við ætluðum að gista. Mamma og tengdamamma voru nágrannar þannig að við ákváðum að byrja á að heilsa upp á foreldra mína. Mamma hafði eldað mat fyrir sig og pabba og þau voru að setjast að borðum þegar við komum. Það var nú ekki mikið mál fyrir mömmu að bæta við diskum fyrir sex manns í viðbót. Þegar krakkarnir voru allir komnir með mat á sinn disk, sem og ég og pabbi, tók ég eftir að Kata mín var ekki búin að fá sér neitt á sinn disk. Ég spurði hana því hvort hún ætlaði ekki að fá sér neitt. Nei, hún var ekki svöng var svarið. Ég ætlaði að fara að mótmæla henni þegar mamma sagði: „Mæður verða ekki svangar fyrr en börnin eru orðin södd.“

Orð fá ekki lýst þeirri tilfinningu að þurfa að kveðja hana, en ef ég ætti að velja mér orð væri það þakklæti fyrir allt sem hún var mér og mínu fólki. Mamma er komin heim til Jesú, en þangað stefndi hún alla tíð. Orð hennar og verk halda þó áfram að lifa og fæða af sér góða ávexti um ókomin ár. Ég heiðra og blessa minningu mömmu minnar sem var mér svo óendanlega kær.

Theodór Francis Birgisson.

Það er af mörgu að taka þegar sest er niður til að skrifa minningarorð um jafn mikinn áhrifavald í lífi mínu og Ellu Pé tengdamömmu mína. Ella var stór karakter með einstakan húmor sem varð aldrei svaravant hver sem viðmælandinn var. Hún var ein þeirra persóna sem setja mark sitt á samferðafólk með áhrifum sínum. Okkar samferð spannar hartnær 50 ár frá því þegar ég 16 ára strákur kom inn í líf hennar og Bigga eftir að ég var farinn að rugla reytum við Erluna mína, elstu dóttur þeirra, sem síðan varð lífsförunautur minn.

Efst er mér í huga hvernig hún tók mér strax opnum örmum inn í fjölskylduna og lét mig finna að ég væri orðinn hluti af þeim, enda bauð hún mér að flytja til þeirra meðan ég var að feta mín fyrstu skref í námi.

Strax varð til vinátta milli okkar Ellu sem entist alla ævi hennar og bar aldrei skugga á.

Ella fór í hjúkrunarnám á miðjum aldri og var eftir það sú sem leitað var til ef eitthvað bjátaði á hjá einhverjum í fjölskyldunni og langt út fyrir það.

Hún var þekkt innan heilbrigðisstéttarinnar sem afburðahjúkka enda var ferillinn hennar þannig að hún þurfti oft í raun að sinna læknisstörfum og kom reynsla hennar af margra ára vinnu á slysadeild sér vel þegar hún var ráðin til Landsvirkjunar sem hjúkrunarfræðingur uppi á hálendi við virkjunarframkvæmdir en þar starfaði hún um árabil sem hjúkrunarfræðingur og þurfti oft að bregðast skjótt við og fara út á stór og erfið vinnusvæði ef slys varð eða einhver veiktist hastarlega. Eignaðist hún þar marga velunnara sem voru henni þakklátir fyrir þekkingu hennar og innsæi og jafnvel lífsbjörg.

Ella hætti aldrei að vera hjúkka þótt árin segðu hana löngu hætta og komna á eftirlaun og jafnvel þegar hún þurfti sjálf á umönnun að halda eftir að veikindi hennar ágerðust fannst henni hún þurfa að hafa hönd í bagga með ýmsu sem að hjúkrunarstörfum sneri. Þar sem hún var undir einstaklega góðri umönnun lækna og hjúkrunarfólks á líknardeild Landspítalans í Kópavogi var það allt í vinsemd og ráðin sem hún gaf voru góð.

Þegar ég lít um öxl og skoða hvað hæst stendur þá er það hversu mikill kærleiksbangsi hún var öllu samferðafólki sínu, aldrei heyrðist henni hallmælt en alltaf hrósað og ekkert aumt mátti hún sjá þá vildi hún rétta hjálparhönd eða gefa ef svo bar undir, hverfandi eiginleikar í hraða nútímans.

Allar stelpurnar mínar og barnabörn áttu í henni einstakan vin og fyrirmynd sem þau horfa nú á eftir með miklum söknuði og sorg í hjarta. Ég er Guði þakklátur fyrir árin sem ég fékk úthlutuð í samveru þessarar yndislegu konu sem með áhrifum sínum hefur verið stór hluti af lífsmynstri mínu.

Ég hneigi höfuð mitt í virðingu fyrir þessari göfugu konu, Ellu Pé tengdamóður minni, og kveð hana með söknuði og stolti fyrir að hafa fengið að vera samferðamaður hennar öll þessi ár. Eftirlifandi ættingjum og vinum votta ég innilegustu samúð.

Erling Magnússon.

Við endalok lífs er áhugavert að líta til baka á lífsferil einstaklings og hvað hann skilur eftir.

Elsku hjartans amma mín var sem ljóskyndill á vegi allra sem henni kynntust. Hún lærði hjúkrunarfræði þegar hún komst á fullorðinsár og vann við fagið alla sína ævi. Hjúkrun var henni í blóð borin og löngu áður en hún fékk löggildingu í faginu var hún búin að hjúkra fjölskyldu, vinum og ættingjum og það gerði hún einnig alveg þar til hún kvaddi okkur. Hún bar alltaf velferð annarra fyrir brjósti og setti hag þeirra ofar sínum, það skipti engum sköpum hvað klukkan var, hvort hún var að klára næturvakt eða hvort hún var spræk eins og lækur, alltaf var hún reiðubúin með hjálparhönd. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar elsta barnið mitt fæddist og þurfti að fara á vökudeildina í Reykjavík nokkrum klukkutímum eftir fæðingu. Ég bjó þá á Akureyri og við nýbökuðu foreldrarnir þurftum að fara í sjúkraflug með litla hnoðrann, mamma hafði hringt í ömmu með tíðindin og henni sagt við værum að koma með litlu elskuna á spítalann. Amma reimaði strax á sig skóna og var komin til að taka á móti okkur þegar við lentum, hún þekkti spítalaumhverfið eins og lófann á sér enda hafði þá unnið í mörg ár á bráðamóttökunni. Það var ómetanlegt að hafa ömmu þarna þegar áhyggjur og ótti fyllti hugann, hún hafði svo góða og róandi nærveru og hún vissi alveg að þetta yrði allt í lagi.

Amma var mikil bænakona og ég og fleiri urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að hún bað fyrir okkur reglulega, hún var með nöfnin okkar skráð í bænabók og á hverjum degi bað hún Guð að varðveita okkur og leiða gegnum lífið og ég trúi því að hann hafi gert það og geri áfram. Ég fetaði í hennar spor að skrá mig í hjúkrunarfræði á gamals aldri og hún elskaði að fá að fylgjast með hvernig mér gekk en reglulega sendi ég henni myndir í gegnum námið. Í verknáminu mínu hér og þar hef ég oft montað mig af ömmu og þeir sem kannast við hana hafa borið henni vel söguna. Það er ekki ofsögum sagt að ég hef alltaf verið afar stolt af henni og montin af því að vera ömmustelpan hennar. Trúin á Jesú Krist var ljósið í lífi ömmu og hún var ljósið í mínu, ég minnist hennar með kærleika og hlýju.

Elsku amma, takk fyrir allar bænirnar, knúsin, hlýjuna, virðinguna og ástina sem ég geymi í hjartanu, bless á meðan. Þín,

Arna.

Elsku hjartans ömmugullið mitt hefur kvatt okkur hinstu kveðju. Það er hálfóraunverulegt að hugsa til þess að hún eigi ekki eftir að vera hluti af lífinu aftur en hún hefur alltaf verið stór partur af mínu lífi og okkar fjölskyldunnar. Klettur sem var alltaf óhugsandi að yrði ekki á meðal okkar að eilífu.

Ég minnist ömmu með mikilli hlýju og mun sakna hennar alltaf. Það var svo gott og gaman að spjalla við hana, hvort sem það var með alvarlegum undirtón eða verið að grínast með okkur sjálfar og lífið. Það var svo gaman hvað hún var alltaf mikill húmoristi og gat oftast séð spaugilegu hliðina á lífinu. Þrátt fyrir húmorinn þá hafði hún sjálf gengið í gegnum margt sem aðrir munu aldrei upplifa og þekkti hún því og skildi hliðar lífsins sem eru minna spaugilegar en aðrar. Það var ómetanlegt að finna stuðning hennar í mínu lífi og finna að henni var ekki sama. Hún virkilega vildi mér og mínum vel og stóð fast við bakið mitt. Ég man svo vel hvað hún stóð ekki bara með mér í orðum heldur líka í verki. Ég fann að hún elskaði mig og hún var svo sannarlega elskuð til baka.

Ég ólst upp við að hafa ömmu næstum því í næsta húsi og það var hinn eðlilegasti hlutur að hlaupa yfir til ömmu í heimsókn. Það var alveg sama hvert tilefnið var, nú eða þegar það var ekkert tilefni, þá var ég alltaf velkomin í ömmuhús. Í gegnum lífið mynduðust sterk vináttubönd á milli okkar ömmu sem eru alveg ómetanleg. Síðustu mánuðina sem hún lifði áttum við mörg samtöl þar sem við ræddum innilega um margt sem við báðar höfum upplifað en einnig gátum við hlegið og haft gaman. Endalaust dýrmætar samverustundir sem ég mun geyma í hjarta mér það sem eftir er.

Elsku hjartans amman mín. Ég vildi ekki kveðja þig en að þessum tímamótum komum við víst öll einn daginn. Ég er endalaust þakklát fyrir þig og lífið þitt. Endalaust þakklát fyrir að hafa átt vináttu þína alla tíð og svo endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að fylgja þér að landamærunum þar sem þú þurftir að fara yfir ein en ég horfi á eftir þér með söknuði og sorg en ég veit að þú ert komin á góðan stað þar sem þér líður vel og hefur hitt fólkið þitt sem þú hefur misst á göngu lífsins. Þú varst ein magnaðasta kona sem ég hef kynnst og ég trúi því að við munum hittast að nýju einn daginn þegar minn tími kemur og það verða fagnaðarfundir. Ég elska þig alltaf.

Írisin þín,

Íris Erlingsdóttir.